Mikill áhugi á borgaralegum athöfnum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

08/04/2002

8. 4. 2002

Fjórtánda borgaralega ferming Siðmenntar var haldin í Háskólabíói í gær. Fjörutíu og níu krakkar fermdust borgaralega að þessu sinni og um 900 manns voru viðstaddir athöfnina. Samanlagt hafa því um 500 börn fermst borgaralega frá árinu 1989 og nálægt 7000 vinir og vandamenn hafa fylgst með þessum borgaralegu manndómsvígslum. Hvað er borgaraleg ferming? Enn virðist […]

Fjórtánda borgaralega ferming Siðmenntar var haldin í Háskólabíói í gær. Fjörutíu og níu krakkar fermdust borgaralega að þessu sinni og um 900 manns voru viðstaddir athöfnina. Samanlagt hafa því um 500 börn fermst borgaralega frá árinu 1989 og nálægt 7000 vinir og vandamenn hafa fylgst með þessum borgaralegu manndómsvígslum.

Hvað er borgaraleg ferming?
Enn virðist ríkja nokkur misskilningur í samfélaginu um hvað felst í borgaralegri fermingu. Þegar undirritaður var í viðtali á Útvarpi Sögu um daginn var hann t.d. spurður hvað það þýddi að vera fermdur borgaralega. Er barnið ,,að staðfesta sig sem Reykvíking?“ spurði einn hlustandinn stríðnislega.

Orðið ferming er dregið að latneska orðinu ,,confirmare“ sem táknar m.a. ,,að styrkjast“ eða ,,að styðja“. Í fermingarfræðslu Siðmenntar læra nemendur að tileinka sér heilbrigð og farsæl viðhorf eins og þau að bera virðingu fyrir náunganum. Þau læra einnig töluvert um rökhugsun og umburðalyndi, frelsi, að bera ábyrgð á eigin lífi og mannleg samskipti. Því má segja að með borgaralegri fermingu séu börnin að styrkjast í þeirri viðleitni sinni að vera ábyrgir fullorðnir einstaklingar sem eru reiðubúnir að taka þátt í samfélaginu á uppbyggilegan máta.

Mönnum má því vera ljóst að ferming er ekki einungis kristið fyrirbrigði. Orðasambandið ,,borgaraleg ferming“ er því alls ekki óeðlilegt en kannski nokkuð framandi þar sem Íslendingar eru margir hverjir ekki enn orðnir vanir öðru en kirkjulegri fermingu.

Fyrir hvað stendur Siðmennt?
Þrátt fyrir að Siðmennt hafi verið starfandi frá árinu 1990 þá vita margir ekki enn nákvæmlega hvað Siðmennt er og hvers vegna félagið er að bjóða upp á borgaralegar athafnir.

Siðmennt byggir á þeirri hugmyndafræði sem hefur verið kölluð á íslensku siðrænn húmanismi. Í hnotskurn má segja að í henni felist sú skoðun að maðurinn sé sjálfur ábyrgur fyrir velfarnaði sínum en ekki það sem hefur verið kallað ,,æðri máttarvöld“. Siðrænir húmanistar telja einnig að vísindalegar aðferðir og rökhugsun reynist mönnum best við að skilja umheiminn. Þeir telja að flest þau vandmál sem maðurinn stendur frammi fyrir verði helst leyst með skynsemi, þekkingu og rökhugsun en ekki með kreddum. Jafnframt er það sannfæring siðrænna húmanista að allt sem til sé í heiminum sé hluti af náttúrunni og því sé ekkert til sem er yfirnáttúrulegt.

Borgaraleg ferming er mikilvægur valkostur fyrir þau börn sem vilja taka þátt í þeirri fullorðinsvígslu sem felst í fermingu en eru um leið ekki reiðubúin að strengja trúarheit eða vilja ekki, af einhverjum ástæðum, taka þátt í hefðbundinni fermingu. Það er mikilvægt að eiga það val sem borgaraleg ferming er. Á fermingarnámskeiðum Siðmenntar er gengið út frá tveim meginreglum. Í fyrsta lagi að það sé í lagi að vera öðruvísi og í öðru lagi að þátttakendur séu heiðarlegir. Allir þeir sem telja sig geta uppfyllt þessi skilyrði geta tekið þátt í borgaralegri fermingu.

Tengsl við önnur félög
Siðmennt á sér systurfélög víðsvegar um heiminn. Helsta fyrirmynd Siðmenntar mun þó vera Norska húmanistahreyfingin eða Human etisk forbund (HEF). HEF var stofnað árið 1956 og voru stofnfélagar 256 (félagar í Siðmennt eru um 200). Árið 1980 voru félagar í HEF orðnir 5000 talsins en síðan óx félagið mjög hratt þannig að í dag eru hvorki meira né minna en 63.000 skráðir félagar í norsku samtökunum.

Á síðasta ári fermdust um 8700 börn borgaralega á vegum HEF. Það eru um 15% allra norskra unglinga. Um 20% unglinga sem búa í Ósló völdu að fermast borgaralega á síðasta ári. Til samanburðar fermast um 1% íslenskra fermingarbarna borgaralega. Miklar líkur eru því á að borgaralegum fermingum fari ört fjölgandi á næstu árum.

Mismunandi stuðningur ríkisins
Ástæðan fyrir þessum skyndilega vaxtakipp norska félagsins má eflaust rekja einna helst til þess að HEF fékk hlutdeild í norsku ,,sóknargjöldunum“. Rétt eins og hér heima sér norska ríkið um að rukka inn svokölluð sóknargjöld fyrir trúsöfnuði landsins þannig að ríkið afhendir trúfélögum ákveðna upphæð í samræmi við fjölda sóknarbarna. Norska húmanistafélaginu tókst árið 1981 að fá viðurkenningu sem trúfélag og fékk svo fljótlega lögunum breytt þannig að skattar þessir renna einnig til lífsskoðanafélaga, auk trúfélaga. Þetta þýðir að þeir sem kjósa að standa utan trúfélaga geta skráð sig í lífsskoðanafélag og þá renna ,,sóknargjöld“ viðkomandi til þess félag, í þessu tilfelli til HEF.

Þetta er mikið réttlætismál sem Íslendingar ættu að skoða alvarlega því eins og staðan er í dag hér á landi renna öll svokölluð sóknargjöld þeirra sem standa utan trúfélaga til Háskóla Íslands. Þetta þýðir að utantrúfélagsfólk borgar meira til háskólamenntunar en annað fólk. Þeir sem kjósa að standa utan trúfélaga fá ekki val um að láta sóknargjöld sín renna til þess lífsskoðanafélags sem þeir kjósa. Er það von undirritaðs að breyting verði á þessu fyrirkomulagi mjög fljótlega enda er hér um klárlega mismunun að ræða.

Borgaralegar athafnir komnar til að vera
Reynsla og viðbrögð almennings undanfarin ár sýna svo ekki verður um villst að borgaralegar athafnir eru komnar til að vera á Íslandi. Mikið hefur færst í vöxt að fólk hafi samband við Siðmennt og spyrjist fyrir um borgaralegar útfarir, nafngiftir og hjónavígslur.

Starfsemi Siðmenntar hefur hingað til fyrst og fremst snúist í kringum fermingar en er það eitt af aðalmarkmiðum félagsins að miðla upplýsingum um og standa að annars konar borgaralegum athöfnum. Ýmis góð verk hafa verið unnin en betur má ef duga skal.

Ljóst er að eftirspurnin eftir borgaralegum valkostum á hátíðar- og sorgarstundum er nokkuð mikil og virðist vera stöðugt vaxandi. Það sem stendur Siðmennt helst fyrir þrifum er hvorki skortur á vilja né áhuga heldur fjármagni. Starfsemin fer mestmegnis fram með sjálfboðavinnu félagsmanna, enda duga félagagjöldin (sem eru 2000 krónur á ári) ekki til að Siðmennt geti haft starfsmenn til að vinna að fullum krafti að þessum mikilvægu málum. Þessi staðreynd leiðir hugann ósjálfrátt að því hve miklu Siðmennt gæti áorkað ef lífsskoðanafélög nytu sama stuðnings og trúfélög njóta af hálfu ríkisins.

Hamingjuóskir
Að endingu langar mig til að óska fermingarbörnum gærdagsins og aðstandendum þeirra til hamingju með áfangann.

Deildu