Hugsað til baka – Landsfundur 2001

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

05/10/2003

5. 10. 2003

Á landsþingi Samfylkingarinnar lagði undirritaður fram ályktun ásamt Sif Sigmarsdóttur um aðskilnað ríkis og kirkju. Fjölmargir þingfulltrúar á öllum aldri sem höfðu lesið ályktunina komu að máli við okkur og til að þakka okkur framtakið. Nánast allir sem undirritaður ræddi við voru himinlifandi með ályktunina. Rétt áður en ályktunin var lögð fram til atkvæðagreiðslu var […]

Á landsþingi Samfylkingarinnar lagði undirritaður fram ályktun ásamt Sif Sigmarsdóttur um aðskilnað ríkis og kirkju. Fjölmargir þingfulltrúar á öllum aldri sem höfðu lesið ályktunina komu að máli við okkur og til að þakka okkur framtakið. Nánast allir sem undirritaður ræddi við voru himinlifandi með ályktunina. Rétt áður en ályktunin var lögð fram til atkvæðagreiðslu var henni hins vegar vísað til nefndar, án vitundar og samþykkis flutningsmanna.

Ónefndur valdamaður innan Samfylkingarinnar, sem var mikill andstæðingur aðskilnaðar ríkis og kirkju, ákvað að „bjarga“ málinu frá atkvæðagreiðslu með því að ljúga því til við fundarstjóra að flutningsmenn væru samþykkir því. Sannleikurinn er hins vegar sá að aldrei var rætt við okkur. Vegna veikinda brást mér rödd til að fara upp í pontu og mótmæla gjörningum en gerði það þess í stað skriflega síðar.

Lesendum til glöggvunar hef ég ákveðið að birta ályktunina eins og hún var lögð fram og ræðuna sem ég hefði flutt hefði ályktunin ekki verið fjarlægð á þennan ólýðræðislega máta. Ástæðan fyrir því að ég birti þetta nú er sú ánægjulega stefnubreyting Samfylkingarinnar að ætla að fjalla opinskátt um aðskilnað ríkis og kirkju á þessu þingi.

Ályktun um aðskilnað ríkis og kirkju

Stjórnarskrárverndað hjónaband ríkis og kirkju er mannréttindabrot

Landsfundur Samfylkingarinnar 16.-18. nóvember 2001

Samfylkingin er þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi ekki að skipta sér af trúarlífi einstaklinga. Svo lengi sem samband ríkisins við hina evangelísku lútersku kirkju er til staðar verður ekki um að ræða raunverulegt trúfrelsi á Íslandi. Samfylkingin leggjur því til að ríki og kirkja verði tafarlaust aðskilin.

Samfylkingin er þeirrar skoðunar að raunverulegt trúfrelsi muni ekki verða á Íslandi fyrr en að eftirfarandi hefur átt sér stað:

1. Ríki og kirkja hafa verði að fullu aðskilin.
2. Sérstakri kristinfræðslu í opinberum skólum landsmanna hefur verið hætt og í staðinn tekin upp almenn trúarbragðafræðsla og öll ummæli sem vísa til almenns siðferðis í námskrá og lögum um grunnskóla séu ekki kennd við kristin gildi eins og nú er.
3. Ríkið hefur hætt að sjá um innheimtu sóknargjalda fyrir trúfélög eða að fólki sem er utan trúfélaga hefur verið tryggður réttur til að ráðstafa „sóknargjöldum“ sínum eftir eigin sannfæringu.
4. Sjálkrafa skráningu barna í trúfélög móður hefur verið hætt eða að einstaklingar eru einnig skráðir sjálfkrafa úr trúfélagi móður við sjálfræðisaldur nema að þeir biðji sérstaklega um annað.
5. Grafreitir verði færðir að fullu undir stjórn sveitarfélaga.
6. Guðfræðideild Háskóla Íslands hefur verið lögð niður eða rekstri deildarinnar breytt þannig að ólíkum trúarbrögðum og lífsskoðunum er gert jafnhátt undir höfði.

Greinargerð

Gagnkvæm virðing að engu höfð
Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar er léttvæg fundin þegar hin evangelíska kirkja Lúters nýtur ein þeirra forréttinda að vera undir verndarvæng Alþingis og ríkisstjórnar. Færa má að því gild rök að hér sé um að ræða stjórnarskrárverndað mannréttindabrot. Jafnréttissjónarmið má ekki virða að vettugi. Mikilvægt er að virðing sé borin fyrir öllum trúarbrögðum og trúfélögum en stjórnmálin dragi ekki taum eins umfram annars. Með ríkistrú eru aðrar lífsskoðanir settar skör lægra. Í stað þess að veita öllum trúfélögum jöfn tækifæri til að blómstra og stuðla að gagnkvæmri virðingu fyrir öllum trúarbrögðum er hinni evangelísku lútersku kirkju veittur forgangsréttur sem kemur fram í því að ríkið styður hana og verndar sem þjóðkirkju á Íslandi.

Trúarbrögð á einstaklingurinn að eiga við sjálfan sig. Eðlilegt er að hver og einn fái að velja sér trú eða trúleysi upp á eigin spýtur. Afkáralegt er að barn sé skráð í trúfélag móður strax við fæðingu. Þegar einstaklingurinn kemst til þroska getur hann gert upp við sjálfan sig hvar hann stendur gagnvart trúarbrögðum. Annað kemur í veg fyrir gagnrýna hugsun.

Ríkistrú elur á fordómum
Trúarinnræting er stunduð grimmt af hálfu skólayfirvalda. Í skjóli ríkistrúar er nemendum innrætt kristin fræði í opinberum grunnskólum landsins samkvæmt stefnu menntamálaráðuneytisins. Hinum kristnu fræðum er óneitanlega gert hærra undir höfði en öðrum trúarbrögðum heimsins. Svo hlutdræg menntun getur ekki annað en alið á fordómum í því fjölmenningarlega samfélagi sem við búum í.

Ríkið sér um innheimtu sóknargjalda. Í samfélagi lýðræðis og jafnréttis sæju trúfélögin sjálf um innheimtu slíkra gjalda. Óviðeigandi er að ríkið rukki landsmenn um sóknargjöld fyrir hönd einstakra trúfélaga. Enn fremur er sú staðreynd sláandi að þeir sem kjósa að standa utan trúfélags sé gert að greiða í svokallaðan Háskólasjóð og þar með meira til menntunar en öðrum landsmönnum ber að greiða. Hverjum og einum ætti að vera tryggður réttur til að ráðstafa „sóknargjöldum” sínum eftir eigin sannfæringu.

Breytingar kirkjunni til góðs
Hér er þó hvorki verið að veitast að kirkjunni né hlutverki hennar. Spyrja má hvort ekki væri kirkjunni sjálfri hollt að losa sig úr þeim viðjum sem tengslin við ríkisvaldið eru henni. Þannig stæði hún á eigin fótum og eigin forsendum. Hún yrði ef til vill þess megnug að losa sig undan þeim stofnanabrag sem hefur einkennt hana. Kirkjuyfirvöld yrðu með róttækum breytingum að leitast við að ná til fólksins. Við núverandi ástand finnur söfnuðurinn ekki hjá sér hvöt eða þörf til að til að sækja kirkju sína, nema ef til vill á stórhátíðisdögum.

Sif Sigmarsdóttir
Sigurður Hólm Gunnarsson

Ræða vegna ályktunar um aðskilnaðar ríkis og kirkju

Fundarstjóri, kæru félagar. Ég er hingað kominn til að mæla fyrir ályktun um aðskilnað ríkis og kirkju. Ályktun sem ég hef lagt fyrir þingið ásamt vinkonu minni og varaformanni Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík Sif Sigmarsdóttur.

Afskipti ríkisvaldsins af trúarlífi almennings eru í senn óþörf og óviðeigandi. Trú eða lífsskoðun einstaklinga er þeirra einkamál og ríkisvaldinu algerlega óviðkomandi. Eina hlutverk ríkisvaldsins í þeim efnum ætti að vera það að tryggja einstaklingnum umhverfi þar sem hann getur iðkað trú eða lífsspeki sína óáreittur.

Eins og þingfulltrúar vafalaust vita eru trúar- og lífsskoðanir Íslendinga margar og fer fjölbreytni þeirra vaxandi með ári hverju. Því verður sífellt mikilvægara að virðing sé borin fyrir öllum þeim trúarbrögðum og lífsskoðunum sem hér ríkja og að yfirvöld dragi ekki taum eins umfram annars eins og nú er gert.

Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er fyrst og fremst krafa um raunverulegt trúfrelsi þar sem öllum trú- og lífsskoðunum fólks er gert jafn hátt undir höfði. Í núverandi umhverfi þar sem hin Evangelíska Lúterska kirkja nýtur sérstakra forréttinda og er undir stjórnarskrárbundnum verndarvæng Alþingis og ríkisvalds er jafnræðisregla sömu stjórnarskrár brotin. En í henni segir meðal annars að ,,[a]llir skulu vera jafnir fyrir lögum [meðal annars…] án tillits til trúarbragða [og] skoðana”.

Til að tryggja fullkomið trúfrelsi á Íslandi eru eftirfarandi breytingar lagðar til:

Í fyrsta lagi: að ríki og kirkja verði að fullu aðskilin. Hvort sem er fjárhagslega eða stjórnunarlega. Þetta þíðir m.a. að kirkjan standi algerlega sjálf straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að reka hana.

Í öðru lagi: að sérstakri kristinfræðslu í opinberum skólum landsmanna verði hætt og í staðinn verði lögð áhersla á að kenna almenna trúarbragðafræðslu. Enn fremur er lagt til að öll ummæli sem vísa til almenns siðferðis í námskrá og lögum um grunnskóla séu ekki kennd við kristin gildi eins og nú er. Hér er þarft að ítreka að ekki er lagst gegn almennri menntun um trúarbrögð heldur gegn því að trúarinnræting sé stunduð í opinberum skólum í skjóli námsskrár og laga um grunnskóla.

Í þriðja lagi: að ríkið hætti að sjá um innheimtu sóknargjalda fyrir trúfélög eða að því fólki sem stendur utan trúfélaga sé tryggður réttur til að ráðstafa svokölluðum sóknargjöldum sínum eftir eigin sannfæringu. Í dag er þessu þannig háttað að ríkisvaldið rukkar sérhvern mann um ca. 6000 krónur á hverju ári sem rennur svo til þess trúfélags sem viðkomandi er skráður í. Ef viðkomandi er hins vegar meðlimur í óskráðu trúfélagi eða stendur utan trúfélaga er hann engu að síður rukkaður um þessa upphæð sem síðan rennur óskert til Háskóla Íslands. Hér er því í raun um refsiskatt að ræða þar sem þeir sem kjósa að standa utan trúfélaga eru látnir greiða hærri upphæð til Háskóla Íslands en aðrir. Samtals yfir 50 milljónir á ári.

Í fjórða lagi: er lagt til að sjálfrafa skráningu barna í trúfélög móður verði hætt eða að einstaklingar verði einnig skráðir sjálfkrafa úr trúfélagi móður við sjálfræðisaldur nema að þeir biðji sérstaklega um annað.

Í fimmta lagi: að grafreitir verði færðir að fullu undir stjórn sveitarfélaga.

Í sjötta og síðasta lagi: er lagt til að Guðfræðideild Háskóla Íslands verði lögð niður eða rekstri deildarinnar breytt þannig að ólíkum trúarbrögðum og lífsskoðunum verði gert jafnhátt undir höfði.

Kæru félagar. Aðskilnaður ríkis og trúarbragða er sjálfsagður í lýðræðisþjóðfélagi og er mikið réttlætismál. Þessu er meirihluti landsmanna sammála en afstaða þjóðarinnar til aðskilnaðar ríkis og kirkju hefur verið könnuð með reglulegu millibili undanfarin átta ár af Gallup, og hefur niðurstaðan alltaf verið sú sama. Drjúgur meirihluti landsmanna er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju eða um eða yfir 60% landsmanna.

Ég hvet ykkur því til þess að samþykkja þessa ályktun því nauðsynlegt er að Samfylking jafnaðarmanna hafi skýra og réttláta stefnu í þessum efnum.

Sigurður Hólm Gunnarsson

Deildu