Börnin sem geta ekki búið heima

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/02/2013

19. 2. 2013

Undanfarna tvo mánudaga hefur Ísland í dag fjallað um vistheimili fyrir börn og skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík, en ég veiti síðara heimilinu forstöðu. Ég fagna þessari umfjöllun. Mikilvægt er að almenningur, og ekki síður stjórnmálamenn, viti að á árinu 2013 býr fjöldi barna við erfiðar aðstæður og sum þeirra geta ekki búið heima. Mun […]

Undanfarna tvo mánudaga hefur Ísland í dag fjallað um vistheimili fyrir börn og skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík, en ég veiti síðara heimilinu forstöðu. Ég fagna þessari umfjöllun. Mikilvægt er að almenningur, og ekki síður stjórnmálamenn, viti að á árinu 2013 býr fjöldi barna við erfiðar aðstæður og sum þeirra geta ekki búið heima. Mun meiri fjöldi en ég tel að margir geri sér grein fyrir. Því miður fer oft lítið fyrir yfirvegaðri umræðu um barnaverndarmál og það af skiljanlegum ástæðum. Barnaverndarmál geta verið feimnismál og skjólstæðingarnir, börnin og fjölskyldur þeirra, ekki burðugur þrýstihópur.

Það er því að einhverju leyti skylda okkar sem vinnum í þessum geira að taka þátt gagnlegri umræðu. Mér sýnist að það hafi tekist að mestu leyti með umfjöllun Íslands í dag.

Mig langar þó til að koma eftirfarandi á framfæri. Í umfjöllun fjölmiðla er tilhneiging til þess að einfalda hlutina og stundum finnst mér eins og áhersla sé lögð á að finna einhverja blóraböggla. Benda á einhvern til að dæma. Slík einföldun er ekki gagnleg. Barnarverndarmál eru gríðarlega ólík og misflókin. Því er ekki rétt að leggja áherslu á einstaka tilvik sem geta valdið hvað mestri stimplun skjólstæðinga og hneykslun eða fordæmingu gagnvart foreldrum eða „kerfinu“.

Flest börn vilja standa sig og þrá viðurkenningu og hlýju. Að sama skapi vilja flestir foreldrar börnum sínum vel. Félagslegar aðstæður, umhverfi, veikindi, þreyta, álag, fyrri reynsla og margt fleira verður þess valdandi að foreldrar og börn ráða ekki alltaf við eigin hegðun og samskipti.  Ekkert af þessu er tilefni til fordæmingar eða stimplunar. Um er að ræða einstaklinga sem þurfa sárlega á viðeigandi aðstoð að halda. Þetta er mergur málsins og verðugt umfjöllunarefni.

Ég tel að við getum einna helst dæmt samfélög út frá því hvernig komið er fram við börn og brugðist við vanda þeirra. Við hér á Íslandi getum að mörgu leyti verið stolt af aðbúnaði barna en það má vissulega gera betur. Það er hlutverk okkar allra að huga að börnum í okkar samfélagi og um leið að hvetja stjórnvöld til tryggja velferð barna eins vel og hægt er. Jafnvel þó það kosti peninga og jafnvel þó málefni barna séu ekki ofarlega í umræðum fyrir kosningar.

Mér finnst einnig mikilvægt að minna á og hrósa því fólki sem vinnur með börnum og unglingum í oft mjög erfiðum aðstæðum. Starfsfólk barnaverndar verður reglulega fyrir ómaklegri gagnrýni frá fólki í tilfinningalegu uppnámi. Gagnrýni sem aldrei er hægt að svara með beinum hætti hvort sem hún á rétt á sér eða ekki. Enda er fólk sem vinnur með börnum bundið þagnarskyldu og því getur verið flókið fyrir það að ræða þessi mál á opinberum vettvangi. Starfsfólk barnaverndar vinnur mikilvæg störf og er oftast undir miklu álagi (og er ekki á lögfræði- eða viðskiptafræðingalaunum, enda vinnur það „bara“ við að vernda börn en ekki peninga). Við sem vinnum í „kerfinu“ erum flest að gera eins vel og við getum en erum, rétt eins skjólstæðingar okkar, háð umhverfi okkar og aðstæðum sem við ráðum ekki að öllu leyti við.

Að lokum vona ég svo sannarlega að umfjöllun síðustu daga veki sem flesta til umhugsunar og verði til góðs.

Sjá nánar:
Umfjöllun um vistheimili barna (Ísland í dag – Stöð 2, 11. janúar 2013)

Umfjöllun um skammtímaheimili fyrir unglinga (Ísland í dag – Stöð 2, 18. janúar 2013)

Deildu