Eiga amma og afi þetta skilið?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

20/02/2006

20. 2. 2006

Þessi grein var send Morgunblaðinu til birtingar 15. janúar síðastliðinn og var birt í dag. Ég skrifa þessa grein sem áhugamaður um bætt samfélag, réttlæti og síðast en ekki síst sem barnabarn. Ég vil með þessum skrifum vekja yfirvöld til umhugsunar um stöðu þess fólks sem hefur með vinnu sinni og ómældum fórnum skapað það […]

Þessi grein var send Morgunblaðinu til birtingar 15. janúar síðastliðinn og var birt í dag.

Ég skrifa þessa grein sem áhugamaður um bætt samfélag, réttlæti og síðast en ekki síst sem barnabarn. Ég vil með þessum skrifum vekja yfirvöld til umhugsunar um stöðu þess fólks sem hefur með vinnu sinni og ómældum fórnum skapað það samfélag allsnægta sem við hin, flest hver, njótum í dag. Ég vil um leið leita ráða hjá ykkur, kjörnum fulltrúum og öðrum borgurum, út af aðstæðum sem amma mín og afi eru í nú á sínum síðustu árum. Aðstæðum sem ég get ekki lýst öðruvísi en ömurlegum og óþolandi.

Þannig eru mál með vexti að afi minn hefur ekki getað búið heima hjá sér í tvö ár vegna veikinda og býr nú á hjúkrunarheimili eins og gengur. Amma mín býr hins vegar enn heima þrátt fyrir að vera orðin brothætt á bæði líkama og sál. Eins og eðlilegt er langar þau mest af öllu að fá að búa saman, þótt það væri ekki nema undir sama þaki. En það er ekki hægt. Það er víst ekki til pláss og amma ekki orðin „nógu veik“ til að komast neins staðar inn. Ég upplifi það að amma mín og afi eru bæði þunglynd og gráta sitt í hvoru lagi yfir einmanaleika og söknuði vegna þess að þau geta ekki verið saman síðustu ár ævi sinnar. Engin skýr svör fást um það hvenær og hvort þau geta búið saman. Mér skilst að það þurfi að minnsta kosti 200 manns að deyja áður en þau geta búið saman á ný. Það er ef annað þeirra verður ekki dáið áður en að því kemur. Ég veit að þetta er hart orðalag en svona er harður raunveruleikinn.

Ég skammast mín fyrir að búa í samfélagi sem getur ekki tryggt gamla fólkinu ánægjulegri ævidaga en nú er gert. Eins sjálfhverfur og maður oft er þá viðurkenni ég að ég hef ekki fylgst nægjanlega vel með stöðu gamla fólksins í samfélaginu fyrr en nú. Nú þegar ég er sjálfur oft með tárin í augunum af því að MÉR líður illa yfir því hvernig komið er fyrir ömmu minni og afa. Ekki síst af því ég veit ekki hvað ég get gert í málinu.

Satt að segja er ég og mín fjölskylda ráðalaus yfir því hvað við getum gert. Þess vegna leita ég ráða hjá ykkur, ríkisstjórninni og öðrum kjörnum fulltrúum mínum. Kjörnum fulltrúum ömmu minnar og afa.

Er hægt að sætta sig við það að fólk sem á aðeins nokkur ár eftir endi ævi sína í þunglyndi og vanlíðan vegna skorts á lágmarksþjónustu sem þessari? Hefur verið reiknað út hvað það kostar mikið að koma málum í lag? Hvað kostar að tryggja að allir aldraðir sem þurfa og vilja komist að á hjúkrunarheimilum komist að á skikkanlegum tíma? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum? Hver er stefna flokkanna í búsetumálum aldraðra?

Stefna yfirvalda í garð gamla fólksins er háð vilja en ekki getu. Við getum tryggt eldra fólki mannsæmandi lífskjör ef viljinn er fyrir hendi. Auðvitað kostar það peninga og yfirvöld hafa ekki aðgang að ótakmörkuðu magni af peningum. Samt hefur tekist að samþykkja að eyða ómældu magni af fjármunum í fokdýr tónlistarhús, íþróttahallir, snobbverkefni, úrelt landbúnaðarkerfi, jarðgöng og hátæknisjúkrahúsi (sem óljós þörf er fyrir) svo fátt eitt sé nefnt. Vandi stjórnmálamanna er að velja og hafna, forgangsraða, eða gera meira með því að hækka skatta. Ég hvet kjörna fulltrúa til að sýna ábyrgð og útskýra stefnu sína skýrt og skilmerkilega. Þeim til aðstoðar kynni ég þrjár ólíkar leiðir:

1. Halda skattprósentunni óbreyttri en forgangsraða verkefnum þannig að tryggt sé að eldri borgarar geti lifað tiltölulega áhyggjulausu lífi.

2. Sleppa forgangsröðuninni en hækka þess í stað skatta til að tryggja ömmum og öfum þessa lands mannsæmandi líf.

3. Ekki gera neitt, ekki taka ábyrgð og leyfa eldra fólki að lifa í sorg og ótta yfir aðstæðum sínum þar til yfir lýkur.

Þetta eru þær helstu leiðir sem eru í boði. Hvaða leið vill ríkisstjórnin fara og hvers vegna? Ég vil fá svör. Hvað ætla yfirvöld að gera, ef eitthvað? Hvað tekur langan tíma að koma málum í lag og hvað kostar það?

Svör hinna kjörnu fulltrúa, eða skortur á þeim, munu hafa veruleg áhrif á það hvar ég set mitt X í næstu kosningum. Ég er viss um að það sama á við marga aðra borgara þessa lands.

Höfundur er nemandi í iðjuþjálfun við HA og barnabarn.

Deildu