Leigjendur og „heimilin“ í landinu

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/04/2014

16. 4. 2014

Staða leigjenda er að jafnaði verri og hefur versnað meira frá hruni en staða húsnæðiseigenda. Fyrir síðustu alþingiskosningar var mikið talað um að leiðrétta þann „forsendubrest“ sem „heimilin“ urðu fyrir í kjölfar hrunsins. Miðað við stóru loforðin sem gefin voru um lækkun húsnæðisskulda er ljóst að hugtakið „heimili“ átti einungis við um húsnæði sem einstaklingar eru að kaupa með lánum.  Leiguhúsnæði […]

Staða leigjenda er að jafnaði verri og hefur versnað meira frá hruni en staða húsnæðiseigenda.

Fyrir síðustu alþingiskosningar var mikið talað um að leiðrétta þann „forsendubrest“ sem „heimilin“ urðu fyrir í kjölfar hrunsins. Miðað við stóru loforðin sem gefin voru um lækkun húsnæðisskulda er ljóst að hugtakið „heimili“ átti einungis við um húsnæði sem einstaklingar eru að kaupa með lánum.  Leiguhúsnæði var þannig ekki „heimili“ enda engin skýr loforð gefin um að hjálpa fólki á leigumarkaði.

Leigjendur, sem að jafnaði er tekjulægri hópur en húsnæðiseigendur, hafa þó margir hverjir fundið fyrir hækkandi húsnæðiskostnaði og verri lífskjörum í kjölfar hrunsins. Á þetta sérstaklega við þá sem eru að leigja á almennum markaði.

Nýleg skýrsla Hagstofunnar staðfestir að greiðslubyrði leigjenda hefur hækkað töluvert frá því fyrir hrun, meira en greiðslubyrði eigenda með húsnæðislán.

Samanburður á húsnæðiskostnaði eigenda og leigjenda fyrir og eftir hrun

Húsnæðiseigendur með húsnæðislán þurftu árið 2007 að verja að jafnaði um 17,4% tekna sinna í húsnæði. Árið 2013 var hlutfallið komið niður í 16,9%. Semsagt aðeins minna en fyrir hrun. Að jafnaði hefur staða þeirra batnað.

Staða leigjenda hefur hins vegar versnað. Árið 2007, einu ári fyrir hrun,  þurfti meðalleigjandi á almennum leigumarkaði að verja um 19,7% ráðstöfunartekna sinna í þak yfir höfuðið. Í fyrra, 2013, þurfti meðalleigjandinn að verja 24,5% tekna sinna í húsnæði. Þetta er hækkun upp um tæp fimm prósentustig (Sjá Mynd 2).

Mynd 2 Miðgildi hlutfalls húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum eftir stöðu á fasteignamarkaði

Mikilvægt er að hafa í huga að meðaltals- og miðgildistölur upplýsa okkur ekki um einstaka tilvik. Það er alveg á hreinu að húsnæðiskostnaður hefur hækkað gríðarlega hjá mörgum húsnæðiseigendum eftir hrun.  Auðvitað á hið opinbera að hjálpa húsnæðiseigendum í alvarlegum greiðsluvanda sem sannarlega hafa farið illa út úr hruninu.

Að sama skapi er út í hött að „leiðrétta“ lán allra húsnæðiseigenda því, eins og áður segir, hefur kostnaður húsnæðiseiganda að jafnaði minnkað sem hlutfall af tekjum.

Um leið sýna ofangreindar tölur að það er mikil þörf á að koma til móts við leigjendur þar sem hagur þeirra hefur að jafnaði versnað töluvert.

Leigjendur frekar með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað

Slæm staða leigjenda verður enn augljósari þegar við skoðum fólk sem býr við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað. Það er fólk sem þarf að verja 40% eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í þak yfir höfuðið.

Ári fyrir hrun (2007) töldust 11,8% húsnæðiseigenda með húsnæðislán vera með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað. Í fyrra (2013) var sú tala komin niður í 6,8%.

Árið 2007 töldust 9,4% leigjenda á almennum leigumarkaði vera með íþyngjandi húsnæðiskostnað. Í fyrra var sú tala kominn upp í 17,9%. Næstum 18% leigjenda ver 40% eða meira af tekjum sínum í húsnæði. Fjöldi þeirra sem eru í þessari stöðu hefur því næstum tvöfaldast frá hruni (Sjá Mynd 5).

Mynd 5 Verulega íþyngjandi húsnæðiskostnaður eftir stöðu á fasteignamarkaði

Aðstoða þarf öll heimili í vanda, líka leigjendum

Í ljósi þessara upplýsinga er ótrúlegt að stjórnvöld leggi fyrst og fremst áherslu á að lækka skuldir allra húsnæðiseigenda án tillits til stöðu þeirra að öðru leyti en leggi um leið nánast enga áherslu á að hjálpa leigjendum.

Sjá nánar:

Heimild:
Hagtíðindi, 14. apríl 2014 – Byrði húsnæðiskostnaðar 2004–2013

Deildu