Klárum viðræður í nafni geðheilsu þjóðarinnar – Umsögn mín um þingsályktunartillögu um slit á aðildarviðræðum við ESB

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

08/04/2014

8. 4. 2014

Sent á Utanríkismálanefnd Alþingis Reykjavík, 8. apríl 2014 Efni: Umsögn um þingsályktunartillögu um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki, þingskjal 635, 340. mál. Kæru þingmenn sem sitjið í utanríkismálanefnd Alþingis, Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég tel að fella eigi umrædda þingsályktunartillögu. […]

Sent á Utanríkismálanefnd Alþingis
Reykjavík, 8. apríl 2014

Efni: Umsögn um þingsályktunartillögu um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki, þingskjal 635, 340. mál.

Kæru þingmenn sem sitjið í utanríkismálanefnd Alþingis,

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég tel að fella eigi umrædda þingsályktunartillögu.

EvrópusambandiðÍ fyrsta lagi er það gróf aðför að lýðræðinu þegar verðandi ráðherrar og forystumenn á Alþingi fara fram með hrein ósannindi fyrir kosningar. Forystumenn og ráðherrar núverandi stjórnarflokka, þeirra flokka sem leggja fram þessa tillögu, lofuðu því ítrekað fyrir síðustu kosningar að þjóðin fengi að kjósa um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Þessi loforð voru margítrekuð og eru sem betur fer til skjalfest. Sum loforðanna má heyra þegar þau eru endurflutt reglulega á laugardögum fyrir utan Alþingishúsið.

Í kosningastefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar stendur: „þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðargreiðslu á kjörtímabilinu.“ Formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því síðar yfir að slík kosning færi fram „á fyrri hluta kjörtímabilsins“.

Formaður Framsóknarflokksins sagði þegar ný ríkisstjórn var mynduð: „að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Fjórum mánuðum fyrir kosningar sagði formaður Framsóknarflokksins og núverandi forsætisráðherra: „Ég held að það sé engin spurning að það þurfi að leyfa almenningi að koma að þessu“. Þegar formaður Framsóknarflokksins var aftur spurður, í öðrum sjónvarpsþætti nokkrum dögum síðar, hvort ekki stefndi í þjóðaratkvæðagreiðslu svaraði hann: „Jújú. Miðað við þá stöðu sem er uppi í pólitíkinni. Fylgi flokka og svona. Það hlýtur að stefna í það.“

Þess má geta að staðan í pólitíkinni á þessum tíma og fylgi flokka benti eindregið til þess að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur myndu mynda ríkisstjórn eftir kosningar.

Eftir kosningar vilja forystumenn núverandi stjórnarflokka annað hvort ekki kannast við eigin loforð eða beinlínis lýsa því yfir að loforðin hafi einungis verið varnaglar. Slíkur málatilbúnaður er ráðherrum og þingmönnum ekki sæmandi.

Að auki hafa margir talsmenn þessa flokka útskýrt, eftir kosningar, að slit á aðildarviðræðum samræmist fullkomlega stefnuskrá og loforðum þeirra fyrir kosningar þar sem báðir flokkarnir telja Íslandi betur borgið utan Evrópusambandsins. Benda þeir á að kjósendur hefðu mátt vita að kæmust þeir til valda myndi aðildarviðræðum verða slitið. Enn fremur benda þeir á að þeir flokkar sem hafa aðildarviðræður að ESB á sinni stefnuskrá hafi tapað í kosningunum. Málatilbúnaður sem þessi er heldur ekki sæmandi þingmönnum og ráðherrum á hinu háa Alþingi.

Eins og sjá má á mótmælum eftir kosningar og skoðanakönnunum sem birtar hafa verið eftir kosningar er alveg augljóst að margir kusu þessa flokka einmitt vegna þess að þeir lofuðu því að þjóðin fengi að kjósa um áframhaldandi aðildarviðræður. Margir trúðu og voru sammála Ragnheiði Elínu Árnadóttur, núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þegar hún sagði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í kosningasjónvarpi RÚV:

„Það sem mér þykir mestu máli skipta er að þjóðin fái að greiða um það atkvæði hvort þessu verði haldið áfram eða ekki. Og ég treysti þjóðinni til þess að taka upplýsta ákvörðun. Vegna þess hversu mikið ágreiningsmál þetta er, milli flokka, milli þjóðarinnar, milli landsbyggðar og höfuðborgar, þetta fer í gegn um fjölskyldur, eina leiðin til að komast að niðurstöðu um það hvert skuli halda núna, er að spyrja þjóðina.“

Enginn getur svarað því hversu mörg atkvæði núverandi ríkisstjórnarflokkar græddu á því að lofa því ítrekað fyrir kosningar að ákvörðun um áframhald aðildarviðræðna yrði tekin af þjóðinni í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ljóst má þó vera að flokkarnir hafi fengið í það minnsta nokkur atkvæði út á þetta skýra loforð. Meira en hugsanlegt er að þessir flokkar hefðu alls ekki fengið þann meirihluta sem þeir hafa nú hefðu talsmenn þeirra sagt satt fyrir kosningar og lýst því yfir með skýrum hætti að aðildarumsókn yrði dregin til baka.

Með öðrum orðum er vald núverandi stjórnarflokka að einhverju leyti keypt með loforðum sem aldrei stóð til að standa við. Samkvæmt minni siðferðiskennd er siðferðilega rangt að þiggja gríðarlegt vald af íslensku þjóðinni með slíkum hætti. Ég bið ykkur sem sitjið í utanríkismálanefnd vinsamlegast um að velta upp þessari siðferðisspurningu: „Er í lagi að segja ósatt um einfalt kosningamál fyrir kosningar með það eitt að markmiði að fá sem flest atkvæði?“

Hafið sérstaklega í huga að kosningaloforðið sem um ræðir er í senn skýrt og auðvelt að efna það. Það eina sem þarf að gera er að leyfa þjóðinni að kjósa.

Í öðru lagi vil ég benda ykkur á að samþykkt tillögunar getur auðveldlega skaðað hagsmuni Íslendinga. Verði aðildarviðræðum slitið virðist ljóst að hefja þarf ferlið alveg upp á nýtt kjósi framtíðarþingmenn, eða þjóðin, að sækja aftur um aðild. Það eru engin sérstök rök fyrir því að það sé að einhverju leyti betra að slíta viðræðum en til dæmis að gera formlegt hlé á viðræðum. Litið verður á viðræðuslit sem sérstakt skemmdarverk þeirra sem alls ekki vilja ganga inn í ESB og ljóst að slík ákvörðun mun gera lítið annað en að auka á sundurlyndi í samfélaginu og draga enn frekar úr trausti almennings á stjórnmálamönnum.

Í þriðja lagi verður stórt álitamál sem þetta ekki leyst nema með beinni aðkomu þjóðarinnar. Lágmark er að gefa almenningi kost á að kjósa um hvort aðildarviðræðum verði haldið áfram. Að mínu mati er þó lang skynsamlegast að klára aðildarviðræðurnar, fá heim samning, og leyfa þjóðinni svo að kjósa um hvort hún vilji ganga inn í Evrópusambandið eftir ítarlega kynningu og umræðu um þann samning sem verður í boði.

Ég sætti mig ekki, sem borgari þessa lands, við að hagsmunaaðilar og þingmenn segi mér fyrirfram hverjir kostir og gallar ESB eru. Ástæðan er einföld. Ég treysti engum nema mér sjálfum til að taka upplýsta ákvörðun svo stór mál og þá út frá bestu mögulegu upplýsingum.

Umræðan um hugsanlegar aðildarviðræður Íslands við ESB hefur nú staðið yfir í nær aldarfjórðung. Ef ég man rétt var það Samband ungra jafnaðarmanna, þá ungliðahreyfing Alþýðuflokksins, sem lagði fyrst til árið 1992 að Ísland gerðist aðili að sambandinu. Nokkru síðar gerði Alþýðuflokkurinn sálugi sjálfur málið að einu aðal kosningamáli sínu. Frá þessum tíma hafa stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar karpað um Evrópusambandið.

Þó ég taki ekki virkan þátt í flokkapólitík í dag þá skal ég viðurkenna hér og nú að ég gekk fyrir um 18 árum í Alþýðuflokkinn og starfaði þar sem ungliði um tíma og síðar í einhver ár hjá Samfylkingunni. Á þessum árum sat ég fjölmarga fundi um Evrópumál þar sem helstu fylgendur og andstæðingar mættu til að upplýsa áheyrendur um allan sannleikann um Evrópusambandið.

Með þessa reynslu í farteskinu get ég upplýst ykkur að umræðan hefur nánast ekkert breyst frá árinu 1996. Sama fólkið (sumt enn á þingi) er sannfært um að Ísland geti aldrei náð góðum samningum við Evrópusambandið og því sé óþarfi að sækja um. Sama fólkið (sumt enn á þingi) er sannfært um að Íslendingar geti grætt verulega á því að ganga inn í ESB.

Ég er persónulega búinn að þurfa að hlusta á rök með og á móti ESB í 18 ár. Átján ár! Satt best að segja er ég orðinn þreyttur á þessu þrasi, og ég held að margir samlandar mínir séu einnig búnir að fá nóg.

Því bið ég ykkur, í nafni geðheilsu minnar og þjóðarinnar, að draga tillögu um slit á aðildarviðræðum til baka og leyfa almenningi að kjósa um framhaldið. Ef almenningur velur að halda viðræðum áfram getum við vonandi loksins klárað samningaviðræður og tekið upplýsta ákvörðun sjálf.

Með vinsemd og virðingu,

Sigurður Hólm Gunnarsson
Forstöðumaður

Meira um ESB á Skodun.is:

Deildu