Brotalamir í barnaverndarmálum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/04/2013

23. 4. 2013

Í Kastljósinu í gær var fjallað um barnaverndarmál og þá sérstaklega skort á viðeigandi úrræðum fyrir börn í vanda.  Ég tek undir það að ákveðinn skortur er á þjónustu við hæfi fyrir börn sem eru í neyslu, afbrotum og ekki síður fyrir þau börn sem eiga við geðrænan vanda og eða fötlun að stríða. Þessi […]

unglingurÍ Kastljósinu í gær var fjallað um barnaverndarmál og þá sérstaklega skort á viðeigandi úrræðum fyrir börn í vanda.  Ég tek undir það að ákveðinn skortur er á þjónustu við hæfi fyrir börn sem eru í neyslu, afbrotum og ekki síður fyrir þau börn sem eiga við geðrænan vanda og eða fötlun að stríða. Þessi umræða er gríðarlega mikilvæg.

Þó mjög margt gott sé gert í málefnum barna hér á landi þá hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að við sem samfélag séum að bregðast ákveðnum hópi barna. Það er enginn skortur á fagþekkingu og nóg er til af færu fólki til að vinna með börn í vanda. Það sem vantar fyrst og fremst er fjármagn og skipulag. Það kostar töluverðan pening, til skamms tíma, að halda úti öflugum meðferðar- og búsetuúrræðum fyrir börn.  Það kostar líka að fjölga fagmenntuðu fólki sem starfar með börnum.

Ef markmiðið er að auka vellíðan barna í okkar samfélagi, draga úr líkum á að börn endi sem fullorðnir glæpamenn og styðja við fjölskyldur í landinu sem eiga erfitt þá verður einfaldlega að veita auknu fjármagni í úrræði fyrir börn. Aðalvandinn er skortur á peningum. Svo einfalt er það.

Að mínu mati er það í lagi og í raun eðlilegt að til séu úrræði sem ekki er þörf á að fullnýta öllum stundum. Rétt eins og það er eðlilegt að reka slökkvilið þó hvergi sé kviknað í þá stundina. Vandi barna er stundum bráðavandi sem þarf að vera hægt að bregðast við strax, ekki eftir viku.

Það er ekki aðeins mannúðleg skylda okkar að tryggja börnum í vanda sem bestan aðbúnað heldur er það líklegast ódýrara fyrir samfélagið til lengri tíma. Hafa verður í huga að það fellur gríðarlegur kostnaður á samfélagið ef ekki er tekið nægjanlega vel á málefnum barna. Börn sem fá ekki viðeigandi þjónustu eru líklegri til að leiðast út í glæpi. Það kostar. Þau eru líklegri til að vera háð þjónustu heilbrigðis- og velferðarkerfisins langt fram á fullorðinsár. Það kostar. Aðstandendur verða fyrir töluverðu vinnutapi, tapa heilsu og jafnvel getu til að vinna. Það kostar líka.

Undirritaður tók þátt í að skrifa skýrslu fyrir Barnavernd Reykjavíkur í maí 2011. Í þeirri skýrslu var meðal annars eftirfarandi lagt til:

a)      Það þarf að vera til sérhæft vímuefnameðferðarúrræði fyrir börn og unglinga sem eru í vímuefnaneyslu. Nú er um ár liðið síðan Götusmiðjunni var lokað, en þar voru pláss fyrir um 13 börn á aldrinum 16 til 18 ára og þrjú pláss fyrir 18 til 20 ára.

b)      Mikil þörf er á lokuðum vímuefnameðferðarúrræðum fyrir börn í vímuefnaneyslu og afbrotum. Á hverjum tíma er alltaf nokkur hópur barna sem ekki hefur getu eða vilja til að stöðva eigin áhættuhegðun. Mikilvægt er að til séu öflug úrræði fyrir þessa einstaklinga sem hægt er að grípa til með stuttum fyrirvara. Leggjum við til að hægt verði að úrskurða börn í slíkar lokaðar meðferðir.

c)       Efla þarf neyðarvist Stuðla þannig að þar séu alltaf laus pláss þegar stöðva þarf börn og unglinga í neyslu og afbrotum með engum fyrirvara. Of oft gerist að allt er fullt á Stuðlum.

d)      Styrkja þarf þjónustu við börn sem eiga við geðrænan vanda að stríða. Telja skýrsluhöfundar að auka þurfi samstarf við Barna og unglingageðdeild. Þörf er á búsetuúrræðum og/eða langtímaúrræðum á vegum BUGL (hugsanlega í samvinnu við barnaverndaryfirvöld) þar sem fagmenn á sviði heilbrigðisþjónustu geta sinnt börnum með geðræn einkenni.

e)      Afeitrun ætti í sumum tilfellum að eiga sér stað inn á BUGL eða annarri heilbrigðisstofnun. Varast ber að hafa börn og fullorðna á sama stað í meðferð.

f)       Lagt er til að MST eða sambærilegt úrræði verði nýtt fyrir yngri börn, og fjölskyldur þeirra, en nú er gert. Mikilvægt er að taka á áhættuhegðun barna sem allra fyrst.

g)      Auka þarf eftirfylgni með börnum sem hafa farið í meðferð og fjölskyldum þeirra. Til dæmis með öflugum persónulegum ráðgjöfum sem geta aðstoðað börn við að fóta sig í lífinu eftir meðferð. Er þá hér meðal annars átt við aðstoð þegar kemur að námi, vinnu og félagslegum tengslum. Mikilvægt er að slíkir ráðgjafar séu fagmenn og vinni eftir ákveðnum verklagsreglum.

h)      Auka þarf skilvirkni í dómskerfinu og samvinnu við barnaverndaryfirvöld. Mikilvægt er að ungmenni sem fremji afbrot skynji að þeim fylgja afleiðingar.

Ég stend enn við allt það sem skrifað var í þessari skýrslu og ég hvet stjórnmálamenn til þess að kynna sér betur málefni barna í okkar samfélagi. Nú lofa allir að „bjarga heimilunum“ og börnin okkar eru svo sannarlega mikilvægasta einingin á mörgum heimilum. Börnin eiga sér þó ekki sterka málsvara og eru lélegir þrýstihópar. Það er því hlutverk okkar, fullorðna fólksins, að vekja athygli á aðbúnaði barna og bættum hag þeirra.

Höfundur starfar sem forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík

Nánar:

Deildu