2007 heilkennið hrjáir þjóðina enn

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/04/2013

16. 4. 2013

Í allri umræðunni um skuldavanda heimilanna virðist gleymast að það er ekkert nýtt að hinn venjulegi maður eigi erfitt með að ná endum saman. Frá því ég man eftir mér hefur fjölskyldan alltaf verið búin með peninginn löngu fyrir mánaðarmót. Vísaskuldir, yfirdráttur, raðgreiðslur og lán frá ættingjum er ekki nýr veruleiki sem skyndilega varð til […]

picard-facepalm2Í allri umræðunni um skuldavanda heimilanna virðist gleymast að það er ekkert nýtt að hinn venjulegi maður eigi erfitt með að ná endum saman. Frá því ég man eftir mér hefur fjölskyldan alltaf verið búin með peninginn löngu fyrir mánaðarmót. Vísaskuldir, yfirdráttur, raðgreiðslur og lán frá ættingjum er ekki nýr veruleiki sem skyndilega varð til eftir hrun.

Við höfum lengi, mjög lengi, búið í samfélagi þar sem gæðunum er misskipt. Einstæðir foreldrar, aldraðir og öryrkja hafa lengi haft það skítt. Það er regla fremur en undantekning að ungt fólk sem er að kaupa sér sitt fyrsta húsnæði sé í basli og lengi hefur verið til fólk sem fjárfestir um efni fram.

Þeir sem halda öðru fram eru haldnir nokkurs konar 2007 heilkenni: Ranghugmyndum um samfélag þar sem fasteignir hækka stöðugt í verði, þar sem auðvelt er að kaupa íbúð, lítið mál að ná endum saman og sjálfsagt að fara til útlanda á hverju ári. Slíkt samfélag hefur sjaldnast verið til á Íslandi nema í bóluhagkerfi. 2007 heilkennið einkennist af væntingarsturlun þar sem fólk skuldsetur sig langt umfram tekjur í þeirri ranghugmynd að allir verði nánast sjálfkrafa miklu ríkari á morgun.

Búið er að sannfæra þorra almennings um að næstum allar skuldir og öll vandræði séu tilkomin vegna „forsendubrests“ og „stökkbreyttra lána“. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Þó að skuldir margra hafi eðlilega hækkað í kjölfar hruns gjaldmiðilsins þá er það alls ekki þannig að skuldavandi allra sé fyrst og fremst stökkbreyttum lána að kenna. Í mörgum tilfellum hefur fólk einfaldlega farið of geyst í fjárfestingum. Farið óvarlega með fé. Skuldir heimilana hækkuðu töluvert fyrir hrun. Þau hækkuðu um 26% frá 2002 til 2007 og skuldir fyrirtækja um tífalt meira.

Þess vegna er að einhverju leyti ósanngjarnt að skuldir séu almennt felldar niður á kostnað þeirra sem skulda ekki steinsteypu. Sérstaklega ef lítið eða ekkert fjármagn verður eftir hjá hinu opinbera til að styðja við velferðarkerfið og aðstoða fólk sem alltaf hefur átt erfitt uppdráttar. Venjulegt fólk.

Fyrir kosningarnar nú er svo gott sem ekkert talað um kjör og aðstæður venjulegs fólks. Það er einungis fjallað um kjör þeirra sem skulda í steinsteypu. Algjörlega óháð því hvernig skuldirnar urðu til og hver staða skuldaranna er að öðru leyti. Þegar talað er um „hag heimilana“ er bara verið að tala um þau heimili þar sem heimilismenn skulda húsnæðislán. Það er nánast ekkert minnst á leigjendur, aldraða, öryrkja, námsmenn eða yfirleitt venjulegt fólk sem á í vök að verjast til að mynda vegna kaupmáttarrýrnunar.

Stjórnmálin í dag hverfast algerlega um 2007 fólkið. Fólkið sem skuldsetti sig. Fólkið sem trúði stjórnmálamönnum og sérfræðingum sem lofuðu því að allir yrðu ríkari á morgun.

Og hverju lofa stjórnmálaflokkarnir nú? Það er misjafnt en þeir allra vinsælustu lofa því að allir verði ríkari á morgun.

Það er ljóst að 2007 heilkennið hrjáir þjóðina enn um sinn.

Deildu