Velferð barna fórnað vegna leti?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

02/03/2004

2. 3. 2004

Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnastofu mætti fulltrúa dómsvalda í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær þar sem þeir ræddu um Barnahúsið. Dómarar í héraðsdómi Reykjavíkur hafa margir hverjir kosið að nota ekki Barnahúsið þegar viðtöl eru tekin við börn í kynferðisbrotamálum. Í staðinn kjósa þeir að nýta sér sérbúna aðstöðu í héraðsdómi þrátt fyrir […]

Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnastofu mætti fulltrúa dómsvalda í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær þar sem þeir ræddu um Barnahúsið. Dómarar í héraðsdómi Reykjavíkur hafa margir hverjir kosið að nota ekki Barnahúsið þegar viðtöl eru tekin við börn í kynferðisbrotamálum. Í staðinn kjósa þeir að nýta sér sérbúna aðstöðu í héraðsdómi þrátt fyrir að sérfræðingar séu sammála um að aðstaðan í Barnahúsi sé mun betri. Rökin eru engin og ekki er laust við að sá grunur læðist að undirrituðum að velferð barna sé fórnað vegna leti dómara, sem hreinlega nenna ekki að færa viðtölin yfir í Barnahúsið.

Ég vona svo sannarlega að þessi grunur minn sé rangur en eftir að hafa hlustað á rök fyrrnefnds fulltrúa dómsvalda er fátt annað sem kemur til greina.

Aðeins um Barnahúsið:

„Sumarið 1997 var lögð fram tillaga um stofnun svokallaðs Barnahúss. Hugmyndin að baki Barnahúsinu er sú að stofnanir samfélagsins aðlagi sig að þörfum barna en ekki öfugt. Barnahúsið er sérhannað til þess að auðvelda börnum það álag sem því fylgir að rifja upp þá sársaukafullu lífsreynslu sem kynferðismisnotkun er.

Fyrir tíma Barnahússins þurftu börn í sumum tilvikum að gangast undir skýrslutöku hjá mörgum mismunandi aðilum. Þar á meðal lögreglu, barnaverndarnefnd, saksóknara, réttargæslumanni, verjanda og dómara. Í Barnahúsinu er tekin skýrsla af barninu, í sérstöku barnavænu herbergi, af sérþjálfuðum starfsmanni sem hefur þekkingu á tjáningarhæfni, hugtakanotkun og minnisþroska barna. Í öðru herbergi er svo aðstaða fyrir fulltrúa ofangreindra aðila þar sem þeir geta fylgst með skýrslutöku og komið á framfæri spurningum án þess að barnið verði vart við. Í Barnahúsinu er einnig góð aðstaða til læknisskoðunar. Í staðinn fyrir að barnið þurfi að fara út um allan bæ í skýrslutökur og læknisskoðun hjá fjölda embættismanna er þetta allt gert í Barnahúsinu af sérþjálfuðum starfsmönnum og í barnvinsamlegu umhverfi.“
(sjá: Hvers eiga börnin að gjalda?)

Fulltrúi dómsvalda viðurkenndi í umræðunni í gær að Barnahúsið skilaði síst verri árangri í því að yfirheyra börn og sagði jafnframt viðtöl tekin í Barnahúsi væru tekin fullgild í dómssal.

Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að í það minnsta jafn góðar niðurstöður nást í viðtölum sem tekin eru í Barnahúsi og þeim sem tekin eru í sérhannaða herberginu í héraðsdómi. Hins vegar hefur Barnahúsið þann mikla kost umfram héraðsdóm að með notkun þess er dregið úr óþarfa þjáningu barna sem hafa lent í kynferðislegu ofbeldi.

Hver í ósköpunum eru þá rökin fyrir því að sniðganga Barnahúsið? Þar sem engar skýringar hafa verið gefnar, þá dettur mér bara í hug leti dómara. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.

Deildu