Álblæti stjórnarflokkanna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

30/05/2013

30. 5. 2013

Við Íslendingar eigum töluvert af umhverfisvænni orku sem er gríðarlega verðmæt auðlind. Við eigum líka fallega náttúru sem er ekki síður verðmæt. Markmið stjórnvalda ætti að vera tvíþætt. Annars vegar að nýta þá orku sem við eigum þannig að sem mestur arður skili sér til þjóðarinnar og hins vegar að draga eins og hægt er […]

álpappírVið Íslendingar eigum töluvert af umhverfisvænni orku sem er gríðarlega verðmæt auðlind. Við eigum líka fallega náttúru sem er ekki síður verðmæt. Markmið stjórnvalda ætti að vera tvíþætt. Annars vegar að nýta þá orku sem við eigum þannig að sem mestur arður skili sér til þjóðarinnar og hins vegar að draga eins og hægt er úr óþarfa mengun og náttúruspjöllum.

Þess vegna er sú áhersla núverandi stjórnarflokka að nýta alla orku í stóriðju undarleg. Vitað er að álfyrirtæki (og reyndar einnig önnur stórfyrirtæki) stunda alls konar brellur til að komast hjá því að greiða skatta í þeim löndum sem þau starfa og það sem meira er þá er orkan sem þau nýta seld á lágmarksverði (Sjá: Löglegt en siðlaust).

Íslendingar eiga ekki að keppast um að fá fjárfestingar frá fyrirtækjum sem reyna að komast upp með að borga sem minnst til baka til samfélagsins. Nær væri að selja orku landsins á opnum uppboðsmarkaði til þeirra sem eru tilbúnir að greiða mest fyrir hana og lýsa því yfir að þeir ætli ekki að nota brellur til að komast hjá skattlagningu.  Ég hefði haldið að sú aðferð væri í anda hugsjóna þeirra sem trúa á markaðsöflin.

Það er algeng mýta að réttlát skattlagning og auðlindagjöld hræði fjárfesta í burtu. Staðreyndin er að eðlilegt viðskiptaumhverfi fælir bara þá frá sem telja sig ekki getað spilað eftir leikreglum samfélagsins. Telja sig ekki geta grætt án þess að fá næstum allt gefins.

Svo lengi sem hægt er að græða á orkufrekri starfsemi mun einhver stofna fyrirtæki og borga uppsett verð. Eins og hægrimenn benda reglulega á þá sjá kapitalistar alltaf tækifæri til að græða. Það þarf ekkert auðmanna- og stórfyrirtækjadekur til að koma hjólum atvinnulífsins af stað.

Gríðarlega óskynsamlegt er að einblína alltaf hreint á stórframkvæmdir til að „bjarga atvinnulífinu“.  Stórframkvæmdir geta til dæmis valdið því að hækka þarf stýrivexti til að „kæla hagkerfð“, það er draga úr ofþenslu og verðbólgu,  sem bitnar svo á öðrum atvinnugreinum og jafnvel almenningi sem þarf að þola gengislækkun og minnkandi kaupmátt.

Með því að leggja ofuráherslu á stóriðjuframkvæmdir er því um leið verið að draga verulega úr líkum á því að sprotafyritæki , þetta „eitthvað annað“ sem talað er um, nái að þrífast hér á landi.

Álblæti stjórnarflokkanna er fyrst og fremst byggð á ást þeirra á skyndilausnum. Það er auðvelt  fyrir stjórnmálamenn að benda á nýtt álver, klippa á borða og segja við þjóðina eða nærsveitarmenn: „Sjáið hvað við gerðum fyrir ykkur. Bjuggum til fullt af störfum.“

Erfiðara er að benda á uppgang lítilla sprotafyritækja eða útskýra fyrir fólki að skynsamlegra er að taka lítil skref í einu.  En það þarf að benda á það.

Fjölbreytt, umhverfisvæn starfsemi, þar sem tekið er eðlilegt gjald af auðlindum og fyrirtæki borga skatta er miklu betri fyrir þjóðina til lengri tíma.

Deildu