Tekjulágir leigjendur eru hamstrar í hjóli

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

28/04/2014

28. 4. 2014

Eins og ég hef áður bent á er staða leigjenda að jafnaði verri og hefur versnað meira frá hruni en staða húsnæðiseigenda. Ef marka má Hagtíðindi Hagstofunnar sem kom út í dag er einnig ljóst að heimilum á leigumarkaði hefur fjölgað mikið. Fjölgun leigenda er sérstaklega mikil hjá ungu fólki, lágtekjufólki og einhleypum foreldrum. Ef […]

Eins og ég hef áður bent á er staða leigjenda að jafnaði verri og hefur versnað meira frá hruni en staða húsnæðiseigenda. Ef marka má Hagtíðindi Hagstofunnar sem kom út í dag er einnig ljóst að heimilum á leigumarkaði hefur fjölgað mikið. Fjölgun leigenda er sérstaklega mikil hjá ungu fólki, lágtekjufólki og einhleypum foreldrum. Ef ekkert er að gert gætu þessir hópar hæglega lent í varanlegri fátæktargildru.

Samkvæmt Hagtíðindum bjuggu 15,4% heimila í leiguhúsnæði árið 2007 en árið 2013 var hlutfallið komið upp í 24,9%. Fjöldi heimila á almennum leigumarkaði hefur nánast tvöfaldast á sama tímabili, úr 7,6% 2007 í 14,2% árið 2013 (Sjá Mynd 1).

Mynd 1 - Heimili í leiguhúsnæði eftir stöðu á leigumarkaði 2004–2013

Næstum 18% leigjenda búa nú (2013) við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað sem á manna máli þýðir að tæplega fimmtungur leigjenda þarf að nota 40% eða meira af tekjum sínum í það eitt að hafa þak yfir höfuðið. Árið 2007 voru 9,7% í þessari stöðu. Sambærilegar tölur fyrir húsnæðiseigendur eru 11,8% árið 2007 og 6,8% árið 2013.

Semsagt byrði húnæðiskostnaðar hefur að jafnaði aukist verulega hjá leigendum en lækkað hjá fólki í eignarhúsnæði frá hruni.

Ósanngjörn forgangsröðun
Man Lifting HouseEins og áður segir hefur heimilum í leiguhúsnæði fjölgað mest hjá ungu fólki á aldrinum 25 til 34 ára, tekjulágu fólki og hjá einhleypum með börn. Við erum að tala um fólk sem hefur nýlokið námi, fátæku fólki og einstæðum foreldrum. Þetta er það fólk sem á minnst, hefur lægstu tekjurnar og á hvað erfiðast með að safna fyrir útborgun í eigin íbúð.

Þetta er fólkið sem jafnaðarmannahjarta mitt segir að stjórnvöld ættu að leggja áherslu á að aðstoða. Raunin er sú að ríkisstjórnin leggur allt kapp á að „leiðrétta“ lán allra sem eru með verðtryggð húsnæðislán nánast óháð stöðu þeirra að öðru leyti (tekjum, hækkun á húsnæðisverði, greiðsluvanda o.s.frv.). Enginn blaðamannafundur hefur verið haldinn í Hörpu til að tilkynna um víðtækar aðgerðir til að aðstoða leigjendur eða hjálpa ungu fátæku fólki með „stökkbreytt“ námslán. Þessi forgangsröðun er gríðarlega ósanngjörn í ljósi þeirra staðreynda að hagur leigjenda hefur að jafnaði versnað meira en hagur húsnæðiseigenda.

Leigjendur á almennum markaði borga margir meira á mánuði fyrir þak yfir höfuðið en eigendur í svipuðu húsnæði. Leigjendur eignast þó aldrei neitt. Þeir hafa margir, ef ekki flestir, ekki efni á því að leggja til hliðar til að safna fyrir útborgun til húsnæðiskaupa og að sama skapi komast margir heldur ekki í gegnum greiðslumat til að fá lán.

Tekjulágir leigjendur eru hamstrar í hjóli
Ef ekkert verður að gert til að bæta hag leigjenda er mikil hætta á því að stór hópur fólks festist í fátæktargildru.  Tekjulágir leigjendur eru sannkallaðir hamstrar í hjóli. Það er sama hversu mikið og lengi þeir borga af hækkandi leigu. Þeir geta lítið ef nokkuð sparað og eignast því aldrei neitt.

Er ekki kominn tími á aðgerðir fyrir „heimilin“ í landinu?

Sjá nánar:

Heimildir:

Deildu