Siðmennt hefur boðað til málþings á morgun, fimmtudag, um líknardauða. Yfirskrift málþingsins er „Að deyja með reisn – líknardauði” og markmiðið er að fjalla um þetta viðkvæma málefni út frá sjónarhóli heimspekinnar og út frá upplifun aðstandenda. Málþingið verður haldið á Hótel Sögu og hefst klukkan 17:00.
Nánari upplýsingar um málþingið: Að deyja með reisn – Líknardauði (Málþing)
Vil ég nota tækifærið og reifa í stuttu máli rökin með og á móti því að leyfa líknardauða.
Helstu rökin með því að leyfa líknardauða eru þau að sjálfráða einstaklingar hljóti að hafa skýlausan rétt til að hafa eitthvað að segja um eigin dauðdaga. Hér er þá átt við einstaklinga sem eru veikir, í flestum tilfellum dauðvona, eiga ekki von á að ná bata og þjást.
Hefur einstaklingur í slíkri stöðu rétt á því að taka yfirvegaða ákvörðun um að binda endi á eigið líf? Ef svo er, hefur hann þá rétt því að gera það með aðstoð annarra? Þetta eru erfiðar spurningar og svörin ekki endilega augljós.
Spyrja má þá frekar: Ef fullorðinn og sjálfráða einstaklingur ræður því ekki sjálfur hvenær og hvernig hann deyr, hver á þá að ráða því? Stjórnvöld? Trúarleg yfirvöld? Aðstandendur?
Í dag hafa sjúklingar á Íslandi óskorðaðan rétt til að hafna meðferð sem heldur þeim á lífi, þar á meðal geta þeir hafnað lífsnauðsynlegri næringu. Ef einstaklingar mega hafna lífsnauðsynlegri meðferð og þar með í raun ákveðið að deyja fyrr, því mega þeir þá ekki taka upplýsta ákvörðun um að deyja strax?
Þegar horft er á málið út frá rétti einstaklingsins til að ráða yfir eigin lífi, og þar með dauða, virðist mér augljóst að ósk um líknardauða sé siðferðilega réttmæt.
Rökin gegn því að leyfa líknardauða eru þó líka mikilvæg og þau þarf að ræða.
Nefni ég fjögur algeng rök gegn því að leyfa líknardauða:
1) Það er trú margra að undir öllum kringumstæðum sé rangt að taka líf.
2) Það er ósanngjörn og óréttmæt krafa að biðja eina manneskju um að taka líf annarrar (gagnkvæmisrök).
3) Það samrýmist ekki grundvallarstarfsreglum lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks að hjálpa sjúklingum að deyja.
4) Með því að leyfa líknardráp erum við að bjóða hættunni heim. Líkur eru á að eftirlit verði ekki nógu gott og úrræðið verði misnotað (fótfesturök). Sem dæmi gætu sumir einstaklingar valið að deyja vegna utanaðkomandi þrýstingsins. Aðrir tekið ákvörðun um að enda líf sitt vegna þess þeir vilja ekki vera „byrði“ á öðrum.
Eins og sjá má er að mörgu að huga þegar kemur að því að taka upplýsta afstöðu til líknardauða.
Ég fæ þó ekki séð að ofangreind rök séu nægjanlega góð til að beinlínis banna líknardauða.
Fjalla ég nokkuð ítarlega um rökin með og á móti í öðrum greinum sem ég hvet fólk til að lesa (Sjá: Lögleiðing líknardráps er mannúðarmál og Líknardráp er siðferðislegur valkostur).
Í stuttu máli er niðurstaða mín sú að lögleiðing líknardráps með skýrum skilyrðum ætti ekki að vera íþyngjandi fyrir aðra og hægt er að haga málum þannig að litlar líkur séu á misnotkun. Skýr lög myndu ekki hafa nein bein áhrif á þá sem eru, af trúarlegum eða siðferðilegum forsendum, á móti líknardauða.
Með því að bjóða upp á líknardauða með skýrum skilyrðum er verið að bjóða upp á mannúðlegan valkost fyrir þá sem kjósa af yfirlögðu ráði að deyja með reisn og á eigin forsendum.
Að mínu mati telst það til mikilvægustu mannréttinda að hafa eitthvað að segja um eigin dauðadaga.
Greinar á Skodun.is:
- Lögleiðing líknardráps er mannúðarmál (Skoðun.is – Grein)
- Líknardráp er siðferðislegur valkostur (Skoðun.is – Grein)