Illa farið með ömmur og afa

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

17/01/2013

17. 1. 2013

Enn og aftur er þvingaður aðskilnaður aldraðra hjóna til umræðu í fjölmiðlum. Í gær var fjallað um mál Páls Berþórssonar, fyrrverandi verðurstofustjóra, og Huldu Baldursdóttur konu hans í Kastljósinu. Hún er veik og þurfti því að fara á hjúkrunarheimili á meðan hann er of hress til að geta verið á sama stað. Hjónin vilja vera […]

Enn og aftur er þvingaður aðskilnaður aldraðra hjóna til umræðu í fjölmiðlum. Í gær var fjallað um mál Páls Berþórssonar, fyrrverandi verðurstofustjóra, og Huldu Baldursdóttur konu hans í Kastljósinu. Hún er veik og þurfti því að fara á hjúkrunarheimili á meðan hann er of hress til að geta verið á sama stað. Hjónin vilja vera saman en kerfið leyfir það ekki. The computer says no!

Það er þyngra en tárum taki að vita til þess að gömul hjón, ömmur og afar, geti ekki fengið að búa saman vegna þess að heilbrigðiskerfið okkar er gallað. Það er óþolandi að gamalt fólk, fólk sem hefur skapað flest þau verðmæti sem gera okkur hinum kleyft að lifa mannsæmandi lífi, fái ekki viðunandi þjónustu þegar á reynir.

Mál þeirra hjóna minnir mig óþægilega mikið á mál ömmu minnar og afa í föðurætt sem nú eru bæði látin. Afi varð skyndilega veikur og þurfti að fara hjúkrunarheimli en amma þótti ekki nógu veik til að fá að flytja inn með honum. Þá hófst löng barátta fjölskyldu minnar um að koma þeim saman aftur og ekki að ástæðulausu. Þau urðu bæði mjög sorgmædd og þunglynd yfir því að fá ekki að vera nálægt hvort öðru. Heilsu ömmu minnar hrakaði síðan fljótt þannig að á nokkrum mánuðum var hún orðin veikari en afi og lést. Hugsanlega vegna eðlilegs gangs lífsins en okkur fannst sumum eins og að hún hefði dáið úr sorg og einmannaleika. Nokkru fyrir andlátið fékk hún að fara inn á hjúkrunarheimili til afa, þá sjálf orðin mjög veik, en þó ekki inn á sömu deild. Þau fengu í raun aldrei að búa saman aftur.

Á þessu erfiða tímabili reyndi fjölskyldan að gera ýmislegt til að sameina þau hjón, en ekkert gekk. Kerfið var of þungt. Ég reyndi að leggja mitt af mörkum með því að skrifa grein (sem var bæði mjög erfitt að skrifa og senda frá sér), halda ræðu hjá Aðstandendafélagi aldraðra og vekja athygli á þessum málum í fjölmiðlum. Svör ráðamanna voru fá og ófullnægjandi, eða það fannst mér í það minnsta á meðan á baráttunni stóð.

Nú geri ég mér ekki grein fyrir því hvort ástandið hefur eitthvað batnað síðan mín fjölskylda stóð í þessu leiðindarmáli 2006 en ljóst er þó að það kemur enn fyrir að pör eru aðskilin í ellinni. Slíkt á ekki að gerast í velferðarsamfélagi. Þegar aldrað fólk sem vill búa saman fær ekki að gera það vegna þess að kerfið leyfir það ekki er illa farið með það fólk. Þá er illa farið með ömmur okkar og afa.

Sjá nánar:

Deildu