„Þegar við getum sagt að hinir fátækustu meðal landa okkar séu hamingjusamir og líða engan skort. Þegar fangelsin eru tóm, strætin laus við betlara, aldraðir geta lifað góðu lífi og skattar eru ekki of íþyngjandi. Aðeins þá getum við verið stolt af stjórnvöldum okkar og stjórnarskrá.“
Þetta sagði Thomas Paine í riti sínu Rights of Man, öðru hefti, sem kom út 1792. Var hann vitaskuld dæmdur til dauða fyrir vikið en sem betur fer flúði hann land áður en dómur var kveðinn upp.
Þar lagði Paine eftirfarandi til:
- Afnema skatta á hina fátæku.
- Tryggja hinum fátækustu lágmarks lífskjör með beinum fjárstuðningi frá hinu opinbera.
- Stjórnvöld tryggi að öll börn fái viðeigandi menntun. Aðeins í einræðisríkjum og aðalsveldum er fáfræði gagnleg til að tryggja stuðning við yfirvöld.
- Aldraðir njóti stuðnings í formi fjárframlaga og aðstoðar.
- Foreldrar sem hafa lítið á milli handanna fái fjárstyrk fyrir hvert barn sem þeir eignast.
- Giftingarstyrkur veittur til para sem eru að hefja sambúð.
- Ríkið greiði fyrir greftrun og útfararkostnað fyrir fjölskyldur með litlar eða engar tekjur.
- Hið opinbera á að tryggja fulla atvinnu, alltaf, til handa þeim sem þurfa á vinnu að halda til að sjá fyrir sér.
Einnig hvatti Paine til þess að sett yrði á þrepaskipt skattkerfi sem tryggði að þeir sem eiga mest borgi meira til samfélagsins en þeir sem eiga lítið.
Helstu markmið með þessum tillögum:
- Að draga úr vansæld og píningu þeirra hafa litlar eða engar tekjur.
- Fækka glæpum vegna fátæktar, nauðþurftar og almennu virðingarleysi fyrir samfélaginu.
- Koma í veg fyrir að komið sé fram við einhleypinga, ekkjur, ekkla og aldraða eins og hálfgerða glæpamenn.
- Að ekki verði litið á börn sem byrði á foreldrum sínum.
- Að tryggja að allir, bæði þeir ríku og þeir fátæku, hafi áhuga og hag af því að styðja yfirvöld og samfélagið. Mikil misskipting er í sjálfu sér slæm fyrir alla í samfélaginu. Ef þeir sem eru fátækir skynja að stjórnvöldum sé sama um þá eða þeir hafa engin tækifæri til að bæta hag sinn undir núverandi kerfi eru óeirðir, uppreisnir og auknir glæpir óumflýjanlegir.
Jafnaðarmenn geta enn lært af Thomas Paine.
Sjá nánar greinasafn um Thomas Paine:
1. hluti – 2. hluti – 3. hluti – 4. hluti