Hátíð sjálflægninnar gengin í garð

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

29/03/2013

29. 3. 2013

Ég er ekki að tala um páskana heldur kosningabaráttuna, lýðræðishátíðina miklu. Nokkrum vikum fyrir hverjar kosningar fyllast miðlarnir af auglýsingum og loforðum sem því miður flest fjalla um það sama: sjálfselsku og sjálflægni. Flokkarnir keppast við að lofa hvað þeir ætli að gera fyrir þig og kjósendur taka margir ákvörðun útfrá því hvað hentar þeim […]

LottóÉg er ekki að tala um páskana heldur kosningabaráttuna, lýðræðishátíðina miklu. Nokkrum vikum fyrir hverjar kosningar fyllast miðlarnir af auglýsingum og loforðum sem því miður flest fjalla um það sama: sjálfselsku og sjálflægni.

Flokkarnir keppast við að lofa hvað þeir ætli að gera fyrir þig og kjósendur taka margir ákvörðun útfrá því hvað hentar þeim persónulega best hér og nú. Þess vegna þýðir oft lítið fyrir stjórnmálamenn að fjalla um langtímahagsmuni, almannahag, málefni minnihlutahópa og þeirra sem geti ekki barist fyrir eigin velferð. Þegar kemur að kosningum hugsa alltof margir um númer eitt. Sjálfan sig.

„Hvað getur flokkurinn gert fyrir mig núna í þeirri stöðu sem ég er í dag? Sá sem býður best fær mitt atkvæði.“

Af þessum sökum virka endalaus yfirboð flokkanna yfirleitt ágætlega. Sá sem lofar mestu vinnur. Þá skiptir engu máli hvort búið sé að útfæra loforðin eða skoða afleiðingarnar. Þó það sé oft augljóst að það séu litlar líkur á að sum kosningaloforð verði að veruleika þá er það happadrættishugarfarið sem rekur fólk áfram. „Maður verður að kaupa miða til að eiga möguleika vinningi“.

Andrúmsloftið í kringum kosningar líkist því oft stemmingunni sem myndast þegar það er sjöfaldur pottur í Víkingalottó. Fjölmargir taka þátt því það er möguleiki á stórum vinning. Engin rök um hversu líkurnar á því að vinna eru stjarnfræðilega litlar skipta máli þegar búið er að kveikja undir gróðavoninni.

Yfirboð stjórnmálaflokkana geta þó haft mun verri afleiðingar en þátttaka í happadrætti. Það kostar bara nokkra þúsundkalla að kaupa happadrættismiða. Þegar dregið er upp úr kjörkössunum eru töluverðar líkur að flokkar þeirra sem lofuðu sem mestu vinni og komist til valda. Vegna þess að ólíkt happadrætti þá aukast líkurnar á „vinningi“ eftir því sem fleiri taka þátt í vitleysunni. Þeir sem lofa mestu vinna oft. Margir eru glaðir í nokkurn tíma. Allt er frábært. Hagkerfið vex og við erum aftur besta þjóð í heimi. Síðan kemur í ljós að loforðin voru byggð á lofti. Illa útfærðum hugmyndum. Skyndilega springur bólan og fáir skilja af hverju. Stjórnmálmönnum er, réttilega, kennt um en kjósendur neita sjálfir að bera nokkra ábyrgð. Þeir keyptu bara miða. Það er ekki þeim að kenna að boðið var upp á happadrætti? Eða hvað?

Deildu