Ef ég fengi einhverju ráðið myndi stjórnarsáttmáli líta einhvern veginn svona út:
- Með öllum tiltækum ráðum skal koma í veg fyrir að nýtt bóluhagkerfi myndist. Bóluhagkerfi og skuldasöfnun einkaaðila er uppskrift að hruni. Hruni sem bitnar að lokum mest á þeim sem minnst hafa á milli handanna. Með aðstoð sérfræðinga, innlendra sem erlendra skal endurskoða og eftir þörfum herða reglur og eftirlit um lánastarfsemi og viðskiptagjörninga. Þá má sérstaklega skoða reglur um húsnæðislán. Til dæmis með því að setja reglur um hámarksupphæð lána sem miðast við mögulegar leigutekjur af húsnæðinu sem á að kaupa yfir ákveðið tímabil. Einnig má skoða hvort ekki megi setja lög sem að tryggir að í framtíðinni geti lántakendur sem ekki geta staðið í skilum geti einfaldlega skilað eign sinni til lánastofnanna og verið þá laust allra mála. Með því að gera lánveitendur ábyrgari fyrir lánum fækkar eflaust lánatilboðum og lánsfjárhæðirnar verða lægri. Enginn banki er til í að lána ef miklar líkur eru á því að bankinn sjálfur tapi mikið á því ef skuldari hættir að geta borgað.
- Efla stöðu leigjenda í íslensku samfélagi. Tekjulægri hópar landsins hafa ekki efni á því að kaupa sér íbúð og neyðast til að vera á leigumarkaði. Þar að auki er ekki sjálfsagt að það sé betra fyrir samfélög og einstaklinga að allir „eigi“ sitt eigið húsnæði. Stórefla þarf möguleika fólks til að leigja íbúðir í öruggu og hagstæðu umhverfi. Skoða þarf alvarlega hvort ekki megi hækka húsleigubætur og gefa mun tekjuhærri hópum aðgang að slíkum bótum. Nánast enginn fær húsaleigubætur í dag nema sá sem er með sultarlaun. Þetta er undarleg staðreynd í landi þar sem mörgum finnst sjálfsagt að fella niður skuldir fólks flatt, óháð tekjum og eignastöðu að öðru leyti.
- Skipta þarf um gjaldmiðil eða tengja krónuna beint við stærri gjaldmiðil. Ef ekki verður skipt um gjaldmiðil er ljóst að ekki er hægt að draga að neinu marki úr verðtryggingu, hvað þá banna hana. Efla þarf almenna fræðslu um ólíkar leiðir til að reikna út vexti, þar á meðal um verðtryggingu. Núverandi gjaldmiðill Íslendinga er helsta ástæðan fyrir því að kaupmáttur minnkaði í hruninu. Um leið og krónan fellur verða öll erlend aðföng dýrari og það kemur sannarlega við buddu landsmanna. Þjóðernishyggja og kredduhugsun má ekki stýra umræðunni um gjaldmiðilinn. Klára þarf aðildarviðræður við Evrópusambandið og leyfa fólki að kjósa um fullgerðan samning.
- Skoða þarf alvarlega hvernig hægt er að koma til móts við fólk sem tók lán á versta tíma fyrir hrun. Til dæmis með skuldaleiðréttingu eða skattaívilnun. Þetta má þó ekki gera án þess að skoða tekjur og eignastöðu fólk að öðru leyti. Flöt skuldalækkun er bæði ósanngjörn og kostnaðarsöm. Afar ósanngjarnt er að almenningur sem jafnvel ekkert á þurfi að greiða niður eða ábyrgjast skuldir stóreignafólks. Komi til skuldalækkana verður það ekki gert nema samhliða verði tryggt eins og hægt er að ekki myndist nýtt bóluhagkerfi. Hafa verður í huga að þeir sem skulda húsnæðislán eru ekki þeir einu sem urðu fyrir forsendubresti í kjölfar hruns. Fátækir leigjendur hafa til að mynda orðið fyrir kaupmáttarrýrnun. Þeim má ekki gleyma þó þeir myndi ekki eins sterkan þrýstihóp.
- Taka þarf eðlilegt gjald fyrir afnot af auðlindum landsins. Auðlindir eru ekki óþrjótandi en þær eru dýrmætar. Kominn er tími til að hætta að beygja sig fyrir stórfyrirtækjum sem þykjast ekki geta greitt fyrir afnot að auðlindum. Leyfum slíkum fyrirtækjum að fara. Aðrir munu koma í staðinn. Það er engin hætta á öðru. Svo lengi sem fólk sér einhvern hag í því að nýta auðlind mun það nýta hana. Það er jafn sjálfsagt að greiða fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum og að borga skatta til að halda úti samfélagsþjónustu. Flestir Íslendingar mæta til vinnu þó þeir þurfi að borga töluverða skatta (þó ekki sérstaklega háa miðað við önnur lönd). Það nákvæmlega sama á við um einstaklinga og fyrirtæki sem vilja nýta sér auðlindir landsins. Fólk vill græða, jafnvel þó það græði aðeins minna.
- Tryggja þarf að hér sé sanngjarnt skattkerfi þar sem stórfyrirtæki og sterkir hagsmunaaðilar greiða skatta eins og aðrir. Langflestir kvarta yfir hærri sköttum. Það er ofureðlilegt. Okkur finnst flestum leiðinlegt að hafa minni pening á milli handanna. Munurinn á almenningi, venjulegu lág- og millitekjufólki sem margt hvert er á leigumarkaði, annars vegar og fyrirtækjum og sterkum hagsmunaðilum hins vegar er sá að síðarnefndu hóparnir eiga auðveldara með að stofna samtök og krefjast þess að álögur á þá verði lækkaðar og kvarta í hvert sinn sem þær eru hækkaðar. Venjulegt fólk þarf einfaldlega að borga.
- Fjölmörg dæmi og rannsóknir sýna að samfélög sem búa við tiltölulegan góðan jöfnuð eru mun betur sett að flestu leyti en samfélög þar sem mikið bil myndast milli ríkra og fátækra. Fólk er almennt hamingjusamara þar sem það er jöfnuður og minni líkur eru á óstöðugleika og ósamlyndi í slíku samfélagi. Það getur ekki verið markmið heilbrigðs samfélags að fólk hafi það ágætt að meðaltali. Í einu ríkasta landi heims eiga allir að geta haft það gott. Aukin misskipting til langframa hefur í för með sér átök, óróa á vinnumarkaði og í öllu samfélaginu og að lokum, þegar fólk fær nóg af óréttlætinu, kemur til átaka. Slík átök þjóna engum. Hvorki ríkum né fátækum.
- Efla þarf umhverfisvernd og tryggja að komandi kynslóðir hafi aðgang að gæðum landsins. Ekki skal fórna náttúrunni fyrir skammtíma hagvöxt. Náttúra Íslands er í sjálfu sér mikilvæg auðlind sem verður ekki metin í peningum frekar en hamingjan sjálf. Tryggja þarf að einstaklingar og fyrirtæki sem nýta náttúruna greiði að fullu fyrir afnotin, þar á meðal fyrir þann kostnað sem fer í að endurheimta og viðhalda náttúrugæðum sem tapast við nýtinguna.
- Ísland á að stefna að því að verða fyrirmyndarríki þegar kemur að mannréttindum. Peningar eru ekki allt. Að búa í samfélagi þar sem réttindi minnihlutahópa eru tryggð og tjáningarfrelsið verndað er ómetanlegt. Fátt er eins hættulegt lýðræðinu og skeytingarleysi gagnvart mannréttindum. Íslendingar standa framarlega hvað varðar mannréttindi í heiminum en það má sannarlega gera betur. Einnig þarf að huga að réttindum dýra. Sérstaklega þeirra dýra sem við vitum að skynja sársauka og hafa hugmynd um fortíð sína og framtíð. Ekkert mannréttindasamfélag getur leyft sér að fara illa með skyni gæddar verur.
- Afglæpavæðum fíkniefnin og gerum helstu afbrotamenn og ofbeldishrotta þannig atvinnulausa. Fíkniefnastríðið er löngu tapað og skaðar aðalleg þá sem verið er að reyna að vernda með bannstefnunni. Fíkn er heilbrigðis- og félagslegt vandamál. Notum tíma og fjármuni hins opinbera til að aðstoða fólk í vanda. Ekki refsa því.
- Leggja verður áherslu á að tryggja réttindi og þjónustu til þeirra sem minnst mega sín. Aldraðir, börn, öryrkja, fíklar og aðrir eru lélegir þrýstihópar. Það er hlutverk okkar allra og þar á meðal stjórnvalda að ljá þeim rödd sem enga hafa.
Að lokum skulum við ímynda okkur í smá stund að þegar við deyjum að þá endurfæðumst við aftur á Íslandi. Við vitum ekki hjá hvaða fjölskyldu eða hvort við fæðumst heilbrigð. Það eina sem við vitum er að við fæðumst á Íslandi. Í hvernig samfélag viljum við fæðast? Svar mitt er einfalt. Í samfélag þar sem lögð er áhersla á að tryggja velferð, réttindi og tækifæri allra óháð öllum séreinkennum.