Skólinn og jólin (sjö punktar)

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/12/2014

15. 12. 2014

Sjö athugasemdir vegna umræðunnar um afskipti opinberra skóla af trúarlífi almennings:1) Ísland er ekki kristin þjóð og þjóðkirkjan er ekki fyrir alla 2) Kirkjuferðir ekki gömul hefð og hefðir réttlæta ekki óréttlæti 3) Mannréttindi ≠ meirihlutavald 4) Það eru ekki mannréttindi að fá að fara í kirkju á vegum opinberra skóla 5) Kirkjuferðir geta víst verið skaðlegar 6) Boðskapur kirkjunnar ≠ hlutlæg fræðsla 7) Jólin ekki kristin hátíð

Sjö athugasemdir vegna umræðunnar um afskipti opinberra skóla af trúarlífi almennings.

1) Ísland er ekki kristin þjóð og þjóðkirkjan er ekki fyrir alla
Þjóð getur ekki haft trúarskoðun. Einstaklingar hafa ólíkar lífsskoðanir. Íslendingar eru ekki allir kristnir og það er algjörlega rangt að þjóðkirkjan sé fyrir alla.
(Sjá: Nei Brynjar Níelsson, Þjóðkirkjan er ekki fyrir alla!)

2) Kirkjuferðir ekki gömul hefð og hefðir réttlæta ekki óréttlæti
Kirkjuferðir úr leik- og grunnskólum um jól er ekki „gömul hefð“ eins og sífellt er fullyrt. Það eru örfá ár síðan þetta svokallaða samstarf kirkju og skóla varð almennt á Íslandi.

Þó að hefð væri fyrir kirkjuferðum og trúarinnrætingu í skólum þá myndi hefðin sem slík ekki réttlæta neitt. Hefðir gilda ekki sem rökstuðningur fyrir því hvort eitthvað sé rétt eða rangt.

Einu sinni var hefð fyrir því að konur væru alltaf heima að ala upp börn. Það var hefð fyrir því að aðeins karlar hefðu kosningarétt. Það var hefð fyrir þrælahaldi, hommahatri og fyrir því að grýta trúvillinga. Hefðarökin eru því ekki aðeins gagnslaus heldur beinlínis vond.
(Sjá: Skóli og trú)

3) Mannréttindi ≠ meirihlutavald
Margir virðast halda að skilgreiningin á mannréttindum sé sú að meirihlutinn ráði í öllum tilvikum. Þetta er augljóslega rangt. Kjarninn í allri mannréttindabaráttu og markmið með flestum stjórnarskrám er einmitt að tryggja réttindi einstaklinga gagnvart ríkisvaldinu og minnihlutann gagnvart ofríki og ofbeldi meirihlutans. Þannig er reynt að tryggja almenn mannréttindi í stjórnarskám þannig að ekki sé hægt að traðka á öðru fólki í krafti meirihluta.
(Sjá: Lausnin er veraldlegt samfélag)

4) Það eru ekki mannréttindi að fá að fara í kirkju á vegum opinberra skóla
Ein algengast rökvillan sem maður heyrir er sú að það séu mannréttindi að fá að fara í skipulagðar kirkjuferðir á skólatíma á vegum opinberra skóla. Þetta er augljóst rugl. Það getur ekki talist vera mannréttindi að opinberir skólar sjái um trúarinnrætingu fyrir foreldra. Það tapar ekki nokkur maður á því að aðskilja skóla og kirkju. Það er ekki eins og það sé skortur á kirkjum og starfsmönnum hennar á Íslandi. Foreldrar sem vilja að börnin sín fái trúarlegt uppeldi hafa fullt frelsi til þess að fara með þau í kirkju.
(Sjá: Afnám forréttinda er ekki frelsisskerðing)

5) Kirkjuferðir geta víst verið skaðlegar
Auðvitað er ekki líkamlega hættulegt að fara í kirkju á skólatíma. Það er ekki eins og það kvikni í trúvillingum þegar þeir ganga inn á vígða jörð. Þetta vita allir og enginn hefur haldið slíku fram.

Það er þó skaðlegt að haga skólastarfi þannig að börn og foreldrar þurfi að gefa upp trúarafstöðu sína. Trú er einkamál einstaklinga sem kemur hinu opinbera ekkert við. Í sögulegu samhengi getur reyndar reynst hættulegt að leyfa hinu opinbera að halda skrá yfir trúarafstöðu fólks.

Það er líka hættulegt að hvetja til hópamyndunar í skólastarfi. Að skipta börnum upp í okkur og hin. Þá sem fara í kirkju og þá sem ekki fara í kirkju. Börn eiga ekki að þurfa að útskýra það fyrir öðrum börnum af hverju þau fara ekki í kirkjuferðalög. Foreldrar eiga ekki heldur að þurfa að útskýra fyrir börnum sínum af hverju þau þurfa að vera öðruvísi en önnur börn.
(Sjá: Skóli og trú)

6) Boðskapur kirkjunnar ≠ hlutlæg fræðsla
Því er haldið fram að kirkjuferðir í kringum jólin og heimsóknir presta í opinbera skóla séu liður í almennri fræðslu um kristna trú. Þetta er ekki rétt. Nemendur fá enga hlutlæga fræðslu um uppruna og boðskap kristinnar trúar í kirkjuferðum. Þau eru að hlusta á sálma og hugvekjur. Jafnvel að fara með bænir.

Hversu mörg börn ætli komi heim úr slíkum „fræðsluferðum“ með þær upplýsingar að það voru kristnir menn sem stálu jólunum? Ætli prestar segi nemendum frá því að kristni breiddist út með ofbeldi? Fyrst í Rómarveldi þegar trúarbrögðin voru gerð að ríkistrú? Ætli þau séu frædd um það að Íslendingar urðu fyrst „kristin þjóð“ þegar Noregskonungur skipaði öllum Íslendingum að gerast kristnir?
(Sjá: Þrjár athugasemdir við predikun biskups)

Svo lofa ég ykkur því að fáir lúterskur prestar segja nemendum frá því að Marteinn Lúter (sá sem þjóðkirkjan er nefnd eftir) hafi verið stækur gyðingahatari sem vildi drepa gyðinga og brenna bænahús þeirra. Hvað þá að hann hafi reglulega barist við djöfulinn með tónlist og prumpi (ég er ekki að grínast).
(Sjá: Marteinn Lúter – siðbótamaður eða siðleysingi?)

7) Jólin ekki kristin hátíð
Jólin eru alls ekki kristin hátíð og því er alls ekki  verið að stela jólahátíðinni af kristnu fólki. Kristnir stálu jólunum! Frumkristnirmenn héldu hvorki upp á jól, né upp á fæðingu frelsarans. Guðfræðingurinn Origen frá Alexandríu benti á það árið 245 að aðeins syndugt fólk fagnaði fæðingardögum.

Jólahátíðin er forn hátíð þar sem endurfæðingu sólarinnar er fagnað. Vetrarsólstöður eru á þessum tíma sem þýðir að dagurinn fer að lengjast á ný. Í Rómarveldi var 25. desember kallaður „Dagur hinnar ósigruðu sólar“ en var síðar breytt í „dag hins ósigraða sonar“ og þá átt við Jesú.
(Sjá: Fæðingu sólarinnar fagnað)

Hættum nú þessu nöldri og búum saman til veraldlegt samfélag fyrir alla.

Gleðileg jól.

Deildu