Hamstrar í hjóli vilja skuldaniðurfellingu

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/03/2013

23. 3. 2013

Hagfræðingurinn Michael Hudson sagði eitt sinn: „Skuld sem ekki hægt er að greiða verður ekki greidd“. Þetta eru augljós sannindi enda neyðast margir út í gjaldþrot sem yfirleitt allir tapa á. Bæði skuldari og lánveitandi. Í kjölfar hrunsins eiga gríðarlega margir við skuldavanda að etja. Eru í raun hamstrar í hjóli sem eiga ekki annan […]

skuldHagfræðingurinn Michael Hudson sagði eitt sinn: „Skuld sem ekki hægt er að greiða verður ekki greidd“. Þetta eru augljós sannindi enda neyðast margir út í gjaldþrot sem yfirleitt allir tapa á. Bæði skuldari og lánveitandi. Í kjölfar hrunsins eiga gríðarlega margir við skuldavanda að etja. Eru í raun hamstrar í hjóli sem eiga ekki annan kost en að vinna inn fyrir skuldum sínum sem þó verða líklega aldrei greiddar til fulls. Samfélag þar sem stór hluti þegna er bugaður af skuldum getur aldrei gengið til lengdar. Því er líklega bæði skynsamlegt og nauðsynlegt að fella niður skuldir einstaklinga með einhverjum hætti.

Í grein minni „Afnám verðtryggingar er barbabrella“ gagnrýndi ég þann popúlíska áróður sem gengur út á það að verðtryggingin sé orsök alls ills í samfélaginu. Hér varð ekki hrun vegna verðtryggingar. Hrunið á Íslandi á sér svipaðar orsakir og sambærileg hrun sem hafa orðið víðs vegar um heiminn, þar sem engin er verðtryggingin. Það sem veldur fjármálahruni er fyrst og fremst bóluhagkerfi sem verður til í gölluðu fjármálakerfi þar sem skuldir einkaaðila hækka hratt í skjóli reglu- og eftirlitsleysis með fjármálamörkuðum og óraunsærra hagfræðimódela.

Óvinur númer eitt – bóluhagkerfið
Bóluhagkerfi sem myndast í reglu- og eftirlitsleysinu er helsti óvinur almennings. Ef við ætlum að koma í veg fyrir fleiri hrun þá verðum við að koma í veg fyrir að önnur bóla myndist. Ég þreytist aldrei á að minna á að í uppgangi sem byggður er á bóluhagkerfi græða þeir sem eiga nóg af peningum enn meira á meðan velsæld flestra annarra stendur í stað. Þegar bólan svo springur (sem hún gerir alltaf) eru það þeir tekjulægri sem tapa mest. Eftir standa skuldugir einstaklingar, venjuleg heimili, sem sjá ekki fram á að geta greitt niður skuldir sínar á meðan þeir lifa. Almenningur verður eins og hamstur í hjóli sem vinnur og vinnur en kemst ekkert áfram. Þessu verður að breyta með einum eða öðrum hætti.

Hrunið bitnaði ekki bara á skuldugum
skuld_hjolMikilvægt er að fólk hafi í huga að bóluhagkerfi og hrunin sem fylgja hafa ekki aðeins áhrif á skulduga einstaklinga. Kaupmáttur launa hér á landi hefur rýrnað um 6% á fimm árum meðal annars vegna hækkandi verðlags í kjölfar veikingar krónunnar. Allir hafa tapað. Líka þeir sem tóku enga áhættu, reyndu að spara og fóru varlega í öllum fjárfestingum.

Nútímaskuldafrí
Ein leið til að koma til móts við heimilin er að afskrifa skuldir einkaaðila í stórum stíl. Það er vissulega hægt þó það sé flókið mál. Ástralski hagfræðingurinn Steve Keen hefur bent á eina leið sem ég tel verðugt að skoða. Keen er einn af örfáum hagfræðingum sem spáði fyrir núverandi heimskreppu og hefur gagnrýnt ríkjandi (nýklassískar) hagfræðikenningar harðlega. Í bók sinni Debunking Economics – Revised and Expanded Edition: The Naked Emperor Dethroned? fer Keen vandlega yfir það hversu gallaðar ríkjandi hugmyndir hagfræðinnar eru.

Í sömu bók bendir Keen á að nútíma skuldafrí (e. debt jubilee) sé mögulega eina raunhæfa lausnin til að koma okkur úr ríkjandi kreppu. Margar útfærslur eru til á skuldafríi en allar ganga þær út á að afskrifa stóran hluta af skuldum einstaklinga og einkaaðila. Ein leið væri einfaldlega að afskrifa bankaskuldir og neyða þannig banka til endurskipuleggja sig (sem stundum þýðir að fara á hausinn). Slík aðferð er óraunhæf í dag því eigendur skulda bankanna eru oft þeir sömu og skulda þeim.

Tillaga Keen um nútímaskuldafrí er í stuttu máli þessi:

  1. Ríkið sendir hverjum einasta landsmanni ávísun upp á einhverja fasta upphæð (sem ég ætla ekki að reikna hér). Upphæðin er fjármögnuð með fjárlagahalla eða með því að prenta peninga.
  2. Einstaklingar og lögaðilar eru skyldaði til að nota alla upphæðina til að greiða niður skuldir.
  3. Ef einhver afgangur er til staðar þá má viðkomandi ráðstafa honum að eigin vild. Þannig fá líka þeir sem skulda ekkert eða lítið einhverja sárabót vegna afleiðinga hrunsins (til dæmis vegna minnkandi kaupmáttar).

Steve KeenRíkissjóðir og seðlabankar hafa oft komið fjármálastofnunum til bjargar með stórum fjárhæðum. Með þessari aðgerð er verið að bjarga fólki frekar en bönkum en auðvitað „græða“ bankar líka á þessari aðgerð þar sem lán verða greidd upp að fullu eða hluta. Ég set þó orðið græða inn í sviga því það er eðli banka að græða á skuldum og vöxtum en ekki uppgreiðslu skulda.

Eðlilegt er að spyrja hvernig hið opinbera ætlar að fjármagna þessa skuldaniðurfellingu. Stutta svarið er það að með því að fella niður skuldir komast hjól atvinnulífsins á stað aftur. Fólk sem áður var yfirskuldugt hefur nú fjármagn til að gera annað og meira en að borga skuldir. Almenn neysla eykst og skatttekjur aukast sem svo eru nýttar til að greiða niður skuld hins opinbera tiltölulega hratt.

Hvort aðgerð sem þessi sé raunhæf hér á Íslandi eða ekki skal ég ekkert segja til um en ég tel að það sé fyllilega ástæða til þess að kanna það. Stjórnvöld gætu til að mynda fengið menn eins og Steve Keen til að veita sér leiðsögn.

Hamstarnir bera ekki ábyrgð á hjólinu
Íslendingar eru eins og margir aðrir fastir í viðjum skulda. Sumir raun í skuldakviksyndi því sama hvað menn gera til að bæta stöðu sína þá sökkva þeir dýpra í skuldafenið. Við erum hamstrar í hjóli.

Rétt eins og eiginlegur hamstur í hjóli þá ber hinn almenni borgari litla ábyrgð á því hvernig fyrir honum er komið. Stjórnmálamenn hafa búið til kerfi þar sem fjármagnið ræður för og bóluhagkerfi blómstra og springa til skiptis. Það voru stjórnmálamenn og lánastofnanir sem sögðu okkur að það væri sniðug hugmynd að taka 90% húsnæðislán. Það voru stjórnmálamenn sem sögðu, og sumir segja enn, að reglur og eftirlit með fjármálamörkuðum væri stórhættulegt og það eru stjórnmálamenn sem hafa neitað að skipta um gjaldmiðil eða tengja krónuna við annan gjaldmiðil. Sjálfskipaðir sérfræðingar og grímulausir hagsmunahópar í fjármálageiranum hafa alla tíð verið duglegir við að viðhalda áróðri og lygum um hver staðan er.

Fyrr hrun fékk almenningur ráðleggingar frá „sérfræðingum“ í bönkum og í fjölmiðlum um að sniðugt væri að taka lán og kaupa sér húsnæði og stjórnmálamenn margir hverjir tóku undir allan áróðurinn. Hvers vegna var verið að bjóða upp á 90% húsnæðislán yfir 40 ár ef það var ekki sniðug hugmynd? Sögðu ekki allir bankastjórarnir og fjármálasérfræðingarnir að íslenska bankakerfið og íslenska útrásin væri stórkostleg uppfinning? Tók forsetinn ekki undir það? Sögðu frjálshyggjumenn ekki að við ættum að gera enn betur og breyta landinu í skattaparadís og fjármálamiðstöð?

Þar sem almenningur bar ekki höfuðábyrgð á hruninu tel ég að það sé nauðsynlegt að skoða alvarlega hvort hægt sé að fella niður skuldir almennings með skynsamlegum hætti. Jafnvel þó einhverjir loddarar og fjárglæframenn græði einnig á því.

Samhliða slíkri aðgerð verðurefla eftirlit með fjármálamörkuðum og banna ákveðna fjármálagjörninga sem vitað er að geta valdið bólum og kollsteypum. Menn verða að að kveðja frjálshyggjudrauminn og gallaðar hagfræðikenningar. Því ef sama vitleysan fær að blómstra áfram þá skiptir engu máli hvað gert verður fyrir heimilin í landinu. Kerfið mun hrynja aftur eftir nokkur ár og þá erum við og börnin okkar enn verr stödd en við erum núna.

Sjá nánar: 

Deildu