Mótmælum ójafnaðarstjórninni

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

02/10/2013

2. 10. 2013

Sérhagsmunastefna ríkisstjórnarinnar hefur verið afhjúpuð. Eftir birtingu fjárlaga má öllum að vera það ljóst að stjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er fyrst og fremst stjórn hinna ríku. Stórfyrirtækjum, sérhagsmunaöflum og efnafólki er samviskusamlega hlíft á meðan ráðist er með grímulausum hætti að lág- og millitekjufólki með því að skera niður í almannaþjónustunni og hækka gjöld. Við […]

Setning alþingis 1. október 2013Sérhagsmunastefna ríkisstjórnarinnar hefur verið afhjúpuð. Eftir birtingu fjárlaga má öllum að vera það ljóst að stjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er fyrst og fremst stjórn hinna ríku.

Stórfyrirtækjum, sérhagsmunaöflum og efnafólki er samviskusamlega hlíft á meðan ráðist er með grímulausum hætti að lág- og millitekjufólki með því að skera niður í almannaþjónustunni og hækka gjöld. Við þetta bætist að stjórnmálamenn í háum stöðum hafa verið staðnir að verki við að ljúga blákalt upp í opið geðið á þjóðinni bæði fyrir og eftir kosningar.  Hvar eru milljarðarnir þrettán sem okkur var lofað í kosningaþætti að færu til Landspítalans aðeins nokkrum dögum fyrir kosningar? Almenningur má ekki láta bjóða sér þetta.

Heróp stjórnarflokkanna sem birtist í verkum þeirra: „Lægri skattar, hærri gjöld og niðurskurður í almannaþjónustu“ afhjúpar hugmyndafræðina.

Almenningur tapar á skattalækkunum
Margir fagna ógurlega öllum lækkunum á tekjuskatti. Staðreyndin er sú að lág- og millitekjufólk græðir yfirleitt lítið á lækkun slíkra skatta. Sexhundruð  til 2500 krónur aukalega í launaumslagið skiptir meðal manninn engu máli. Myndi einhver nenna í langa kröfugöngu til að fá 600 króna launahækkun?

Það sem skiptir venjulegt fólk mestu máli er að hafa greiðan aðgang að öflugri almannaþjónustu. Læknisþjónustu, menntun og öryggisneti.  Þegar almannaþjónustan versnar vegna niðurskurðar og þegar hagræðingarkröfur kalla á aukin útgjöld almennings (til að efla kostnaðarvitund) er það þessi sami almenningur sem situr uppi með tapið. Kjósandi sem í sæluvímu telur sig hafa „grætt“ á skattalækkunum hefur í raun þurft að greiða meira fyrir nauðsynlega þjónustu í gegnum gjöld. Þegar hann loksins áttar sig á því að hann á ennþá erfitt með að ná endum saman berst hann jafnvel fyrir frekari skattalækkunum og grefur þannig sína eigin gröf.

Brauðmolakenningin stendur á brauðfótum
Stóreignafólk og fyrirtæki hafa alltaf kvartað yfir allri skattlagningu og öllum umbætum í þágu almennings. Allar umbætur ganga af atvinnurekendum dauðum, að þeirra mati. Nú er vælt yfir hærri sköttum og gjöldum. Ef skattar eru hækkaðir á fyrirtæki flytja þau öll úr landi. Ef eðlilegt gjald er tekið af nýtingu auðlinda verður orkan aldrei notuð og fiskurinn syndir óveiddur í sjónum. Gott ef Ísland breytist ekki í eyðieyju nema skattar verði lækkaðir.

Þetta er gömul saga og ný. Áður var kvartað yfir kröfum um heilsusamlegt umhverfi fyrir verkamenn, minni vinnutíma, kostnaði vegna öryggis og menntunar, yfir því að ung börn mætti ekki lengur vinna, yfir kaffipásum, lögboðnum hvíldartíma o.s.frv. Þetta væl yfirstéttarinnar hefur aldrei verið byggt á neinu nema græðgi og innantómri hugmyndafræði sem stundum er kennd við brauðmolakenninguna og hina ímynduðu ósýnilegu hönd markaðarins. Hönd sem er ósýnileg einmitt af því hún er ekki til.

Því er sorglegt að horfa upp á auðmenn gráta sig í svefn yfir því að þurfa að borga meira til samfélagsins en fussa og sveia yfir því í leiðinni að almenningur sé ósáttur við að þurfa að borga aukalega fyrir að liggja á sjúkrahúsi.

Búið er að heilaþvo okkur með því að ef hinir ríku verða ríkari þá græði allir sjálfkrafa. Brauðmolar af veilsuborði fyrirfólks muni hrökkva niður til smælingjanna og metta þá. Því stærri sem brauðmolarnir eru því betur sett erum við hin.

Vandinn við þessa kenningu er sá helstur að hún er bölvað rugl. Engar rannsóknir styðja að misskipting í lýðræðissamfélögum bæti líf þeirra sem skríða meðfram botninum og lærdómur sögunnar staðfestir kaldar niðurstöður vísindanna.

Jöfnuður er mikilvægur í sjálfu sér
Þvert á móti bendir flest til þess að jöfnuður, þ.e. minni misskipting, auki velferð og hamingju almennings. Í lýðræðissamfélögum þar sem jöfnuður er meiri eru lífslíkur að sama skapi meiri, minna um morð og ofbeldisglæpi. Þar eru færri fangar, minna um ótímabærar þunganir, tíðni ýmissa sjúkóma er minni, færri verða vímuefnum að bráð og fólk ber meira traust til hvors annars. Það sem meira er þá eru meiri líkur á því að fátækur maður geti orðið ríkur í jafnaðarsamfélögum en í þeim samfélögum þar sem blind trú á hina ósýnilegu hönd markaðarins birgir mönnum sýn.

Það kann að hljóma þversagnakennt en það er samt þannig að einstaklingsframtakið er kraftmeira í jafnaðarsamfélögum og frelsi borgara í löndum þar sem „báknið“ snýst um að veita almannaþjónustu er meira. Þetta hafa menn svo sem vitað lengi.

Jafnaðarstefnan er ekki flokkspólitísk. Hún er frelsisstefna sem allir „græða“ á. Sérstaklega ef fólk skilgreinir gróða sem hamingju, lífsfyllingu og öryggi.

Mótmælum kröftuglega
Látum ekki plata okkur enn eina ferðina enn.  Mótmælum ójafnaðarstefnunni, lygunum og sérhagsmunapotinu.

Nánar:

Deildu