Bjarni Ben kann að hafa rétt fyrir sér

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

05/04/2014

5. 4. 2014

Fjármálaráðherra fullyrti í ræðu á flokkráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag að það væri krónunni að þakka að minna atvinnuleysi væri á Íslandi en annars staðar í Evrópu. Ótrúlegt en satt þá er þetta ekki alrangt hjá manninum. Það er í það minnsta ekki galin hugmynd að sjálfstæð mynt geti haft þessi áhrif. Þegar ólík ríki taka […]

Bjarni BenediktssonFjármálaráðherra fullyrti í ræðu á flokkráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag að það væri krónunni að þakka að minna atvinnuleysi væri á Íslandi en annars staðar í Evrópu. Ótrúlegt en satt þá er þetta ekki alrangt hjá manninum. Það er í það minnsta ekki galin hugmynd að sjálfstæð mynt geti haft þessi áhrif.

Þegar ólík ríki taka upp sama gjaldmiðilinn og hafa þannig ekki lengur stjórn á honum innan eigin landamæra kann það að hafa víðtækar og jafnvel alvarlegar afleiðingar í för með sér. Stjórnvöld geta þá ekki lengur fellt gengið eða prentað peninga eftir þörfum og þá fækkar valkostunum í erfiðu árferði.

Í slíku gjaldmiðlaumhverfi á krepputímum er líklegra að stjórnvöld í einstaka löndum neyðist til að spara mikið hjá hinu opinbera með tilheyrandi atvinnuleysi og ömurleika fyrir allan almenning. Þetta er einmitt ein helsta ástæðan fyrir því að ég, sem félagslega þenkjandi maður, hef nokkrar efasemdir um upptöku evru. (Það er svo sérstakt rannsóknarefni af hverju íslenskir íhaldsmenn, sem eru almennt talsmenn sparnaðar hjá hinu opinbera, hatast svona mikið út í Evrópusambandið.)

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að gallarnir við krónuna eru margir en ég tel mig líka vita að evran er langt frá því að vera gallalaus. Evran er engin töfralausn. Spurningin er bara hvort það sé betra að hafa evru en krónu.

Vandinn, enn og aftur, er að umræðan um Evrópusambandið og upptöku evru er á svo lágu plani hér á landi. Málefnaleg umræða um kosti og galla fer varla fram þar sem stjórnmálamenn ætla sér einfaldlega að taka ákvörðun fyrir þjóðina og málið þannig útrætt.

Af þessum ástæðum tel ég einmitt afar mikilvægt að Íslendingar klári þessar blessuðu aðildarviðræður við Evrópusambandið og ræði opinskátt og málefnalega kosti og galla þess að ganga í sambandið, og ekki síður kosti og galla þess að taka upp evru undir eftirliti Evrópska Seðlabankans.

Deildu