Hagsmunasamtök barna bjóða ekki fram til Alþingis

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/04/2013

9. 4. 2013

Ég veit að kosningabaráttan er hátíð sjálflægninnar þar sem fólk keppist um að fjalla um eigin einkahag. Allir vilja skattalækkun og skuldaniðurfellingu. Sérstaklega þeir sem eiga nóg af eignum og tóku sem mesta áhættu. Nú ætla ég ekki að draga í efa að margir eiga um sárt að binda fjárhagslega eftir hrunið sem þeir báru […]

Barn græturÉg veit að kosningabaráttan er hátíð sjálflægninnar þar sem fólk keppist um að fjalla um eigin einkahag. Allir vilja skattalækkun og skuldaniðurfellingu. Sérstaklega þeir sem eiga nóg af eignum og tóku sem mesta áhættu. Nú ætla ég ekki að draga í efa að margir eiga um sárt að binda fjárhagslega eftir hrunið sem þeir báru ekki ábyrgð á með beinum hætti. En megum við líka tala um önnur mikilvæg mál?

Þeir þjóðfélagsþegnar sem eiga hvað erfiðast uppdráttar eru þeir hinir sömu og fá litla umfjöllun í fjölmiðlum og nánast enga frá stjórnmálamönnum. Veikir, aldraðir og börn fá varla að vera með fyrir kosningar.

Ég vinn með börnum. Börnum sem geta ekki búið heima. Börnum sem verða fyrir ofbeldi. Börnum sem beita ofbeldi. Börnum sem eru andlega veik. Börnum sem þurfa sárlega á úrræðum að halda sem ekki eru til. Hvers vegna? Vegna þess að börnin hafa ekki kosningarétt og þau mynda lélegan þrýstihóp.

Ekki einn einasti stjórnmálaflokkur fjallar um málefni barna af neinu viti. Ekki einn einasti stjórnmálamaður hefur reiknað út hvað þarf nákvæmlega að gera fyrir börn í vanda strax eftir kosningar. Ég efast reyndar um að margir í pólitík viti mikið um hvernig staða barna er í þessu samfélagi okkar.

Ekkert InDefence hefur verið stofnað til að verja réttindi barna. Hagsmunasamtök barna bjóða ekki fram til Alþingis og Félag íslenskra barna (FÍB) er ekki til. Á kosningafundum rífast stjórnmálamenn ekki um hvernig eigi að vernda börn í okkar samfélagi. Nánast enginn stjórnmálamaður heimsækir meðferðarúrræði (sem eru of fá), lokuð úrræði og sambýli (sem eru ekki til) eða skammtímaheimili fyrir börn- og unglinga og kjósendur mæta ekki í röðum á kosningafundi til að krefja stjórnmálamenn um svör um hvernig megi efla barnavernd.

Níutíu milljónir á að setja í fjögur hundruð metra hljólreiðastíg við Norræna húsið og 150 milljónum skal veitt aukalega til Hörpunnar. Á meðan er töluvert úrræðaleysi þegar kemur að málefnum barna í vanda. Mikilvægara virðist vera að verja Eldborgina en Skjaldborgina. Með þögn sinni virðast nánast allir sammála um það. Steinsteypan skiptir meira máli en börn.

Afskrifa á skuldir heimilana um 300 milljarða á meðan það er nánast ómögulegt að fjármagna nauðsynleg úrræði fyrir börn. Samt bera skuldarar í það minnsta einhverja ábyrgð á eigin skuldum á meðan börn bera ekki neina ábyrgð á eigin aðstæðum.

Höfundur er forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík

p.s. ég spái því að fáir nenni að lesa grein sem fjallar um málefni barna en ekki um skuldaniðurfellingu.

Deildu