Í dag tók Hope Knútsson formaður Siðmenntar við staðfestingu úr hendi Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, á því að félagið væri formlega lögskráð hjá ríkinu sem lífsskoðunarfélag.
Stjórn félagsins og stuðningsmenn þess hafa barist fyrir jafnræði lífsskoðunarfélaga í rúm 13 ár og nú var loksins upp skorið. Sjá má nánari umfjöllun á Siðmennt.is
Fyrir mig og 10 aðra athafnarstjóra hjá Siðmennt þýðir þetta að við erum viðurkenndir sem lögformlegir
hjónavígslumenn og hjónaefni þurfa ekki lengur að fara fyrst í athöfn hjá sýslumanni áður en það heldur hátíðlega athöfn með athafnarstjóra. Eftir um 1-2 vikur má vænta þess að þetta verði frágengið.
Ég spái því að þetta muni auka vinsældir athafna Siðmenntar til muna og það er spennandi áskorun að takast á við það verkefni að anna aukinni eftirspurn næstu missera. Við hlökkum til giftingarathafna sumarsins.
Þessi viðurkenning á því sem Siðmennt er og stendur fyrir, er ekki síður ákveðið skref úr myrkviðum miðalda. Þetta er áframhald á Upplýsingarstefnunni og merki þess að menning fólks án trúarlegra skoðana er að öðlast fastari og sterkari sess í þjóðfélaginu. Svipuð þróun á sér stað í öðrum ríkjum Evrópu og Norður-Ameríku.
Ég óska stjórn Siðmenntar og öllum félagsmönnum og velunnurum félagsins til hamingju með þennan merka áfanga!