Sækjum um aðild að ESB

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

27/09/1999

27. 9. 1999

Fyrir þrjátíu árum síðan sögðu menn að sjálfstæði Íslands myndi líða undir lok með þátttöku landsins í Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA. Fyrir tíu árum síðan sögðu sömu menn og sporgöngumenn þeirra að sjálfstæði Íslands myndi líða undir lok með aðild okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í dag segja sömu menn að sjálfstæði landsins myndi líða […]

Fyrir þrjátíu árum síðan sögðu menn að sjálfstæði Íslands myndi líða undir lok með þátttöku landsins í Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA. Fyrir tíu árum síðan sögðu sömu menn og sporgöngumenn þeirra að sjálfstæði Íslands myndi líða undir lok með aðild okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í dag segja sömu menn að sjálfstæði landsins myndi líða undir lok með aðild að Evrópusambandinu. Er einhver ástæða til að ætla að þeir hafi rétt fyrir sér nú?


Helstu kostir aðildar
Það helsta sem vinnst með því að við gerumst aðilar að Evrópusambandinu er eftirfarandi. Við verðum aðilar að ákvarðanatökunni sem við látum nú yfir okkur ganga, við fáum tollfrjálsan aðgang fyrir allar sjávarútvegsafurðir að okkar mikilvægustu mörkuðum, íslenskar útgerðir munu geta leitað sér erlendra fjárfesta, við tryggjum íslenskum námsmönnum sama rétt og öðrum Evrópubúum til framhaldsnáms og matvælareikningar íslenskra heimila munu lækka verulega. Margt fleira má telja til en verður ekki gert að svo stöddu.

Sameiginlegur markaður og sameiginleg mennta- og vísindaverkefni geta leitt til stórfelldra hagsbóta fyrir Íslendinga rétt eins og aðrar Evrópuþjóðir. Þeim sem mæla á móti þessu ná að því er virðist oftast mega skipta í tvo hópa: sérhagsmunaaðila og þjóðernissinna af gamla skólanum sem telja sjálfstæði ganga út á að fá að vera einir með öll sín mál. Hvorugir þessara aðila eru til þess fallnir að vinna íslensku þjóðinni gagn.

Sjávarútvegsstefnan er engin hindrun
Þrátt fyrir að menn hafi gert mikið úr því að sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins komi í veg fyrir aðild okkar að sambandinu hafa öll rök þeirra sem þannig tala verið hrakin fyrir löngu.

Staðreyndin er einfaldlega sú að lögsaga Íslands liggur hvergi að lögsögu Evrópusambandsríkja, Ísland og Evrópusambandið eiga enga sameiginlega fiskistofna og þjóðir Evrópusambandsins eiga enga fiskveiðireynslu hér við land sem kynni að hafa áhrif á kvótaúthlutun. Þessu til viðbótar má nefna að það er eitt af markmiðum Evrópusambandsins að taka tillit til hagsmuna jaðarsvæða og í raun og veru má segja að Ísland er að þessu leiti jaðarsvæði í mörg hundruð milljóna Evrópu nútímans.

Þá hafa menn rætt um að kvótahopp sé hinn mesti skaðvaldur í Evrópu í dag. Þeir sem þannig tala, og þeir eru enn í dag sumir, hafa augljóslega ekkert fylgst með. Þegar hefur verið komið í veg fyrir kvótahopp með kröfu um efnahagsleg tengsl útgerðarmanna við þau lönd þar sem þeir fá kvóta úthlutað. Þannig verða menn að gera út frá því landi þar sem þeir fá kvótanum úthlutað og landa þar vissum lágmarkshluta.

Sjálfstæðið misskilið
Margir þjóðernislega þenkjandi menn hafa fundið það upp að með því að taka þátt í samstarfi Evrópuþjóða á vettvangi Evrópusambandsins séu Íslendingar að afsala sér sjálfstæði sínu. Til marks um það er bók Ragnars Arnalds Sjálfstæðið er sívirk auðlind sem kom út á síðasta ári.

Þó virðist manni sem svo að þessir aðilar misskilji sjálfstæðishugtakið og telji að sjálfstæðið eigi að tryggja að ríki fái að vera í friði með sín mál án þess að eiga nokkur samskipti við önnur ríki. Það er ekki sjálfstæði heldur einangrun. Sjálfstæðið snýst ekki um að vera einn á báti heldur að hafa áhrif á sín mál. Að hafa eitthvað um það að segja hvernig heimurinn lítur út og stöðu okkar í honum. Það ræður ekkert ríki öllum sínum málum sjálft án áhrifa annarra ríkja. Ekki Bretland, ekki Bandaríkin, ekki Kína og vissulega ekki litla Ísland. Það sem við getum hins vegar gert er að hámarka áhrif okkar.

Það gerum við ekki með því að loka okkur frá umheiminum heldur með því að taka þátt í alþjóðlegu og fjölþjóðlegu samstarfi.

Deildu