Guðni berst gegn trúfrelsi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

03/10/2003

3. 10. 2003

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra oft einnig nefndur fyndnasti þingmaður Íslands, gerði grín að eigin kjósendum í ræðu sinni um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í gær. Í ræðunni fann Guðni sig tilneyddan til að lýsa því yfir að Framsóknarflokkurinn myndi aldrei styðja aðskilnað ríkis og kirkju. Þrátt fyrir það kemur fram nýrri könnun Gallup að 67% landsmanna […]

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra oft einnig nefndur fyndnasti þingmaður Íslands, gerði grín að eigin kjósendum í ræðu sinni um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í gær. Í ræðunni fann Guðni sig tilneyddan til að lýsa því yfir að Framsóknarflokkurinn myndi aldrei styðja aðskilnað ríkis og kirkju. Þrátt fyrir það kemur fram nýrri könnun Gallup að 67% landsmanna vilja að ríki og kirkja verði aðskilin, þar á meðal 59% þeirra sem kjósa Framsóknarflokkinn.

Í ræðunni sagði Guðni meðal annars:

„Ágætu Íslendingar. Gefum þjóðinni og unga fólkinu bjartsýni og trú. Höldum vörð um frelsið og kristið siðgæði. Heimsendaumræðan er til þess fallin að fólkið okkar fer að trúa því að hér sé allt á hverfandi hveli og þá flytur það úr landi. Fyrir þúsund árum trúlofaðist Alþingi Íslendinga kristinni kirkju á Þingvöllum. Það var gæfuspor. Löggjafarþingið og þjóðkirkjan hafa síðan haldist í hendur. Þetta samstarf er partur af okkar þjóðskipulagi og menningu. Ég og minn flokkur, Framsóknarflokkurinn, viljum ekki höggva á þann þráð. Samstarf ríkis og kirkju hefur í þúsund ár mótað öfluga þjóð og sterkan þjóðarvilja. Siðfræðigildi kristinnar trúar á meira erindi til okkar en oft áður. Löggjafarþingið og þjóðkirkjan eiga að halda utan um sitt samstarf áfram.“

Guðni hefur því ekki áhuga á að vera í takt við tímann og berjast fyrir þeim sjálfsögðu mannréttindum sem felast í jafnrétti. Rökin sem Guðni beitir eru heldur ekki réttlætisrök, heldur siðferðisrök. „Siðfræðigildi kristinnar trúar á meira erindi til okkar en oft áður,“ sagði Guðni.

Um hvaða siðfræðigildi er maðurinn að tala? Menn þurfa ekki að hafa kynnt sér sagnfræði lengi til að sjá að kirkjan hefur nánast alltaf staðið gegn mannréttindum, réttlæti og almennu siðferði. Það var ekki boðskapur kristinnar trúar sem boðaði afnám þrælahalds, jafnrétti kvenna, almenna menntun og umburðarlyndi gagnvart ólíkum lífsskoðunum. Þvert á móti hefur kristin kirkja barist hatramlega gegn flestum þeim sjálfsögðu mannréttindum sem við flest búum við í dag.

Sú fullyrðing Guðna að Íslenska þjóðin þurfi á „siðfræðigildi kristinnar trúar“ að halda er líka móðgandi. Slík fullyrðing gerir lítið úr öllum þeim sem eru annarar trúar eða trúleysingjar því Guðni gefur í skyn, eins og alltof algengt er að gert sé, að siðferði sé kristið fyrirbæri og þar með séum við hin siðleysingjar. Guðni ætti að skammast sín fyrir að halda slíku fram.

Sjá nánar:
Könnun Gallups á fylgi við aðskilnað ríkis og kirkju

Deildu