Dönskukennsla í grunnskólum

Logo

25/09/1999

Höfundur:

25. 9. 1999

Á sumri liðnu fékk undirritaður spurningalista á vegum Auðar Hauksdóttur, lektors í dönsku við Háskóla Íslands, inn um bréfalúguna. Þessi listi var í stuttu máli liður í rannsókn hennar á því hvernig íslenskum námsmönnum í Danmörku (sem undirritaður er) gengur að nota dönskuna sem tjáskiptatæki í framhaldsnámi sínu. Niðurstöðurnar hyggst hún svo kynna íslenskum dönskukennurum […]

Á sumri liðnu fékk undirritaður spurningalista á vegum Auðar Hauksdóttur, lektors í dönsku við Háskóla Íslands, inn um bréfalúguna. Þessi listi var í stuttu máli liður í rannsókn hennar á því hvernig íslenskum námsmönnum í Danmörku (sem undirritaður er) gengur að nota dönskuna sem tjáskiptatæki í framhaldsnámi sínu. Niðurstöðurnar hyggst hún svo kynna íslenskum dönskukennurum í von um að það geti nýst í umræðum um markmið og leiðir í dönskukennslu. Stór hluti af efni þessarar könnunar var að kanna hvernig dönskunám í grunnskóla hafi nýst í því að læra tungumálið og er það aðalumtalsefni þessarar greinar minnar.


Dönskunám í grunnskóla skilar sér ekki
Ég tel að dönskukennsla sem skyldufag í grunnskóla eigi ekki rétt á sér. Ástæðan fyrir því er einföld. Námið á grunnskólastigi skilar sér engan veginn og er sóun á skattfé landsmanna.

Staðreyndin er sú að nemendur kunna lítið sem ekkert fyrir sér í dönsku að loknum grunnskóla. Þeir kunna eitthvað smávegis fyrir sér í málfræði (svona það sem þeir geta tengt við það sem þeir kunna í íslenskri málfræði), geta kannski skrifað lítinn einfaldan stíl um hvað þeir sáu á leiðinni í skólann (eða þannig), geta e.t.v. fyllt í eyður í upplestri á dönskum texta (ef hann er spilaður nógu hægt og endurtekinn nokkrum sinnum) og eitthvað örlítið annað miður gagnlegt. Það sem þeir kunna aftur á móti ekki og það sem má telja það mikilvægasta við að kunna tungumál, er að tala og skilja málið (námsmaður í Danmörku hefur ekkert að gera við málfræði ef hann getur ekki talað eða skilið Dani).

Ástæðurnar
Ástæðurnar fyrir því að nemendur eru ekki betri en þetta í þessu tungumáli að loknum grunnskóla eru margar.

Í fyrsta lagi er áreiti frá danskri tungu í okkar þjóðfélagi nær ekkert. Af erlendum efnum sýna ljósvakamiðlarnir langmest efni á ensku og vinsælasta bíóefnið kemur frá Ameríku. Það er því engin furða að mikill hluti barna kann all mikið fyrir sér í ensku, jafnvel áður en þeir byrja að læra tungumálið í skólum (þetta kann að vera eitthvað breytt eftir að það var byrjað að talsetja nær allt barnaefni á íslensku). Þetta á einnig við um hinar norðurlandaþjóðirnar sem allar eru mjög góðar í enskri tungu.

Lengi hefur verið sagt um dönskuna að til þess að geta talað hana þurfi viðkomandi að vera með kartöflu í hálsinum til að skiljast. Ekki ætlar undirritaður að taka undir þetta þar sem slíkt fór alveg að takast án þess, eftir að hafa búið Danmörku í smá tíma. Staðreyndin er samt sú að námið í skóla eitt og sér, og án þessa utanaðkomandi áreitis, býður einfaldlega ekki uppá að nemendur nái tökum á talmálinu. Það er því engin furða að nemendum finnst eins leiðinlegt í dönskukennslu eins og raun ber vitni, þar sem ekkert gengur við að skilja málið, þrátt fyrir að þeir leggi sig alla fram við námið. Enn fremur gerir samanburðurinn við enskunámið (verandi hitt erlenda tungumálið sem nemendurnir læra) ekkert gott, þar sem það gengur mun betur meðal flestra.

Danska í framhaldsskóla
Ég tel að það ætti að spara “dönskuþol” nemenda þangað til þeir koma í framhaldsskóla. Eins og algengt er í framhaldsskólum í dag læra allir nemendur ensku og dönsku og velja sér þýsku, frönsku eða spænsku sem þriðja tungumál (þ.e.a.s. ef þeir eru ekki á námsbrautum sem krefjast frekari tungumálakunnáttu). Ég hugsa að námsárangur í dönsku í framhaldsskólum yrði alveg stórbættur með þessu móti þar sem nemendur væru að byrja alveg frá grunni og án þess að hafa alið með sér áralangt hatur gagnvart málinu.

Ég tel einnig að skoða mætti að hafa dönskuna sem einungis eitt af valtungumálunum. Ég lít á tungumálanám í skólum sem tæki til þess að öðlast þekkingu til þess að geta haldið uppi tjáskiptum við þjóðir sem annars væri erfitt að halda uppi. Sem tæki til tjáskipta við Dani eða aðra norðurlandaþjóðir, er enskan feykinóg. Grundvöllur til þess að læra dönsku er að mínu mati ekki meiri en svo að gott væri að hafa einhvern grunn í málinu áður en haldið væri brott af landi til þess að búa í Danmörku. Maður lærir málið hvort eð er ekki fyrr en maður er búinn að vera úti í einhvern tíma og eins og í mínu tilfelli, (þrátt fyrir að hafa lært meiri dönsku í framhaldsskóla en ég þurfti) var að tala ensku fyrstu dagana/vikurnar hérna úti.

Niðurstaða
Ég tel rangt að réttlæta dönskukennslu í grunnskóla í mörg ár til þess eins að geta borið fyrir sér örlitla málfræðikunnáttu og getu til þess að skrifa einfalda dönsku. Eins og fyrr sagði er komin upp sú kynslóð, bæði hér á Íslandi sem og á hinum norðurlöndunum, sem er velbjargandi á enskri tungu, bæði á skrifuðu máli sem og töluðu, og væri því peningum til menntamála betur varið í önnur fög en dönskukennslu í grunnskólum. (Sjá betur síðurnar um Menntun með markmið fyrir hugmyndir um slíkt.)

Ef velja ætti eitthvað tungumál til að byrja að kenna strax í barnaskóla, sé ég miklu meira vit í að kenna þýsku eða frönsku (eða jafnvel spænsku), þar sem þessi tungumál eru mun útbreiddari en danskan og Frakkar og Þjóðverjar (og Spánverjar) almennt ekkert sértaklega góðir í ensku. Í þessum löndum er líka allt/velflest sjónvarps- og bíóefni á þjóðtungunum, þar sem þessar þjóðir tala inná þetta efni á sínum eigin þjóðtungum.

Þorsteinn Örn Kolbeinsson

Deildu