Flöt niðurfelling skulda er öfugur sósíalismi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

24/06/2013

24. 6. 2013

Fyrir kosningar töluðu margir, þar á meðal undirritaður, um að flöt niðurfelling skulda væri lítið annað en auðmannadekur. Margoft var bent að með flatri niðurfellingu skulda væri í raun fyrst og fremst verið að gefa ríkasta fólkinu á Íslandi pening á kostnað allra, þar á meðal þeirra sem minnst eiga. Nú hefur Seðlabankinn bent opinberlega […]

trickledownFyrir kosningar töluðu margir, þar á meðal undirritaður, um að flöt niðurfelling skulda væri lítið annað en auðmannadekur. Margoft var bent að með flatri niðurfellingu skulda væri í raun fyrst og fremst verið að gefa ríkasta fólkinu á Íslandi pening á kostnað allra, þar á meðal þeirra sem minnst eiga. Nú hefur Seðlabankinn bent opinberlega áflöt niðurfelling sé bæði dýr og óskilvirk aðgerð. Með flatri niðurfellingu er verið að skerða möguleikann til að koma til móts við þá sem eru verst settir. Það er þá sem eru í mestum greiðsluvanda.

Að sama skapi benda Samtök atvinnulífsins á að gengislækkun krónunnar árið 2008 og 2009 hafi ekki verið eins ófyrirséð og menn hafa talað um. Þjóð sem býr við lítinn og óstöðugan gjaldmiðil getur búist við sveiflum í báðar áttir. Er þetta í raun aðalástæðan fyrir því að við erum með verðtryggingu. Svo fólk þurfi ekki að upplifa reglulega gríðarlegar sveiflur á mánaðarlegum afborgunum á lánum.

Aðstoða þarf þá sem eru verst settir
Nú er ég þeirrar skoðunar að hið opinbera eigi að aðstoða verst settu fjölskyldurnar. Fólk sem er tekjulágt, getur ekki minnkað við sig og er í miklum greiðsluerfiðleikum. Að mínu mati er alger fásinna að leiðrétta skuldir allra sem hafa fjárfest í steinsteypu jafnt. Af þeim einföldu ástæðum að margir geta vel greitt af lánum sínum, margir voru orðnir alltof skuldugur fyrir hrun og sumir fóru einfaldlega allt of of geyst í fjárfestingum.

Það er óþolandi að skuldir þessa fólks lendi með einhverjum hætti á þeim sem ekkert eiga og á komandi kynslóðum. Fólkinu sem fór varlega í fjárfestingum. Fólkinu sem þorði ekki að kaupa í bóluhagkerfinu.

Gleymda fólkið
Í umræðunni um heimilin gleymist oftast að minnast á alla þá sem ekki fjárfestu í húsnæði en fóru líka illa út úr hruninu. Leigjendur, láglaunafólk, námsmenn, aldraða, öryrkja og alla þá sem misstu vinnu. Þetta fólk var varla á dagskrá fyrir síðustu kosningar. Sem er svolítið ljótt í ljósi þess að ætlast er til að einmitt þessi hópur taki þátt í að borga fyrir flata niðurfellingu skulda. Skulda allra óháð greiðslugetu eða efnahag að öðru leyti.

Auðvitað á að hjálpa skuldugu fólki sem ekkert getur gert til að komast upp úr skuldafeninu. Það verður í raun að gerast til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. En það er ekki réttlátt að hið opinbera hjálpi öllu fólki. Ég er algerlega á móti flatri niðurfellingu skulda af sömu ástæðum og ég er á móti flötum skatti. Hinir ríku græða mest á slíku fyrirkomulagi og hinir fátæku minnst.

Flöt skuldaniðurfelling er öfugur sósíalismi.

Tengt:
Kosningaveisla ríka fólksins í boði almennings
2007 heilkennið hrjáir þjóðina enn
Stórhættulegar kosningahótanir
Hátíð sjálflægninnar gengin í garð
Hamstrar í hjóli vilja skuldaniðurfellingu
Afnám verðtryggingar er barbabrella
Ekki ríkisstjórninni að kenna

Deildu