Stórhættulegar kosningahótanir

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/04/2013

15. 4. 2013

Kosningaloforð eru algeng fyrir kosningar en stundum eru þessi loforð svo glórulaus að betur færi á að kalla þau hótanir. Kosningahótanir. Kosningahótun Framsóknarflokksins kallast „skuldaleiðrétting“. Framsóknarflokkurinn lofar (án innistæðu) 300 milljarða hagnaði af samningum við erlenda kröfuhafa og hótar síðan að verja nánast öllum peningunum í að greiða niður skuldir heimilanna. Ég nota orðið hótun […]

votingKosningaloforð eru algeng fyrir kosningar en stundum eru þessi loforð svo glórulaus að betur færi á að kalla þau hótanir. Kosningahótanir.

Kosningahótun Framsóknarflokksins kallast „skuldaleiðrétting“. Framsóknarflokkurinn lofar (án innistæðu) 300 milljarða hagnaði af samningum við erlenda kröfuhafa og hótar síðan að verja nánast öllum peningunum í að greiða niður skuldir heimilanna. Ég nota orðið hótun því slíkt loforð felur í sér gríðarlega tilfærslu á fjármunum (sem hugsanlega eru ekki til) frá hinum efnaminni til þeirra efnameiri.

Þegar húsnæðisskuldir allra eru „leiðréttar“, óháð virði eignanna og tekjum skuldaranna, er verið að færa gríðarlega mikið af peningum (sem hugsanlega eru ekki til) frá almennum skattgreiðendum til efnafólks fyrst og fremst. Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé öfugur sósíalismi af verstu gerð. Fjarskyldir skoðanafrændur mínir á Vefþjóðviljanum benda réttilega á það í auglýsingu að með slíkri einfaldri aðgerð myndi ríkið, almenningur, greiða 15 milljónir til einstaklings sem á 238 milljónir en skuldar húsnæðislán á meðan sá sem á ekki neitt og er í leiguhúsnæði fær núll krónur. Finnst fólki þetta í lagi?

Það kann vel að vera að einhverskonar skuldaniðurfelling sé bæði skynsamleg og nauðsynleg en þá þarf að einblína á þá einstaklinga sem eru í mestum vanda. Eru eignalitlir, keyptu íbúð rétt fyrir hrun og eru í greiðsluvanda. Hjálpa þarf almenningi. Venjulegu fólki sem var í mörgum tilfellum platað til að taka há húsnæðislán og hafði ekki efni á faglegri ráðgjöf frá færustu lögfræðingum og bankamönnum.

Ef það á að fara í almenna skuldaleiðréttingu af því að hér varð hrun og hinn margumtalaði forsendubrestur þá þarf líka að koma til móts við þá sem skulda næstum ekkert í steinsteypu. Skulda ekkert nema námslán, yfirdrátt og vísaskuldir. Fólk sem er í leiguhúsnæði. Fólk sem tók ekki áhættu með því að fjárfesta í húsnæði með 90% lánum (m.a. í boði Framsóknarflokksins). Það þarf að koma til móts við venjulegt fólk sem nær ekki endum saman vegna þess að gjaldmiðillinn féll í kjölfar hrunsins með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun. Það er algerlega óþolandi að fólkið sem á ekkert og mun jafnvel aldrei eignast neitt eigi að mynda breiðu bökin eftir næstu kosningar. Óþolandi!

Kosningahótanir annarra minni flokka sem lofa flatri skuldaniðurfellingu eru sama marki brenndar.

Kosningahótun Sjálfstæðisflokksins
Talandi um breiðu bökin. Kosningahótun Sjálfstæðiflokksins er ekki mikið skárri. Þeir hóta flötum skattalækkunum. Skattar eiga að lækka á alla. Jafnt ríka sem fátæka. Vefþjóðviljinn minnist ekki á það að slík aðgerð er líka ekkert annað en öfugur sósíalismi. Þeir sem græða mest í krónum talið á slíkri lækkun er fólk með háar tekjur. Flöt skattalækkun er ölmusa til handa efnuðu fólki.

„Vondu“ vinstriflokkarnir hafa á þessu kjörtímabili fært skattbyrðina frá hinum efnaminni til þeirra sem tilheyra hærri tekjuhópunum. Þessu hóta Sjálfstæðismenn að breyta. Ekki af því þeir hata fátækt fólk og fólk með millitekjur heldur vegna þess að þeir trúa því í einlægni að jöfn skattalækkun á alla efli hagkerfið og ríkið muni að lokum fá meiri skatttekjur. Vandinn er að reynslan víðs vegar um heiminn sýnir að þetta er helbert kjaftæði.

Besta leiðin til að örva hagkerfið er þvert á móti að auka ráðstöfunartekjur lág- og millitekjuhópa. Þessir hópar, sem eru fjölmennir,  nota langstærstan hluta af sínum ráðstöfunartekjum í neyslu sem þýðir að almenn neysla eykst sem er gott fyrir atvinnulífið og hagkerfið í heild. Ef stjórnmálamenn vilja koma hjólum atvinnulífsins á stað verður að tryggja að sem flestir hafi vinnu, hækka laun og draga úr skattaálögum á þá sem eru með lægstu tekjurnar. Sé þetta gert aukast tekjur hins opinbera fljótt í gegnum neysluskatta og betri afkomu fyrirtækja.

Hvað ef hrægammarnir verða skotnir?
Hvað á að gera ef það tekst að fá fullt af peningum í ríkiskassann með samningum við vogunarsjóði? Fyrst ættum við öll að fagna en síðan þarf að forgangsraða. Tvær mjög vondar leiðir eru til að verja þessum peningum. Önnur er flöt lækkun húsnæðisskulda og hin flöt skattalækkun.

Helsta áskorun næstu ríkisstjórnar er að klára að hreinsa til eftir bóluhagkerfissukkið, greiða niður skuldir hins opinbera (en nú er ríkið að borga um 90 milljarða í vexti á ári af erlendum lánum), koma til móts við eigna- og tekjulitla hópa í greiðsluvanda, hvort sem þeir skulda húsnæðislán eða ekki og gera allt sem í valdi stjórnmálmanna er til að draga úr líkum á nýju hruni.

Þetta þýðir meðal annars að auka þarf enn frekar jöfnuð í samfélaginu t.d. með því áframhaldandi skattþrepum og/eða hækkun persónuafsláttar, draga frekar úr atvinnuleysi, hvetja til launahækkana fyrir þá sem hafa lægstu launin, tryggja að alger aðskilnaður verði um ókomna tíð á milli almennra banka og fjárfestingabanka, efla velferðarþjónustuna, efla eftirlit með bankastarfsemi, setja skynsamlegar reglur um útlánastarfsemi banka, hefja strax vinnu við að taka upp nýjan gjaldmiðil eða tengja krónuna við stöðugri gjaldmiðil.

Með almennum skuldaniðurfellingum og almennum skattalækkunum, án þess að klára uppbyggingarstarf eftir hrun og vinna að framtíðarlausnum til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig, er einfaldlega verið að pissa í skóinn sinn. Skammgóður vermir fyrir hluta þjóðarinnar á meðan framtíð okkar allra er sett í stórkostlega hættu.

Treystir nokkur maður Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum til að vinna að hag almennings eftir þessar kosningar? Telur nokkur maður í alvörunni að þær aðgerðir sem þessir flokkar og fylgihnettir þeirra boða séu til hagsbótar fyrir þorra almennings? Ég er sannfærður um að svo sé ekki.

Deildu