Nokkrar ástæður fyrir sögulegu tapi jafnaðarmanna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

30/04/2013

30. 4. 2013

Varla er hægt að kalla niðurstöður Alþingiskosninganna annað en sögulegt tap jafnaðarmanna. Það er verðugt rannsóknarefni að skoða hvað olli gríðarlegu fylgistapi stjórnarflokkana og þá sérstaklega Samfylkingarinnar. Ekki er hægt að skella skuldinni alfarið á stefnuskrá Samfylkingarinnar vegna þess að hún var frekar raunsæ og skýr (og þar með kannski leiðinleg?). Ekki heldur á frammistöðu […]

AlþingiVarla er hægt að kalla niðurstöður Alþingiskosninganna annað en sögulegt tap jafnaðarmanna. Það er verðugt rannsóknarefni að skoða hvað olli gríðarlegu fylgistapi stjórnarflokkana og þá sérstaklega Samfylkingarinnar. Ekki er hægt að skella skuldinni alfarið á stefnuskrá Samfylkingarinnar vegna þess að hún var frekar raunsæ og skýr (og þar með kannski leiðinleg?). Ekki heldur á frammistöðu talsmanna flokksins. Flestir stóðu sig ágætlega í rökræðum og kappræðum í aðdraganda kosninganna. Flestir gera sér líka grein fyrir að margt hefur áunnist eftir hrun. Hvað olli þá stórtapi Samfylkingarinnar (og reyndar VG)?

Ég ætla að nefna nokkrar ástæður sem ég er viss um að skiptu máli. Listinn er ekki tæmandi. Hann byggir á tilfinningu minni og samtölum mínum við margt félagslega þenkjandi fólk.

1) Stjórnarskrármálið
Það hvernig Samfylkingin (og reyndar VG og Björt framtíð) lét Sjálfstæðiflokkinn og Framsóknarflokkinn kúga sig í stjórnarskrármálinu hafði gríðarleg áhrif á traust fólks til Samfylkingarinnar. Í staðinn fyrir að standa með þjóðinni sem hafði kosið um nýja stjórnarskrá og sýna festu og styrk reyndi Samfylkingin af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að semja við íhaldsflokkana um málið. Sú vegferð var vonlaus frá upphafi enda höfðu talsmenn íhaldsflokkanna ítrekað lýst því yfir að þeir vildu ekki nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðs. Réttast hefði verið að þvinga þingið til að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs og afhjúpa andstæðinga nýrrar stjórnarskrár þannig. Þess í stað var farið í vonlausar samningaviðræður og þegar þær skiluðu engum árangri, eins og fyrirsjáanlegt var, þá var Samfylkingunni fyrst og fremst kennt um að hafa klúðrað málinu. Og það réttilega.

Hefði Samfylkingin sýnt hörku í stjórnarskrármálinu og þannig sýnt fram á að flokkurinn ætlaði að halda áfram með málið eftir kosningar hefði það dregið verulega úr eftirspurn eftir nýjum framboðum. Framboðum sem margir studdu einungis vegna stjórnarskrárklúðursins.

2) Hugmyndafræði og verk jafnaðarmanna
Lítið fór fyrir hugmyndafræði jafnaðarmanna í kosningabaráttunni. Það var þörf fyrir að veita kjósendum innblástur. Sýna fram á hvers vegna jafnaðarstefnan skiptir almenning máli og útskýra af krafti hvers vegna kosningaloforð íhaldsflokkana eru glórulaus. Fyrir kosningar gafst gott tækifæri til að sýna fram á muninn á þeim öflum sem berjast fyrir sérhagsmunum og þeim sem berjast fyrir almannahagsmunum. Það var ekki gert. Vinstri flokkarnir áttu að hamra á því í kosningabaráttunni hvað vel hefur verið gert í núverandi ríkisstjórn. Ekki aðeins í efnahagsmálum heldur einnig í mannréttindamálum og umhverfismálum.

3) Lyfjalögin
Óskiljanlegt er hvers vegna ný lyfjalög voru látin taka gildi rétt fyrir kosningar. Óháð því hvort lögin sem slík séu til bóta eða ekki þá var heimskulegt að láta þau taka gildi í miðri kosningabaráttu. Þó markmið lagana hafi verið að jafna lyfjakostnað fólks með ólíka sjúkdóma þá var ómögulegt að koma því til skila á þessum viðkvæma tíma. Margir kjósendur voru eðlilega bálreiðir yfir því að þurfa að skyndilega að borga meira fyrir lyfin sín. Lítið heyrðist frá þeim sem þurftu að borga minna. Ég veit að margir neituðu að kjósa stjórnarflokkana út af þessu máli.

4) Klofningur félagshyggjuaflana
Síðast en ekki síst er óþolandi að félagshyggjufólk getur aldrei staðið saman. Samfylking jafnaðarmanna var stofnuð til að sameina félagshyggjufólk og á að vera fyrir alla jafnaðarmenn. Líka fyrir þá sem vilja minni sóun og minna vesen (Björt Framtíð), leggja áherslu á gegnsæi og upplýsingatækni (stór hluti af Pírötum), samþykkja nýja stjórnarskrá og tryggja að þjóðin fái eðlilegan arð af auðlindum landsins (Lýðræðishreyfingin) og reyndar líka fyrir fólk lengra til vinstri sem vill leggja áherslu á umhverfismál og aukin afskipti hins opinbera (VG). En nei. Félagshyggjufólk getur ekki starfað saman nema það sé fullkomlega sammála um öll mál. Minnsti ágreiningur eða áherslumunur kallar á nýtt framboð.

Niðurstaðan er klofningur, óþarfa átök milli fólks sem er að mestu sammála og völd til handa íhaldsflokkunum á silfurfati.

Félagshyggjufólk verður að læra af þessu því nú eftir kosningar er ljóst að við fáum ekki nýja stjórnarskrá, gjald verður ekki tekið af sameiginlegum auðlindum landsins, áhersla verður aftur lögð á sérhagsmuni en ekki almannahagsmuni og ég get lofað meiri sóun og meira veseni.

Svo verður að sjálfsögðu ekki klárað að semja um aðild að ESB (sem allir ofangreindir flokkar vildu að yrði gert) og við hjökkum áfram í sama gamla farinu.

Deildu