Líkamlegar refsingar gegn börnum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

13/01/2000

13. 1. 2000

Ný skoðanakönnun bendir til þess að ríflega helmingur breskra foreldra vilji að líkamlegar refsingar verði aftur notaðar til að ala upp börn í skólum landsins. Þetta eru vægast sagt sorgleg tíðindi, þar sem bæði heilbrigð skynsemi og vísindarannsóknir segja okkur að agavandamál verða ekki leyst með ofbeldi. Er ofbeldi lausnin við agavandamálum?Það eru líklega flestir […]

Ný skoðanakönnun bendir til þess að ríflega helmingur breskra foreldra vilji að líkamlegar refsingar verði aftur notaðar til að ala upp börn í skólum landsins. Þetta eru vægast sagt sorgleg tíðindi, þar sem bæði heilbrigð skynsemi og vísindarannsóknir segja okkur að agavandamál verða ekki leyst með ofbeldi.


Er ofbeldi lausnin við agavandamálum?
Það eru líklega flestir sem þekkja til sammála því að agavandamál eru því miður algeng í flestum skólum. Ólæti í tímum, léleg skólasókn, lítill námsáhugi auk þess sem einelti og annað ofbeldi er allt of algengt. Af og til koma upp hálfhugsaðar hugmyndir um hvernig leysa megi agavanda fljótt og örugglega. Ofbeldi gegn nemendum er ein af þessum hálfhugsuðu hugmyndum sem af og til heyrast. Bæði út í löndum og hér heima.

Þegar líkamlegar refsingar eru notaðar gegn börnum til að halda uppi aga er um leið verið að kenna börnum að vandamál skuli leyst með ofbeldi en ekki með samkomulagi og skynsemi. Slíkur lærdómur er vonandi eitthvað sem hugsandi fólk vill alls ekki að börnin sín læri í skólum. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að ofbeldi leysir engan vanda. Ofbeldi missir smá saman áhrifamátt sinn sem þýðir að sífellt þarf að magna ofbeldið ef það á að halda áfram að skila einhverjum árangri. Slík hringavitleysa kann að sjálfsögðu ekki góðri lukku að stýra.

Skyndilausnir duga ekki
Ef menn vilja berjast gegn agaleysi í skólum þá er að sjálfsögðu hægt að gera það á skynsamlegan máta. Það eru hins vegar ekki til neinar skyndilausnir. Skyndi“lausnir“ á borð við ofbeldi eru í raun verri en engar lausnir.

Mín tillaga er, eins og alltaf, sú að tekin verði upp skipulögð kennsla í rökfræði, siðfræði og tjáningu á öllum stigum grunnskólans. Þannig væri hægt að efla sjálfsvitund, umburðalyndi, námsáhuga og rökhugsun barna. Ekki er hægt að ætlast til þess að börn kunni að koma fram við náunga sinn ef þeim er ekki kennt það sérstaklega bæði með námsefni og fyrirmyndum. Umburðalyndi, framkoma, virðing og áhugi eru ekki meðfæddir hæfileikar. Þá þarf að kenna og efla.

Tengt efni:
Enn um líkamlegar refsingar gegn börnum
Líkamlegar refsingar gegn börnum

Deildu