Hræðsluáróður einangrunarsinna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

27/03/2002

27. 3. 2002

Ungir jafnaðarmenn eru einu stjórnmálasamtökin sem hafa það á stefnuskrá sinni að Ísland sæki um inngöngu í Evrópusambandið (ESB). Það er vegna þess að þeir telja, rétt eins og meirihluti þjóðarinnar, að viðskipta- og menningarlegum hagsmunum okkar sé betur borgið í nánu sambandi við aðrar Evrópuþjóðir innan ESB. Fulltrúar tveggja íhaldsflokka, Sjálfstæðisflokksins og VG, hafa […]

Ungir jafnaðarmenn eru einu stjórnmálasamtökin sem hafa það á stefnuskrá sinni að Ísland sæki um inngöngu í Evrópusambandið (ESB). Það er vegna þess að þeir telja, rétt eins og meirihluti þjóðarinnar, að viðskipta- og menningarlegum hagsmunum okkar sé betur borgið í nánu sambandi við aðrar Evrópuþjóðir innan ESB. Fulltrúar tveggja íhaldsflokka, Sjálfstæðisflokksins og VG, hafa lýst sig harðlega andsnúna aðildarviðræðum við ESB vegna þess að þeir segjast vita það fyrirfram að Íslendingar geti ekki náð samningum sem þjóðin getur sætt sig við og segja því að aðildarumsókn sé tímasóun. Þeir sem eru fylgjandi aðild halda þveröfugu fram.

Andstæð sjónarmið – hverjir hafa rétt fyrir sér?


ESB-sinnar segja að aðild sé hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, andstæðingar tala um fullveldisafsal. Þeir sem eru andvígir aðild halda því ítrekað fram að fiskimiðunum þurfi að fórna til að komast inn í sambandið, ESB-sinnar eru þessu ósammála, og svo mætti lengi telja. Menn eru einfaldlega ósammála því hvernig samningum Íslendingar næðu ef þeir myndu sækja um inngöngu í ESB.

Undirritaður hefur líklegast farið á tugi málþinga um ,,Hvort Ísland eigi að sækja um aðild að ESB?“ og fylgst með margfalt fleiri kappræðum um sama efni í sjónvarpinu. Alltaf er það sama sagan. ESB-andstæðingar segja að allt sé ómögulegt, við fengjum aldrei ásættanlegan samning á meðan þeir sem vilja ganga í sambandið lofa því að við gætum náð góðum samningum sem auka myndi hagsæld Íslendinga.

Athyglisvert er að í öllum þessum umræðum eru það aðeins þeir sem telja að getum fengið góðan samning sem vilja ganga til viðræðna við sambandið og sýna almenningi þannig fram á að þeir hafa rétt fyrir sér. Andstæðingar taka slíkt ekki í mál. Þeir vilja bara að kjósendur trúi þeim í blindni.

Hagsmunum almennings best borgið með því að sækja um aðild
Þrátt fyrir trúboð og hræðsluáróður einangrunarsinna stendur eftir að fjölmargir málsmetandi aðilar telja hagsmunum Íslendinga betur borgið innan ESB. Má það nefna fjölda virtra hagfræðinga, Samtök iðnaðarins, forystu verkalýðshreyfingarinnar, fjölmarga atvinnurekendur og marga fleiri væri hægt að nefna.

Það er skylda þeirra sem sitja á þingi að gera sitt besta til þess tryggja hagsmuni almennings. Því er það sorgleg staðreynd að forystumenn íslensku íhaldsflokkanna segja fyrirfram blákalt nei við inngöngu í ESB, án þess að kanna málin. Ef þessir aðillar væru þeirrar skoðunar að innganga í ESB yrði slæm fyrir Íslendinga sama hvaða samningar næðust, þá væri afstaða þeirra skiljanleg. Fæstir þeirra þora hins vegar að halda slíku fram. Þeir segja hins vegar flestir að þeir samningar sem ESB-sinnar segja að Íslendingar geti náð sé byggðir á óskhyggju og yrðu aldrei samþykktir.

Ég spyr aftur, hverjum eigum við að trúa? Svarið er engum. Við eigum að skilgreina samningsmarkmið okkar sem fyrst, fara svo til viðræðna við ESB og einfaldlega hafna öllum þeim samningum sem við getum ekki sætt okkur við. Aðeins með aðildarumsókn verður úr því skorið hverjir hafa rétt fyrir sér og hvort hagsmunum almennings sé betur borgið fyrir innan eða utan ESB.

Ítarefni

Evrópuályktun Ungra jafnaðarmanna 2001

Ísland í Evrópu – Greining á samningsmarkmiðum Íslands við hugsanlega aðildarumsókn að ESB. Reykjavík 2001. Ritstjóri: Eiríkur Bergmann Einarsson.

Deildu