Nýöldin á Stöð 2 – Ábyrgð fjölmiðlamanna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/10/2003

9. 10. 2003

Þáttastjórnendur Íslands í dag á Stöð 2 virðast hafa sérstakan áhuga á dulrænum málefnum. Áhugi þeirra er svo sem skiljanlegur en það sem er gagnrýnivert er gagnrýnisleysið sem einkennir umfjöllunina. Í gærkvöldi var tekið viðtal við svokallaðan lithimnufræðing sem segist geta lesið sér til um líkamleg og persónuleg einkenni fólks með því að skoða í […]

Þáttastjórnendur Íslands í dag á Stöð 2 virðast hafa sérstakan áhuga á dulrænum málefnum. Áhugi þeirra er svo sem skiljanlegur en það sem er gagnrýnivert er gagnrýnisleysið sem einkennir umfjöllunina. Í gærkvöldi var tekið viðtal við svokallaðan lithimnufræðing sem segist geta lesið sér til um líkamleg og persónuleg einkenni fólks með því að skoða í augu þess.


Af umfjöllun stöðvarinnar að dæma gætu áhorfendur auðveldlega ályktað að lithimnufræði sé viðurkennd fræðigrein sem skili raunverulegum árangri. Sú ályktun væri hins vegar röng. Þessi „fræðigrein“ hefur verið vísindalega rannsökuð og eru niðurstöður allra þeirra rannsókna sem undirritaður hefur komist í tæri við þær sömu. Lithimnufræði er tómt rugl.

Nú er tilefni til þess að hvetja til umburðarlyndis gagnvart ólíkum lífsskoðunum og óhefðbundnum lækningaaðferðum. Umburðarlyndi verður þó alltaf að fylgja gagnrýnin hugsun. Umburðarlyndir einstaklingar útiloka ekki fyrirfram að hægt sé að sjúkdómsgreina fólk með því að skoða í þeim augun, sama hversu ólíklegt það hljómar. Þeir sem trúa á gildi slíkra aðferða án nokkurra sannanna eru hins vegar ekki umburðalyndir heldur hjátrúarfullir. Ólíkt umburðarlyndi er ekkert göfugt við hjátrú, enda getur hjátrú verið beinlínis hættuleg.

Um lithimnufræði
Upphafsmaður þessarar umdeildu fræðigreinar var ungverski læknirinn Ignatz von Peczely. Þegar hann var krakki lenti hann í því óhappi að brjóta annan fótinn á uglu. Þegar hann skoðaði ugluna nánar tók hann eftir svartri rönd neðarlega á öðru auga hennar. Nokkrum árum seinna, þegar hann var orðinn læknir, var hann að aðstoða sjúkling sem hafði brotið á sér löppina. Fyrir tilviljun tók Peczely eftir svipaðri svartri rönd í öðru auga sjúklingsins. Þar með var ný „fræðigrein“ komin af stað. Peczely og fleiri fóru nú að kortleggja augu fjölda fólks og töldu sig finna ólík mynstur í sem hægt var að tengja við sjúkdóma sem fólkið þjáðist af.

Bernard Jensen (1908-2001), einn virtasti lithimnufræðingur Bandaríkjanna, sagði að augun væru eins og „litlir sjónvarpsskjáir“ sem varpa fram ítarlegum upplýsingum um ástand líkamans. Jensen sagði í raun að nákvæmara væri að skoða lithimnur fólks til að meta líkamlegt ástand þeirra en að nota nokkra aðra þekkta vísindalega aðferð.

Rannsóknir
Árið 1979 fengu vísindamenn að rannsaka störf Jensens og tveggja annarra þekktra lithimnufræðinga til að sannreyna fullyrðingar þeirra. Voru lithimnufræðingarnir látnir skoða ljósmyndir af 143 einstaklingum og beðnir um að segja til um hverjir þessara einstaklinga voru með skemmd nýru. Áður höfðu 48 þeirra verið greindir, með hefðbundnum leiðum, með nýrnaskemmd en aðrir voru með heilbrigð nýru.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að lithimnufræðingarnir gátu alls ekki fundið út hverjir voru með nýrnaskemmd og hverjir ekki. Einn þeirra hélt því til dæmis fram að 88% þeirra sem greindir höfðu verið með heilbrigð nýru væru með nýrnaskemmd. Annar hélt því fram að 74% þeirra sem voru með heilbrigð nýru væru með það skemmd nýru að þeir þyrftu á gervinýrum að halda. 1

Árið 1980 varð gerð svipuð rannsókn á reyndum áströlskum lithimnufræðingi. Var hann látinn skoða 15 sjúklinga sem höfðu greinst með alls 33 heilsufarsvandamál. Í stuttu máli var niðurstaða rannsóknarinnar sú að lithimnufræðingurinn gat ekki greint rétt eitt einasta heilsufarsvandamál auk þess sem hann sagði sjúklinganna þjást af 60 heilsufarsvandamálum sem þeir í raun þjáðust ekki af. 2

Árið 1988 voru fimm virtustu lithimnufræðingar Hollands rannsakaðir og reyndist aðferð þeirra einnig gagnslaus. Voru þeir beðnir um að skoða myndir af lithimnum 78 einstaklinga og látnir meta hverjir þeirra væru með sýkta gallblöðru. Hefðbundnar rannsóknir höfðu áður sýnt að helmingur þeirra var með sýkta gallblöðru. Lithimnufræðingunum tókst hins vegar ekki að meta hverjir voru veikir og hverjir heilbrigðir. Að auki voru lithimnufræðingarnir ekki sammála sjúkdómsgreiningum hvers annars sem segir svolítið um hversu áreiðanleg þessi „vísindi“ eru. 3

Ábyrgð fjölmiðlamanna
Ísland í dag er fréttatengdur þáttur, enda hluti af aðalfréttatíma Stöðvar 2. Þegar þáttastjórnendur Íslands í dag fjalla um hjátrú (ósannaðar aðferðir) með ógagnrýnum hætti er verið að draga úr trúverðugleika fréttastofunnar. Alvarlegra er þó að fólk sem treystir á ósannaðar óhefðbundnar lækningar er að setja sjálft sig í hættu. Röng sjúkdómsgreining getur reynst kostnaðarsöm og í raun stórhættuleg heilsu þess. Á meðan fjölmiðlamenn fjalla um óhefðbundnar læknir með jafn ógagnrýnum hætti og raun ber vitni verða þeir að bera nokkra ábyrgð.

Sjá nánar – Rannsóknir:
1. Simon A and others. An evaluation of iridology. JAMA 242:1385-1387, 1979.
2. Cockburn DM. A study of the validity of iris diagnosis. Australian Journal of Optometry. 64:154-157, 1981.
3. Knipschild P. Looking for gall bladder disease in the patient’s iris. British Medical Journal 297:1578-1581, 1988.

Deildu