Hvað varð um fjölmiðlana?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

17/01/2000

17. 1. 2000

Fjölmiðlar hafa verið nokkuð í umræðunni og auðvitað sýnist alltaf sitt hverjum. Þannig hafa sumir gagnrýnt fjölmiðla fyrir að ganga of hart fram í fréttaöflun sinni og frásögn meðan aðrir gagnrýna fjölmiðla fyrir að sinna þessu hlutverki sínu með hangandi haus. Þá hafa fjölmiðlar verið gagnrýndir fyrir að birta slúðurfréttir um stjórnmál og jafnvel að […]

Fjölmiðlar hafa verið nokkuð í umræðunni og auðvitað sýnist alltaf sitt hverjum. Þannig hafa sumir gagnrýnt fjölmiðla fyrir að ganga of hart fram í fréttaöflun sinni og frásögn meðan aðrir gagnrýna fjölmiðla fyrir að sinna þessu hlutverki sínu með hangandi haus. Þá hafa fjölmiðlar verið gagnrýndir fyrir að birta slúðurfréttir um stjórnmál og jafnvel að skálda upp fréttir til að fylla síður sínar og fréttatíma.


Sem áhugamanni um fjölmiðlun finnst mér sérstaklega athyglisverð sú athugasemd að fjölmiðlafólk gangi of hart fram í starfi sínu. Um það eru örugglega einhver dæmi en þau eru fá og langt á milli. Það væri frekar hægt að segja að fjölmiðlafólk gefi of mikið eftir. Þannig gerist það æ ofan í æ að stjórnmálamenn komast hjá því að svara spurningum um mál sem varða okkur öll. Eftirfylgnispurningum* er ábótavant og hreint ótrúlegt að fylgjast með því, sérstaklega í útvarpi og sjónvarpi, hvað sumir fréttamenn eru latir við að ganga á viðmælendur sína. Þannig virðast ýmsir fréttamenn vera búnir að ákveða allar sínar spurningar áður en viðtalið hefst og ekki geta eða vilja bæta við spurningum út frá svörum viðmælenda. Ég veit að þetta er einföldun en því miður gerist þetta alltof oft.

Þar með er ég þó ekki að segja að fjölmiðlafólk sé upp til hópa vonlaust. Því fer fjarri þó svo stundum læðist að manni sá grunur að sumt það fólk sem þar starfar nú ætti betur heima í öðrum störfum. Margt fjölmiðlafólk er ekki aðeins starfi sínu vaxið heldur mjög fært og á lof skilið. Hið slæma verður hins vegar því miður oftast meira áberandi og minnisstæðara.

Það sem hins vegar vantar hérlendis er raunveruleg rannsóknarblaðamennska. Vissulega eru ýmsir góðir fréttamenn sem leggja sig fram og grafa eftir upplýsingum. Sumir fjölmiðlarnir sem þeir starfa hjá eru þó sjaldnast þannig að rannsóknarblaðamennska nái að blómstra. Hvort sem er sökum fjárskorts eða viljaleysis leggja þeir lítið upp úr því að láta fréttamenn sína og blaðamenn leggjast í langvinnar rannsóknir og virðast þess í stað treysta frekar á fréttatilkynningar og annað slíkt.

Fréttastofum útvarps- og sjónvarpsstöðva eru sérstaklega ábótavant í þessu. Alltof oft láta fréttamenn sér nægja að endurtaka orð viðmælenda sinna frekar en að leggja sjálfstætt mat á viðburðina sem um ræðir. Í stað þess að segja sögu, ef svo má að orði komast, sýna sumir fréttamenn svipmyndir. Sérstaklega finnst mér það þó vandræðalegt þegar frétt byrjar á því að lesið er orðrétt upp úr fréttatilkynningu frá hagsmunasamtökum. Slíkt finnst mér ekki bera vott um vandaða fjölmiðlun

*Hér er um máttlausa tilraun til að þýða orðasambandið „follow-up question“ sem ég man í augnablikinu ekki betri íslenskt orðasamband yfir.

Deildu