Jónína Benediktsdóttir hefur loksins gefið trúanlega útskýringu á því hvers vegna ekki hafa verið birtar neinar fræðilegar rannsóknir um gagnsemi detox meðferðar. Ástæðan er ótti detoxlækna við útsendara lyfjafyrirtækja.
„Pólsku læknarnir sem rannsaka detox hafa báðir sagt við mig að þær þori ekki að birta nokkuð um detoxið af ótta við að vera drepnar af lyfjafyrirtækjunum.“ [leturbreytingar SHG] – Þetta segir Jónína Ben í faglegri umræðu um detox á netinu (en ekki hvar?).
Hér er augljóslega um stórfrétt að ræða sem ég treysti að íslenskir blaðamenn skoði ofan í kjölinn. Samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum af vefsíðu Detox á Íslandi skilar detox meðferðin undraverðum árangri. Þannig hafa skjólstæðingar Jónínu losnað við þunglyndi, kvíða, vefjagigt, liðagigt, sýkingar, háan blóðþrýsting, exem, sykursýki og einn hefur jafnvel losnað við einkenni MS (Multiple sclerose). Detox virðist því næstum því vera álíka öflug meðferð og Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun, Bowen tækni, hómópatía og lithimnufræði.
Vandinn er að hingað til hafa engar rannsóknir sýnt fram á þessi byltingarkenndu áhrif detox meðferðar. Gagnsemisupplýsingarnar eru komnar frá skjólstæðingum Jónínu sem dásama meðferðina með „vitnisburði“* sínum. En nú er semsagt komið kjörið tækifæri til að breyta þessu. Íslensk stjórnvöld geta nú veitt detoxlæknunum pólitískt hæli hér á landi svo þeir geti birt rannsóknir sínar óáreittir. Ég get hugsað mér fátt betra fyrir ímynd Íslands en að veita tveim verðandi nóbelsverðlaunahöfum í læknisfræði öruggt skjól.
*Skemmtileg tilviljun að orðið „vitnisburður“ er einatt notað á trúarstöðinni Omega þar sem hinir trúuðu útskýra hvernig þeir hafa læknast með hjálp Jesú*.
Sjá nánar:
Hvers vegna EKKI detox! (eftir Svan Sigurbjörnsson lækni)