Nei Brynjar Níelsson, Þjóðkirkjan er ekki fyrir alla!

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

29/07/2013

29. 7. 2013

Hæstaréttarlögmaðurinn og þingmaðurinn Brynjar Níelsson rökstyður í nýrri grein af hverju ríkið eigi að styðja Þjóðkirkjuna. Nefnir hann þrjár röksemdir sem ég ætla að svara hér í stuttu máli. Í fyrsta lagi segir Brynjar að „yfirgnæfandi meirihluti landsmanna tilheyri hinni Lútersku þjóðkirkju“. Í öðru lagi endurtekur hann lygina um að Þjóðkirkjan veiti „öllum þjónustu og skiptir þá ekki […]

Alþingi og dómkirkjaHæstaréttarlögmaðurinn og þingmaðurinn Brynjar Níelsson rökstyður í nýrri grein af hverju ríkið eigi að styðja Þjóðkirkjuna. Nefnir hann þrjár röksemdir sem ég ætla að svara hér í stuttu máli.

Í fyrsta lagi segir Brynjar að „yfirgnæfandi meirihluti landsmanna tilheyri hinni Lútersku þjóðkirkju“.

Í öðru lagi endurtekur hann lygina um að Þjóðkirkjan veiti „öllum þjónustu og skiptir þá ekki máli hvort viðkomandi tilheyrir henni eður ei“.

Að lokum réttlætir Brynjar ríkisstuðninginn með samningi sem gerður var milli „þjóðkirkjunnar og ríkisins þar sem kirkjan afsalaði til ríkisins eignum sínum“. Viðurkennir Brynjar að hann „þekki ekki samninginn“.

Rökum Brynjars er auðsvarað:

1) Það skiptir engu máli hversu margir tilheyra Þjóðkirkjunni. Það er ekki eðlilegt í frjálsu lýðræðisríki að hið opinbera styrki og styðji eitt trúfélag umfram önnur. Árið 1989 tilheyrðu 90% þjóðarinnar Þjóðkirkjunni. Í dag er hlutfallið komið niður í 76%. Hvað þarf hlutfallið að verða lágt til að meirihlutinn teljist ekki lengur „yfirgnæfandi“? Er mismunun vegna lífsskoðana í lagi í nafni meirihluta?  (Sjá nánar: Greinasafn um ríki og trú)

2) Það er algerlega ósatt að þjóðkirkjan veiti öllum þjónustu óháð aðild eða trúarskoðunum. Fólki er reglulega vísað frá Þjóðkirkjunni vegna trúarskoðana og prestar kirkjunnar (sem eru opinberir starfsmenn) geta neitað samkynhneigðum um þjónustu svo dæmi séu tekin. Samkvæmt innri samþykktum Þjóðkirkjunnar sjálfrar þjónar kirkjan ekki öllum. Þeir sem halda öðru fram vita ekki betur eða fara með ósannindi  (Sjá nánar: Biskupinn bullar í Fréttablaðinu).

3) Samningur ríkisins við Þjóðkirkjuna um afhendingu kirkjujarða er einn mesti bullsamningur sem gerður hefur verið og ætti að rifta honum af mörgum ástæðum.

Í fyrsta lagi veit enginn nákvæmlega hvaða jarðir voru afhentar við undirritun. Í öðru lagi virðist enginn vita hvert vermæti jarðanna var. Í þriðja lagi finnast ekki afsöl yfir þær jarðir sem ríkið tók yfir. Í fjórða lagi tryggir samningurinn launagreiðslur til Þjókirkjunnar endalaust! Hið opinbera verður aldrei búið að greiða upp þessar jarðir. Aldrei.

Samningur með svo marga ágalla hlýtur að teljast lögleysa.  Svo má einnig velta því fyrir sér hvort kirkjan hafi haft eitthvað tilkall til jarðanna til að byrja með. Efast má um að kirkjan hafi eignast jarðirnar allar með heiðarlegum aðferðum og afar eðlilegt að spyrja hvort stór hluti jarðanna hefði ekki átt að vera almannaeign til að byrja með. Ég held því fram að umræddur samningur sé bæði ólöglegur og siðlaus. (Sjá nánar: Leitin að týndu kirkjujörðunum)

Hér má spara
Ljóst má því vera að fá ef nokkur rök eru fyrir því að hið opinbera styrki Þjóðkirkjuna sérstaklega eða trúfélög almennt. Því má auðveldlega spara verulega í þessum málaflokki. Aðskiljum ríki og kirkju og leyfum trúarsöfnuðum og lífsskoðanafélögum að innheimt sjálf eigin „sóknargjöld“. Hugsanlega getur hið opinbera stutt frjáls félög til að halda nauðsynlegar athafnir lífsins eins og greftranir og giftingar en út í hött er að nota almannafé til að boða trú. Ríkið á að vernda trúfrelsi okkar en ekki skipta sér af trúmálum.

Í nafni frelsisins hlýtur Brynjar Níelsson að vera sammála þessu.

Höfundur situr í stjórn Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á Íslandi.

Deildu