Aðild að ESB hefur verið til umræðu í 18 ár

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/04/2008

14. 4. 2008

Það var líklegast árið 1990 sem Samband ungra jafnaðarmanna (þá ungliðahreyfing Alþýðuflokksins) hvatti íslensk stjórnvöld fyrst til að sækja um aðild að ESB. Síðan eru liðin 18 ár og ekkert hefur gerst. Stjórnmálamenn hvetja til „umræðu“ um málið sem verður að teljast svolítið hlægilegt í ljósi þess að umræðan hefur ekkert breyst á þessum tíma. […]

EvrópusambandiðÞað var líklegast árið 1990 sem Samband ungra jafnaðarmanna (þá ungliðahreyfing Alþýðuflokksins) hvatti íslensk stjórnvöld fyrst til að sækja um aðild að ESB. Síðan eru liðin 18 ár og ekkert hefur gerst. Stjórnmálamenn hvetja til „umræðu“ um málið sem verður að teljast svolítið hlægilegt í ljósi þess að umræðan hefur ekkert breyst á þessum tíma. Niðurstaðan af frekari umræðu um ESB hlýtur alltaf að verða sú sama. Stjórnvöld verða að skilgreina samningsmarkmið, sækja um aðild og sjá hvaða samningum Íslendingar ná. Fyrr verður ekki hægt að taka ákvörðun um inngöngu.

Síðan vefritið Skoðun var stofnað árið 1999 hefur umræðan ekkert breyst. Ég fæ ekki betur séð að rökin sem Brynjólfur Þór (þáverandi meðritstjóri Skoðunar) og ég settum fram í greinum hér árin 1999 og 2002 séu enn í fullu gildi.

Í grein sinni Sækjum um aðild að ESB frá 1999 segir Brynjólfur Þór:

„Fyrir þrjátíu árum síðan sögðu menn að sjálfstæði Íslands myndi líða undir lok með þátttöku landsins í Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA. Fyrir tíu árum síðan sögðu sömu menn og sporgöngumenn þeirra að sjálfstæði Íslands myndi líða undir lok með aðild okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í dag segja sömu menn að sjálfstæði landsins myndi líða undir lok með aðild að Evrópusambandinu. Er einhver ástæða til að ætla að þeir hafi rétt fyrir sér nú?”

Í niðurlagi greinar minnar Hræðsluáróður einangrunarsinna frá 2002 segir:

„Þrátt fyrir trúboð og hræðsluáróður einangrunarsinna stendur eftir að fjölmargir málsmetandi aðilar telja hagsmunum Íslendinga betur borgið innan ESB. Má það nefna fjölda virtra hagfræðinga, Samtök iðnaðarins, forystu verkalýðshreyfingarinnar, fjölmarga atvinnurekendur og marga fleiri væri hægt að nefna.

Það er skylda þeirra sem sitja á þingi að gera sitt besta til þess tryggja hagsmuni almennings. Því er það sorgleg staðreynd að forystumenn íslensku íhaldsflokkanna segja fyrirfram blákalt nei við inngöngu í ESB, án þess að kanna málin. Ef þessir aðillar væru þeirrar skoðunar að innganga í ESB yrði slæm fyrir Íslendinga sama hvaða samningar næðust, þá væri afstaða þeirra skiljanleg. Fæstir þeirra þora hins vegar að halda slíku fram. Þeir segja hins vegar flestir að þeir samningar sem ESB-sinnar segja að Íslendingar geti náð sé byggðir á óskhyggju og yrðu aldrei samþykktir.

Ég spyr aftur, hverjum eigum við að trúa? Svarið er engum. Við eigum að skilgreina samningsmarkmið okkar sem fyrst, fara svo til viðræðna við ESB og einfaldlega hafna öllum þeim samningum sem við getum ekki sætt okkur við. Aðeins með aðildarumsókn verður úr því skorið hverjir hafa rétt fyrir sér og hvort hagsmunum almennings sé betur borgið fyrir innan eða utan ESB.“

Hefur eitthvað breyst á síðustu árum? Ég held ekki. Nema kannski það að stuðningur atvinnulífsins við aðild að ESB og upptöku Evrunnar hefur aukist, eða í það minnsta orðið háværari. Rökin með og á móti eru þau sömu og þegar Ungir jafnaðarmenn hvöttu til inngöngu í ESB árið 1990. Það er jafn ljóst nú og það var þá að eina leiðin til að komast að því hvaða samningum Íslendingar ná er að sækja um aðild. Samt sem áður er stærsti stjórnmálaflokkurinn hér á landi, Sjálfstæðisflokkurinn, þeirrar skoðunar enn að ekki sé tímabært að sækja um aðild. Sjálfstæðisflokkurinn vill frekari umræðu. Umræðu um hvað? Það er búið að tala þetta mál til dauðans. Hættum þessu blaðri og sækjum um aðild.

Aðrar greinar um ESB:

Deildu