Lögleiðing líknardráps er mannúðarmál

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/01/2006

25. 1. 2006

Tekið var viðtal við Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlækni, í fréttum Stöðvar 2 í gær þar sem hann lýsti því yfir að það væri fráleitt að leyfa líknardráp hér á landi. Ástæðurnar sem hann nefndi voru tvær. Fyrri ástæðan sem hann nefndi var “siðferðisleg” og gaf hann þannig í skyn að líknardráp væri í eðli sínu siðlaus […]

Tekið var viðtal við Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlækni, í fréttum Stöðvar 2 í gær þar sem hann lýsti því yfir að það væri fráleitt að leyfa líknardráp hér á landi. Ástæðurnar sem hann nefndi voru tvær. Fyrri ástæðan sem hann nefndi var “siðferðisleg” og gaf hann þannig í skyn að líknardráp væri í eðli sínu siðlaus verknaður. Þetta er rangt eins og ég vil rökstyðja stuttlega í þessari grein. Seinni ástæðan sem Matthías nefndi (og kannski tengd “siðferðis”ástæðunni) var að “læknar á Íslandi vilja ekki leika Guð almáttugan og ákveða dauðastundina”. Þessi orð frá aðstoðarlandlækni komu mér á óvart í ljósi þess að læknar vinna við það alla daga að hafa áhrif á dauðstund sjúklinga sinna.

Með sömu rökum og aðstoðarlandlæknir notar má álykta að hver sá læknir sem gefur lyf, eða framkvæmir aðgerð, sem lengir líf skjólstæðings síns sé að “leika Guð”. Með aðgerðum sínum er heilbrigðisstarfsfólk sífellt að taka fram fyrir hendurnar á Guði (eða náttúrunni fyrir þau okkar sem trúa ekki á hið yfirnáttúrulega). Þeir sem vilja ekki grípa inn í verk Guðs (framgang náttúrunnar) eiga ekki gerast læknar.

En er eitthvað siðferðilega rangt við líknardráp? Áður en ég svara þessari spurningu vil ég reyfa í stuttu máli hvað átt er við með líknardrápi.

Líknardráp með skýrum skilyrðum er mannúðarmál

Lögleiðing líknardráps með skýrum skilyrðum er að mínu viti mannúðarmál. Með orðinu líknardráp á ég hér við þegar heilbrigðisstarfsmaður eða annar útnefndur aðili stuðlar beint að dauða sjúklings sem er haldinn ólæknandi sjúkdómi sem mun leiða hann til dauða. Líknardráp þarf einnig að uppfylla þau skilyrði að dauðinn sé sjúklingnum sjálfum fyrir bestu og að dauðastundin hafi verið ákveðin með skýrum og yfirveguðum vilja hans. Tryggja verður með starfsreglum að sjúklingur taki ekki ákvörðun í flýti eða einhverju stundarbrjálæði.

Í þeim löndum þar sem líknardráp er nú þegar leyft (t.d. í Hollandi og Sviss) er farið eftir skýrum og ítarlegum reglum til að koma í veg fyrir mistök og misnotkun. Sem dæmi verður sjúklingurinn að vera bæði dauðvona og haldinn miklum kvölum sem erfitt eða ómögulegt er að halda niðri með lyfjum. Tryggja verður að ákvörðun sjúklings sé tekin af yfirvegun og sé í hans þágu. Heilbrigðisstarfsfólki ber einnig skylda til að kynna allar aðrar meðferðir sem kynnu að bæta hag sjúklingsins.

Er líknardráp siðferðilega rangt?

Það eru engin góð rök fyrir því að neita manni að deyja sem er haldinn ólæknandi sjúkdóm og er dæmdur til að þjást það sem eftir lifir. Siðfræðingar hafa stundum bent réttilega á að ef dýralæknir neitar að aflífa dýr sem líður óþolandi þjáningar má kæra viðkomandi lækni útfrá dýraverndunarlögum. Það þykir siðlaust að láta dýr þjást að óþörfu. Því ætti ekki að sýna manneskjum, sem ólíkt dýrum geta tjáð sig og útskýrt vilja sinn með skýrum hætti, sömu virðingu og dýrum og leyfa þeim að deyja ef ekki er hægt að lina þjáningar þeirra með öðum hætti?

Þess má einnig geta að óbeint líknardráp er stundað hér á landi nú þegar þó það sé sjaldan viðurkennt. Erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið í löndum þar sem líknardráp er bannað eins og hér sýna að fjölmargir læknar deyða sjúklinga með of stórum lyfjaskömmtum í því skyni að lina þjáningar þeirra þó læknarnir viti fullvel að lyfið muni draga viðkomandi sjúkling til dauða. Um leið er annarri meðferð sem miðar að því að lengja líf sjúklings oft hætt. Fátt bendir til þess að ástandið hér heima sé öðruvísi.

Það væri því heiðarlegra að leyfa líknardráp með skýrum skilyrðum því það er betra að líknardráp sé framkvæmt opinberlega en í leyni. Með því að leyfa líknardráp með skilyrðum væri um leið verið að draga úr líkum á misnotkun þar sem auðveldara er að fylgjast með einhverju sem er löglegt en því sem er gert ólöglega. Ef smíðaður er góður laga– og starfsrammi um líknardráp er hægt að þróa ítarlegar starfsaðferðir sem draga úr líkum á misnotkun og að farið sé á einhvern hátt gegn vilja sjúklings. Þetta er ómögulegt að gera á meðan líknardráp er bannað (en að öllum líkindum samt stundað).

Því hefur verið haldið fram að siðferðilega réttlætanlegt sé að hætta meðferð t.d. með því að gefa sjúklingi morfín til að draga úr sársauka en hætta um leið að gefa honum næringu. Þannig deyi sjúklingurinn á nokkrum dögum úr næringarskorti. Þetta er meðal þess sem Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlækni, gaf í skyn í fréttum Stöðvar 2 í gær. Ef slík “líknandi meðferð” er siðferðilega réttlætanleg þá hlýtur það að vera siðferðilega réttlætanlegra að leyfa sjúklingnum að deyja strax en ekki úr næringarskorti. Eini munurinn á þessum aðferðum er sá að í fyrra tilfellinu þarf sjúklingurinn að þjást andlega og hugsanlega líkamlega í nokkra daga áður en hann deyr en í seinna tilfellinu ekki.

Gildi lífsins og sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins

Það er líklegt að hugmyndir fólks um lífið og gildi þess skipti meginmáli þegar kemur að afstöðu þeirra til líknardrápa. Ég held því fram að lífið hafi ekkert gildi í sjálfu sér. Líf einstaklings sem til að mynda er heiladauður (=hefur enga meðvitund og á engan möguleika á því að öðlast meðvitund framar) er þannig einskins virði. Í það minnsta ekki fyrir einstaklinginn sjálfan (slíkt líf gæti þó haft einhver áhrif aðstandendur). Það sem gefur lífi einstaklingsins gildi er getan til að hugsa, vona, finna til, upplifa og annað í þeim dúr. Fæstir eru þeirrar skoðunar að líf þeirra væri einhvers virði ef slík mannleg upplifun væri ekki til staðar. Hvað þá með dauðvona sjúklinga sem eiga sér enga von um bata en fullvissu um sársaukafullt og gleðilaust ævikvöld? Ef engar tilfinningar og upplifanir þýða að lífið hafi ekkert gildi, hvað er þá hægt að segja um líf sem er dæmt til að vera uppfullt af sársauka og neikvæðum upplifunum?

Nú eru eflaust margir þeirrar skoðunar að lífið sé heilagt undir öllum kringumstæðum og því sé líknardráp alltaf með öllu siðlaust. Þessar skoðanir heyrast oftast frá trúarlegum yfirvöldum og trúuðum einstaklingum. Fyrir utan það hvað slík röksemdarfærsla er veik þar sem hún er byggð á trúarlegum forsendum þá setur þessi afstaða þá sem halda henni fram í afar erfiðar aðstæður. Ef lífið er heilagt, alltaf, undir öllum kringumstæðum þá hlýtur svokölluð “líknandi” meðferð að vera siðlaus rétt eins og líknardráp. Ef mögulega er hægt að halda lífi í sjúklingi lengur með viðeigandi meðferð þá hlýtur að vera rangt að stöðva meðferð og flýta þannig fyrir dauða sjúklings? Ég þekki engan sem er tilbúinn að lengja sársaukafullt og/eða gleðisnautt líf út í hið óendanlega. Með öðrum orðum þá þekki ég engan sem telur lífið vera “heilagt” undir öllum kringumstæðum.

Lögleiðing líknardráps með skýrum skilyrðum ætti ekki að vera íþyngjandi fyrir neinn. Slík lög myndu ekki hafa nein bein áhrif á þá sem eru, af trúarlegum eða siðferðilegum forsendum, á móti líknardrápi. Líknardráp yrði aðeins mannúðlegur valkostur fyrir þá sem kjósa af yfirlögðu ráði að deyja með reisn og það hlýtur að teljast til mikilvægustu mannréttinda að hafa eitthvað að segja um eigin dauðadaga.

______

Það skal tekið fram að ég byggi þessa umfjöllun meðal annars á gagnlegri umræðu sem ég tók þátt í í áfanganum “Heimspeki” undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar heimspekings, haustönn 2005 í Háskólanum á Akureyri. Grein þessi byggir mikið til á svari sem ég undirbjó til prófs í umræddum áfanga.

Fyrri þá sem vilja fræðast meira um líknardráp og skyld efni mæli ég sérstaklega með bókunum Practical Ethics og Rethinking Life and Death eftir Peter Singer.

Deildu