Íslenskt samfélag þarf að breytast: Um lýðræðisfélagið Öldu

Logo

Guðmundur D. Haraldsson

Guðmundur D. Haraldsson er stjórnarmaður í Öldu - félagi um sjálfbærni og lýðræði, en auk þess umsjónarmaður hóps innan Öldu um skemmri vinnutíma. Hann er með BS-gráðu í sálfræði og stundar sjálfstæðar rannsóknir á því sviði. Hann starfar fyrir lítið veffyrirtæki í Reykjavík. Netfang: gdh@skodun.is

24/03/2013

24. 3. 2013

Íslenskt samfélag glímir um þessar mundir við ýmis vandamál, sum ný, en flest gömul. Þessi vandamál eru til dæmis atvinnuleysi, spilling og skuldir heimila. Enn fremur er deilt um auðlindir, hvort og þá hvar eigi að virkja auðlindir landsins, og eru þrýstihópar áberandi á báða bóga. Látum liggja á milli hluta um hvað öll þessi […]

Íslenskt samfélag glímir um þessar mundir við ýmis vandamál, sum ný, en flest gömul. Þessi vandamál eru til dæmis atvinnuleysi, spilling og skuldir heimila. Enn fremur er deilt um auðlindir, hvort og þá hvar eigi að virkja auðlindir landsins, og eru þrýstihópar áberandi á báða bóga.

Látum liggja á milli hluta um hvað öll þessi vandamál, deilu- og spillingarmál snúast, við þekkjum þau mörg hver. Spyrjum frekar: Eiga þau sér sameiginlega rót, eða kannski rætur? Félagsmenn í Öldu – félagi og sjálfbærni og lýðræði, myndu flestir svara þessu játandi og segja: Vandinn er meðal annars fólginn í ónógu lýðræði – ónógri þátttöku almennings í ákvörðunum um það sem gerist í þeirra eigin samfélagi.

Lýðræðiskreppan

Margir setja eflaust spurningarmerki við þá fullyrðingu að hér á landi sé ónógt lýðræði. „Við höfum Alþingi og hér er kosið reglulega til þess. Það er lýðræðislegt“, hugsa þeir eflaust. Sumir hugsa eflaust líka: „Búsáhaldabyltingin sýnir líka að stjórnvöld hlýða kalli fólksins þegar á reynir.“ Staðhæfingarnar eru réttar, en ályktarnirnar ná ekki alla leið. Það er einmitt merki um veikt lýðræði að þúsundir manna þurfi að mótmæla svo dögum og vikum skipti til að boðað sé til kosninga. Það að venjulegt fólk hafi engin önnur lögleg ráð en mótmæli, er einkenni veiks lýðræðis. Lýðræðið á Íslandi væri sterkara ef t.d. 20-30% kjósenda gætu skrifað undir yfirlýsingu um að boða skyldi til kosninga – yfirlýsingu sem væri bindandi og hefði lagalegt gildi.1

Annað einkenni veiks lýðræðis er að eftir að fulltrúar hafa verið kjörnir til Alþingis eða í sveitastjórnir, þá er hlutverki almennings lokið í lýðræðisferlinu – þar til í næstu kosningum. Almennir borgarar hafa engan lagalegan rétt til að leggja mál fyrir Alþingi, sveitastjórnir og engin önnur leið er heldur fyrir þá að stuðla að breytingum á samfélagi sínu með öðrum formlegum hætti í gegnum valdastofnanir. Þeirra eina leið er að hafa áhrif á kjörna fulltrúa sína – ef þeir vilja gera allt löglega – og þá helst í gegnum fjölmiðla. Eins og margir vita er sú aðferð misgóð og stundum svolítið subbuleg.

Alda er félag sem varalda_header_langneutral_small stofnað til að vinna að styrkingu lýðræðisins á Íslandi. Einmitt til að veita venjulegu fólki meira vald yfir eigin samfélagi, minnka spillingu og bæta samfélagið. Ein forsenda sem ávallt er gengið út frá er að allar hugmyndir sem félagið stingur upp á að settar séu í framkvæmd, hafi verið reyndar áður, ef möguleiki er á því. Alda lagði fram í tillögum2 til Stjórnlagaráðs nokkrar hugmyndir um hvernig mætti veita almennum borgurum meiri völd. Ein hugmynd sem stungið var upp á, var að átta prósent kjósenda gætu kallað til svonefnd Borgaraþing – eða þá þriðjungur þingmanna. Borgaraþing gætu starfað ýmist í einu sveitarfélagi eða fyrir landið allt. Markmiðið með þingum eins og þessum væri að vinna að ákveðnum málum, eins og t.d. fjárhagsáætlun sveitarfélags eða fjárlögum ríkisins, eða þá endurskoðun laga eða mótun nýrra. Lagt var til að aðrir en kjörnir fulltrúar myndu sitja borgaraþingin, og væri ýmist kosið inn á þau eða valið af handahófi úr hópi almennra kjósenda.

Mörgum þykja hugmyndir eins og þessar fráleitar. En staðreyndin er sú að fyrirkomulag eins og þetta hefur verið notað um áratugaskeið í brasilísku borginni Porto Alegre með mjög góðum árangri. Í þeirri borg hefur fyrirkomulagið verið notað til að móta fjárhagsáætlun borgarinnar, þar sem býr um 1,4 milljón manns. Þessi aðferð hefur skilað þeim árangri að spilling hefur minnkað mjög mikið, fátækari svæði borgarinnar fá meira fé áður (á kostnað ríkari svæða), og auk þess hefur almenn þátttaka borgaranna í ýmsum samfélagsverkefnum snaraukist. Í New York er nú unnið að því að taka upp fyrirkomulag þar sem borgarar móta vissan hluta fjárhagsáætlunar borgarinnar.3 Mörg önnur dæmi má finna til líka, en hér er ekki rúm fyrir þau.

Borgaraþing gætu verið kjörin leið fyrir íslenskt samfélag til að fást við spillingu í samfélaginu, og líka við þá spurningu hvort eigi að virkja meira og þá hvar, og hvernig beri að fara með auðlindir landsins almennt. Svoleiðis þing gæti t.d. sett á stofn stofnanir og/eða sett sérstök lög um þessi mál. Þannig þing þyrftu þá að geta tekið bindandi ákvörðun sem enginn annar en slíkt þing gæti breytt.

Í stuttu máli má segja að hugmyndir Öldu um lýðræði gangi út á að virkja almenna borgara til þátttöku í að móta samfélag sitt. Félagið leitast við að finna aðferðir sem hafa reynst vel í því skyni annars staðar í heiminum. Borgaraþing er eitt dæmi um slíka aðferð.Úr miðborg Porto Alegre

En Alda er ekki bara félag um aukið lýðræði í stjórnmálum, heldur líka inni á vinnustöðum. Stefna félagsins er að allir vinnustaðir verði lýðræðislega reknir og í eigu starfsamanna. Alda vinnur að því að lýðræðisvæða sem flesta hluta samfélagsins.4

Sjálf byggist Alda á lýðræðishefð, allir fundir eru öllum opnir og öll gögn félagsins eru opin öðrum til skoðunar. Almennir félagsmenn vinna allar tillögur og hafa lokaorðið um þær. Alda er hugsað sem félag til að móta tillögur um Ísland framtíðarinnar – lýðræðislegra Ísland, ásamt því að stuðla að því að koma þeim í framkvæmd. Svoleiðis félag þarf auðvitað að vera lýðræðislegt og opið í alla staði.

Breytinga er þörf

Það má segja að félag eins og Alda sé eitthvað sem sé kallað eftir í samfélaginu. Kallað er eftir breyttum valdastofnunum í samfélaginu – einkum Alþingi. Og ekki er vanþörf á, traust almennings til Alþingis er í sennilega sögulegum lægðum5, enda hefur spillingin líka náð inn í þingsali þess, auk þess sem mörgum virðist Alþingi vera ófært um að sinna ýmsum mikilvægum málum6. Og lausnin er að hluta til meira lýðræði. Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur, orðaði ágætlega það sem við þurfum á að halda:

Réttlæti í samfélagi verður ekki aðskilið frá hugmyndinni um lýðræði, og sú hugmynd varðar ekki bara stofnanir samfélagsins, því engin stofnun getur verið lýðræðisleg ef hún starfar ekki í anda lýðræðis. Af þessum sökum dugir ekki að breyta stjórnarskrá eða koma nýrri skipan á stofnanir samfélagsins, hvort heldur pólítískar eða efnahagslegar, ef sú umbreyting á sér ekki rætur í lýðræðislegum einstaklingsbundunum viðhorfum, bæði ráðamanna og almennings. Þess vegna er það verkefni sem við blasir, að endurreisa íslenskt samfélag sem virkt lýðræðisríki, ekki bara pólítískt verkefni heldur líka menningarlegt. Þetta er verkefni sem verður að gegnsýra allt samfélagið, bæði Alþingi og stjórnarráð; líka fjölmiðla, … líka skólana, allt frá leikskóla til háskóla, … líka heimili og vinnustaði. En umfram allt verður þetta verkefni að gegnsýra hugarfarið.7

Það má með sönnu segja að Alda sé tilraun til að gera einmitt þetta sem Ólafur segir að þurfi að gera – þetta sem nú er í auknum mæli kallað eftir, ekki bara á Íslandi, heldur um allan hnöttinn.8

 

Alda er opin öllum sem hafa áhuga á viðfangsefnum félagsins. Allir eru velkomnir á fundi, hvort sem þeir eru félagar eða ekki. – Ef lesturinn vakti áhuga þinn, kíktu þá endilega á næsta fund. Þeir eru auglýstir með góðum fyrirvara á www.alda.is.

Í þessum pistli var aðeins fjallað um annað af tveimur meginviðfangsefnum félagsins, en hitt er sjálfbærni.

***

Þessi grein var skrifuð í upphafi árs 2012 fyrir vefsetrið Innihald.is. Hún birtist hér í óbreyttri útgáfu.

1 Rétt er að taka fram að Alda hefur ekki ályktað um þetta né borið fram tillögur þessa efnis. Þessi hugmynd er aðeins nefnd sem dæmi af hálfu höfundar til skýringar.

2 Þær má lesa í heild sinni hér: http://alda.is/?p=340

3 http://www.nytimes.com/2011/09/14/nyregion/4-on-ny-city-council-will-let-public-decide-some-spending.html?_r=1

4 Þessar hugmyndir eru nánar útlistaðar í tillögum félagsins til Stjórnlagaráðs (http://alda.is/?p=340).

5 Sjá t.d. hér: http://www.capacent.is/frettir-og-frodleikur/thjodarpulsinn/thjodarpulsinn/2011/02/25/Traust-til-margra-stofnana-a-uppleid/ . Mælingar á trausti ná aftur til 2003 og hefur á þeim tíma traust til Alþingis aldrei mælst lægra. Gjarnan er talað um að óánægja með Alþingi hafi aldrei verið meira í sögu lýðveldisins, orðið “sennilega” er því notað þarna.

6 Dæmi um þetta er stjórnarskrármálið, en endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur staðið til allt frá 1944. Sú endurskoðun hefur gengið ansi brösuglega, áratugum saman innan Alþingis (sjá http://stjornlagarad.is/servlet/file/Endursko%C3%B0un+stj%C3%B3rnarskr%C3%A1rinnar+-+%C3%81fangask..pdf), og sér ekki enn fyrir lokin á því, því þegar þetta er skrifað, eru tillögur Stjórnlagaráðs enn til umfjöllunar í nefnd Alþingis og virðist lítið ganga (sjá fundargerðir á http://www.althingi.is/dba-bin/Aferill.pl?ltg=140&mnr=3). Annað dæmi er skuldavandamál heimila, verðtrygging og ýmislegt fleira, en lítið virðist þokast í þeim málum.

7 Ólafur Páll Jónsson (2009, haust). Lýðræði, réttlæti og haustið 2008. Skírnir, 108, 305-306.

8 Þau mótmæli sem hafa verið víða um hnöttinn að undanförnu (nefnd „Occupy“) , snúast m.a. um aukið lýðræði og breyttar valdastofnanir.

Deildu