Fæðingu sólarinnar fagnað

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/12/2003

23. 12. 2003

Í gær voru vetrarsólstöður og þar með stysti dagur ársins. Frá og með deginum í dag fer sólin að hækka á lofti og dagarnir verða lengri. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að jólin eru haldin hátíðleg ár hvert. Jólahátíðin er ævaforn hátíð þar sem menn fagna endurfæðingu sólarinnar og upphaf nýs árs. Trúin á […]

Í gær voru vetrarsólstöður og þar með stysti dagur ársins. Frá og með deginum í dag fer sólin að hækka á lofti og dagarnir verða lengri. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að jólin eru haldin hátíðleg ár hvert. Jólahátíðin er ævaforn hátíð þar sem menn fagna endurfæðingu sólarinnar og upphaf nýs árs. Trúin á guðlegt vald sólarinnar er ævaforn og að mörgu leiti skiljanleg trú, enda má segja að sólin sé lífsgjafi jarðarinnar. Fyrr á öldum persónugerði mannfólkið sólina í fjölmörgum sólguðum og í dag er vinsælastur á meðal þeirra frelsarinn Jesús frá Nasaret.


Jólin – hátíð sólar og frelsisguða
Ólíkt því sem flestir halda er sagan um fæðingu Jesú, sem kristnir menn minnast á jólunum, ekki byggð á sagnfræðilegum staðreyndum. Sama má segja um líf hans, boðskap og kraftaverk. Alls óvíst er hvort Jesú hafi raunverulega nokkurn tímann verið til en ef hann var til þá má fullyrða að því sem næst ekkert er vitað um líf hans. Nánast allar þær sögur sem sagðar eru um Jesú í guðspjöllum Biblíunnar eru byggðar á eldri sögum um aðra sólguði og frelsara sem komu til jarðar til að færa mannfólkinu eilíft líf. Flestir eiga frelsararnir það sameiginlegt að móðir þeirra var hrein mey, þeir fæddust á afviknum og fátæklegum stað (í hlöðu, helli, undir tré o.s.frv.), þeir voru synir guðs, voru handteknir og dæmdir til dauða, voru kallaðir lambið og ljós heimsins og þeir voru sagðir hafa dáið fyrir syndir mannanna. Flestir áttu frelsararnir það sameiginlegt að hafa fæðst þann 25. desember, eða á vetrarsólstöðunum. Ástæðan er eins og fyrr segir sú að lífsgjafi jarðarinnar, sólin, hefur nýtt líf, „fæðist“, á þessum tíma.

Árið 46 f.o.t. ákvað Júlíus Sesar rómarkeisari að taka upp júlíaníska dagatalið í Rómarveldi. Vetrarsólstöðurnar og nýtt ár hófst þannig þann 25. desember og lýsti Sesar þann dag sem „Dag hinnar ósigruðu sólar“. Kristnir breyttu síðar nafni dagsins í „Dag hins ósigraða sonar“.

Í Rómarveldi, vöggu kristinnar trúar, var ár hvert haldin stórhátíð á vetrarsólstöðum. Hátíðin, Saturnalia, var kennd við Satúrnus, guð landbúnaðarins, og stóðu almenn hátíðarhöld yfir frá 17. til 24. desember. Þann 25. var síðan haldin mikil veisla (Brumalia) sem var hápunktur hátíðarinnar.

Heiðingjarnir sem héldu upp á jólin, löngu fyrir meinta fæðingu Jesú, gerðu sér glaðan dag með því að gefa gjafir, syngja, hengja upp mistilteina og með því að skreyta tré.

Líberíus biskup í Róm er talinn hafa ákveðið fyrstur manna árið 354 að 25. desember yrði gerður að opinberum fæðingardegi Jesús.

Þegar ljósið sigrar myrkrið
Páskarnir eru einnig forn hátíð sem haldin er til dýrðar sólinni. Rétt eins og fæðingu sólarinnar var fagnað á jólunum (vetrarsólstöðum 20.-23. desember) var sigri ljóssins fagnað á páskum (vorjafndægur 19.-21. mars). Á þessari hátíð ljóssins (sólarinnar), páskunum, fagna kristnir menn sigri Jesú Krists yfir dauðanum rétt eins og heiðingjarnir fögnuðu því að sólin hafði loks sigrast á myrkrinu. Ljósið hefur sigrað þar sem að frá og með vorjafndægri er dagur lengri en nótt, birtan algengari en myrkrið.

Frelsis- og sólguðirnir
Sú kristni sem lögtekin var í Rómarveldi af Kontantínusi keisara árið 325 var að mörgu leiti ekki ný trúarbrögð. Má frekar segja að með kristni hafi gömul trúarbrögð fengið nýtt nafn. Goðsögunnar áttu sér allar eldri fyrirmyndir og sama má segja um boðskapinn. Frelsisguðir heimsins hafa verið fjölmargir eða í það minnsta 17 talsins (líklegast fleiri) og er Jesú kristur sá sem nú seinast varð vinsæll.

Frelsisguðirnir:
Hér fyrir neðan er listi yfir helstu frelsis- og sólarguði mannkyns, hvar trúin á þá var útbreidd og hvenær.
Osiris (Egyptaland ca. 1700 f.o.t.)
Bel (Babílónía ca. 1200 f.o.t.)
Atys (Phrygia ca. 1170 f.o.t.)
Themmuz (Sýrland ca. 1160 f.o.t.)
Dionysus (Grikkland ca. 1100 f.o.t.)
Krisna (Indland ca. 1000 f.o.t.)
Hesus (Evrópa ca. 834 f.o.t.)
Indra (Tíbet ca. 725 f.o.t.)
Bali (Asía ca. 725 f.o.t.)
Iao (Nepal ca. 622 f.o.t.)
Alcestis (Pherae ca. 600 f.o.t.)
Quexalcote (Mexico ca. 587 f.o.t.)
Wittoba (Travancore ca. 552 f.o.t.)
Prometheus (Grikkland ca. 547 f.o.t.)
Quirinus (Róm ca. 506 f.o.t.)
Mítra (Persía ca. 400 f.o.t.)
Jesú Kristur (Róm 325 e.o.t.)

Nánar um frelsisguðina

Osiris – Horus – Isis
Egypski guðinn Osiris, var fyrst dýrkaður líklegast í kringum 3000 f.o.t. Osiris, var eins og hinn kristni guð, hluti af heilagri þrenningu. Þrenningin samanstóð af hinum himneska guði, hinum jarðneska guði (konungur Egypta) og fálka. Til samanburðar er hinn þríeini guð kristninnar, Guð, Jesús (sonurinn) og hinn heilagi andi (oft táknaður í formi dúfu). Horus var sonur Osiris á jörðu sem Osiris hafði eignast með Isis, sem vitaskuld var hrein mey.

Fæðingu Horusar var fagnað af þremur vitringum og er þeirra minnst sem þrem stjörnum í stjörnumerkinu Oríon. Englakór söng til dýrðar Hórus þegar hann fæddist. Fæðingu Horusar var oft minnst með teikningu af barni (Horus) í jötu og af móðir hans (Isis) sem stendur yfir honum. Horus fæddist á vetrarsólstöðum.

Mítra
Trúin á Mítra hófst líklegast í Persíu í kringum árið 2000 f.o.t. Mítra var rétt eins og Jesús sonur guðs og jarðneskrar konu sem einnig var hrein mey. Sagan segir að Mítra hafi fæðst þann 25. desember ýmist í gripahúsi eða í helli og að fjárhirðar, sem urðu vitni að fæðingunni, hafi fært honum gjafir.

Mítra var kallaður frelsari, lambið, ljós heimsins, sól réttvísinnar. Hann á að hafa framið fjölmörg kraftaverk, þar á meðal reisti hann mann upp frá dauðum, læknaði lamaða, gaf blindum sýn og rak illa anda úr mönnum.

Rétt eins og Jesú borðaði Mítra síðustu kvöldmáltíð sína ásamt tólf lærisveinum áður en hann steig upp til himna. Á síðustu kvöldmáltíðinni neyttu þeir meðal annars sakramentis eða brauðs sem var skreytt með krossi.

Eftir að Mítra dó var líkneski af honum búið til úr steini og var það sett inn í grafhýsi en síðan aftur fjarlægt þaðan þar sem því var trúað að Mítra hefði sigrast á dauðanum og stigið upp til himna. Þeir sem trúðu á Mítra trúðu því jafnframt að til þess að komast til himna eftir dauðann þyrftu menn að skírast. Samkvæmt trúnni mun Mítra koma aftur til jarðar fyrir heimsendi og dæma mannkynið.

Trúin á Mítra var afar útbreidd í Rómarveldi á fyrstu dögum kristninnar og voru þessi tvö trúarbrögð lengi álíka vinsæl, enda keimlík. Þannig var Mítra útnefndur „verndari rómverska heimsveldisins“ árið 307 e.o.t. Nokkrum árum síðar eða árið 325 tók Konstantínus þáverandi Rómarkeisari þá ákvörðun að kristni skyldi taka við sem ríkistrú Rómarveldis. Rétt rúmum 30 árum síðar eða árið 358 hófu kristnir að ofsækja þá sem trúðu á Mítra.

Margar af helstu athöfnum kristinnar trúar eru nákvæmlega þær sömu og voru stundaðar af fylgjendum Mítra. Má þar nefna sakramentið, skírnin, ýmsar hátíðir og það að halda upp á hvíldardaginn á sunnudegi, degi sólarinnar. Gyðingar og ýmsir kristnir „sértrúar“söfnuðir (t.d. Sjöunda dags aðventistar) halda þó enn upp á hvíldardaginn á laugardegi, enda er það hvíldardagurinn samkvæmt Biblíunni.

Krisna
Krisna, hinn mennski guð og kristur Hindúa, sonur guðsins Vishnu og hinnar mennsku Devaki var talinn hafa fæðst á vetrarsólstöðum ca. 1200 – 1000 f.o.t. Þegar Krisna fæddist sungu englar honum til dýrðar og stjarna birtist á himni. Vitringar og fjárhirðar heimsóttu guðssoninn og færðu honum gjafir. Konungurinn Kanasa, sem óttaðist Krisna, lét drepa öll sveinbörn sem fæddust sama dag. Fósturfaðir Krisna, sem var trésmiður, fékk skilaboð frá himnum þar sem hann var varaður við reiði Kanasa og hvattur til þess að flýja með fjölskyldu sína.

Rétt eins og aðrir frelsarar mannkyns framkvæmdi Krisna ýmis kraftaverk, barðist við djöfla, fyrirgaf syndir manna og hafði ákveðinn siðferðisboðskap fram að færa. Til eru gömul indversk listaverk, bæði höggmyndir og málverk, þar sem Krisna er sýndur krossfestur á sama hátt og nýrri listaverk sýna Jesús krossfestan. Því er einnig trúað að Krisna hafi dáið fyrir syndir mannanna og að hann hafi sigrað dauðann og risið upp til himna.

Gleðilega sólstöðuhátíð
Sögur frelsis- og sólguðanna eru allar keimlíkar og eru augljóslega byggðar á undrum náttúrunnar, gangi sólarinnar og árstíðunum. Ár hvert deyr náttúran og leggst í dvala en þó aðeins í stutta stund í einu. Áður en við vitum af vaknar hún aftur til lífsins og blómstrar en bíður þess eins að deyja aftur. Það er að mörgu leiti eðlilegt að þessi undursama hringrás náttúrunnar gefi dauðlegum von um að hið sama eigi við líf manna og dýra.

Nú þegar við getum hlakkað til þess að upplifa hlýrri og bjartari daga vil ég nota tækifærið til að óska öllum gleðilegrar sólstöðuhátíðar.

Heimildir:
Almanak Háskóla Íslands

The Winter Solstice & Christmas – Atheist Alliance International

Encyclopædia Britannica

“The History of the Decline and Fall of the Roman Empire” – Gibbon, Edward

“The Psychic Stream” og “The Curse of Ignorance” – Findlay, Arthur

Vísindavefur HÍ – Um jól

Vísindavefur HÍ – Um páska páskar

Sjá nánar:
Formaður Félags ungra jafnaðarmanna segir satt

Tengt efni:
Hvers vegna dó Bel?

Deildu