Vigdís Hauksdóttir – samsæriskenningar og vondar skoðanir

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

29/05/2013

29. 5. 2013

Það þarf ekki að borga neinum fyrir að gagnrýna Vigdísi Hauksdóttir. Vigdís sér sjálf um að fóðra bæði nettröll og bloggara með undarlegum ummælum sínum um menn og málefni. Kenning Vigdísar um að menn fái sérstaklega greitt fyrir að gagnrýna hana er ekki fyrsta samsæriskenningin sem hún setur fram og líklega ekki sú síðasta. Persónuníð […]

Vigdís HauksdóttirÞað þarf ekki að borga neinum fyrir að gagnrýna Vigdísi Hauksdóttir. Vigdís sér sjálf um að fóðra bæði nettröll og bloggara með undarlegum ummælum sínum um menn og málefni. Kenning Vigdísar um að menn fái sérstaklega greitt fyrir að gagnrýna hana er ekki fyrsta samsæriskenningin sem hún setur fram og líklega ekki sú síðasta.

Persónuníð og dónaskapur er alltaf óviðeigandi. Nafnlaus nettröll sem uppnefna og jafnvel hóta öðru fólki mega skammast sín. Það er þó meira en sjálfsagt að gagnrýna, og gera grín að, samsæriskenningum og vondum stjórnmálaskoðunum Vigdísar. Vafasamt er að fullyrða að Vigdís sé lögð í einelti af kjósendum þó að nokkrir fávitar og smámenni ákveði að ráðast á hana persónulega. Enda er einelti skilgreint sem „samskipti sem einkennast af ákveðnu ójafnvægi aflsmuna eða annars valds“. Vigdís er ekki valdalaus einstaklingur heldur þingmaður og opinber persóna með mjög sterkar og oft kjánalegar skoðanir á mönnum og málefnum.

Tökum nokkur dæmi um samsæriskenningar Vigdísar (ekki tæmandi umfjöllun):

  • Hún hefur sakað bloggara um að „falsa“ netslóð til að koma höggi á hana. (Þegar augljóst var að bloggarinn var að vísa í gamla netslóð sem eitt sinn var virk. Augljóslega engin skipulögð fölsun í gangi).
  • Í blaðaviðtali sagðist hún hafa á tilfinningunni að ótilgreint fólk væri að reyna að „knésetja“ hana. (Það að stjórnmálamaður sé harðlega gagnrýndur þýðir auðvitað ekki að það sé verið að „knésetja hann“).
  • Fyrir nokkrum vikum sagði hún starfsmenn Evrópustofu ferðast um landið í þeim tilgangi að „heilaþvo landsmenn“. (ESB Akbar!).
  • Hún virtist halda að alþjóðleg könnun Capacent um Evrópumál sem fullorðinn sonur hennar var beðinn að taka þátt í væri hluti af áróðri Evrópusinna. (Hræðsla hennar við allt sem tengist Evrópusambandinu jaðrar við vænisýki).
  • Hún taldi að umræðan um ólöglega notkun iðnaðarsalts í matvælum væri „krataáróður“ sem „ráðendur“ stýrðu til að „tala niður íslenska framleiðslu og landbúnaðarafurðir“.  (Já einmitt…).
  • Hún hélt því þráfaldlega fram að hún hefði verið rekin frá ASÍ vegna stjórnmálaskoðana sinna. (Forseti ASÍ hefur margsinnis lýst því yfir að hún hafi sjálf ákveðið að hætta þegar hún landaði  oddvitasæti í Reykjavík.).
  • Hún gaf í fyrstu í skyn að úrslit í stjórnlagaráðskosningunni hefðu verið gölluð en hálfviðurkenndi síðar að hún hefði misskilið niðurstöðurnar. (Það má alveg gagnrýna háttvirtan þingmann fyrir að skilja ekki kosningaúrslit og það jafnvel viljandi til að gera lítið úr kosningum).

Nokkur dæmi um vondar skoðanir Vigdísar (alls ekki tæmandi umfjöllun):

Þingkona sem er á móti því að eitt ríkasta land í heimi greiði til þróunaraðstoðar, vill að flóttamenn séu látnir ganga um með ökklabönd, kallar mikilvæg umhverfis- og mannréttindamál gæluverkefni, skrifar reglulega niðrandi um aðra flokka og stjórnmálamenn og er reglulega með langsóttar samsæriskenningar á að fá gagnrýni. Til að bæta gráu ofan á svart mismælir hún sig reglulega. Það er því ofureðlilegt að gera grín að afstöðu hennar og hugmyndum.

p.s. Þessi pistill var unninn í sjálfboðavinnu og án samráðs við Evrópusambandið.

Deildu