Þegar amma og afi fá ekki að vera saman

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/11/2010

16. 11. 2010

Af og til berast fréttir um alvarlegar brotalamir í þjónustu við eldri borgara. Oftar en ekki vekja þessar fréttir lítið umtal og eru gleymdar daginn eftir að þær birtast. Fáir stjórnmálamenn virðast hafa áhuga að ræða stöðu eldri borgara og reynslusögur þeirra oft ekki nógu grípandi til að fanga athygli fjölmiðla. Bak við þessar fréttir […]

Af og til berast fréttir um alvarlegar brotalamir í þjónustu við eldri borgara. Oftar en ekki vekja þessar fréttir lítið umtal og eru gleymdar daginn eftir að þær birtast. Fáir stjórnmálamenn virðast hafa áhuga að ræða stöðu eldri borgara og reynslusögur þeirra oft ekki nógu grípandi til að fanga athygli fjölmiðla. Bak við þessar fréttir liggur þó oft mikill harmleikur sem yfirleitt fer leynt.  Vandinn er sá að eldri borgarar eru ekki sérlega öflugur hagsmunahópur, ef þannig má að orði komast. Gamalt fólk kvartar lítið og aðstandendur vilja ekki „vera með vesen“ og/eða vita ekki hvert þeir eiga að snúa sér með áhyggjur sínar. Því er lítið af viti fjallað um ömmur okkar og afa.

Ég fagna því innilega framtaki Unu Bjarkar Kjerúlf sem vakti athygli á stöðu ömmu sinnar og afa í fjölmiðlum fyrir nokkru. Una segir okkur frá því hvernig 94 ára gamall afi hennar þarf nú nauðugur að flytja í annað sveitarfélag, frá konu sinni og ömmu Unu, vegna niðurskurðar í heilbrigðisþjónustunni. Hreppaflutningar sem þessir og aðskilnaður gamalla hjóna er auðvitað með öllu ólíðandi.

Um yfirvofandi hreppaflutninga segir Una Björk:
„Aldraðir eru teknir frá fjölskyldum sínum og sendir í annað hérað. Þarna er verið að skilja í sundur öldruð hjón og varna þeim að eyða ævikvöldinu í návist hvors annars. Svona gerir maður ekki.“

Ég er henni hjartanlega sammála. Svona gerir maður ekki. Við hljótum að geta farið betur með ömmur okkar og afa á Íslandi.  Una Björk á hrós fyrir að vekja athygli á málinu og ég óska henni og ömmu hennar og afa alls hins besta í baráttunni.

—–

Mér er málið skylt því ég og mín fjölskylda vorum í svipaðir stöðu og Una Björk fyrir nokkrum árum þegar amma mín og afi fengu ekki að vera saman. Sá aðskilnaður olli miklum þjáningum og, að mínu mati, óbætanlegu tjóni.

Umfjöllun um það mál, sem átti sér stað fyrir kreppu, má finna hér:
1) Ræða á stofnfundi Aðstandendafélags aldraðra (AFA)
2) Eiga amma og afi þetta skilið?

Deildu