Thomas Paine (1737-1809) – annar hluti – Fyrsti jafnaðarmaðurinn?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

13/11/2000

13. 11. 2000

Hagur almennings í Bretlandi fyrir rétt rúmlega 200 árum var vægast sagt ömurlegur. Fátækt var mikil, réttindi manna nær engin og menntun almennings hverfandi. Það ætti því ekki að koma fólki á óvart að glæpatíðnin var há, fangelsin yfirfull og öryggi almennings lítið. Fyrsti jafnaðarmaðurinn á Bretlandi? Í þessu umhverfi skrifaði Thomas Paine snilldarritið Rights […]

Hagur almennings í Bretlandi fyrir rétt rúmlega 200 árum var vægast sagt ömurlegur. Fátækt var mikil, réttindi manna nær engin og menntun almennings hverfandi. Það ætti því ekki að koma fólki á óvart að glæpatíðnin var há, fangelsin yfirfull og öryggi almennings lítið.

Fyrsti jafnaðarmaðurinn á Bretlandi?
Í þessu umhverfi skrifaði Thomas Paine snilldarritið Rights of Man. Í þessari merkilegu bók hafnaði Paine einvaldi konungs og lagði fyrstur manna drög að því velferðakerfi sem við vesturlandabúar búum við í dag. Þar með má segja að Paine hafi verið fyrsti raunverulegi jafnaðarmaðurinn.

Paine skildi fullvel að án almennrar menntunar og félagslegrar þjónustu gæti almenningur aldrei losnað úr viðjum fátæktar og hann vissi líka að ef ríkið sæi ekki um að veita þessa þjónustu yrði þjóðin stéttaskipt að eilífu. Þegar Rights of Man kom fyrst út árið 1791 var hún umsvifalaust bönnuð vegna þeirra hættulegu hugmynda sem í henni voru. Þrátt fyrir bannið seldist bókin grimmt og innan nokkurra mánaða hafði hún selst í mörgum upplögum enda höfðu sjónarmið fátækra, þeirra sem höfðu engan kosningarétt, hvergi komið eins skýrt fram. Paine gaf almenningi stefnu og markmið með bók sinni og fyrir það elskuðu landar hans hann.

Maður langt á undan sinni samtíð
Hugmyndir Paine um menntun handa öllum, ellilífeyri, stofnun Bandalags þjóða til að koma í veg fyrir styrjaldir og stofnun almenns velferðakerfis voru ekki settar í framkvæmd fyrr en 80 til 150 árum síðar og því má með sanni segja að Paine hafi verið langt á undan sinni samtíð.

Skoðanir Paine á því hvað teldist réttlátt þjóðfélag voru afdráttarlausar:

When it can be said by any country in the world, my poor are happy, neither ignorance nor distress is to be found among them, my jails are empty of prisoners, my streets of beggars, the aged are not in want, the taxes are not oppresive, the rational world is my friend because I am the friend of happiness. When these things can be said, then may that country boast its constitution and government.

Ólíkt svo mörgum þjóðfélagsgagnrýnendum á öllum tímum vissi Paine nákvæmlega hvað hann vildi, hvað það kostaði að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og hvernig væri hægt að fjármagna þær.

Í fyrsta lagi lagði Paine til að ríkið styrkti þær 250.000 fjölskyldur sem þóttu bláfátækar um 4 pund á ári fyrir hvert barn undir 14 ár aldri sem í fjölskyldunni var.

Í öðru lagi vildi hann að ríkið tryggði öllum þeim 1.030.000 börnum sem hvorki kunnu að lesa né skrifa ókeypis menntun.

Í þriðja lagi krafðist Paine að ríkið legði til 6 pund á ári í lífeyri handa öllum þeim sem þóttu fátækir og öllum þeim sem voru á aldursbilinu 60 til 70 ára.

Í fjórða lagi átti ríkið að leggja til 10 pund á hverju ári í lífeyri handa öldruðum eða öllum þeim sem voru orðnir eldri en 60 ára.

Í fimmta og sjötta lagi vildi Paine að ríkið færði öllum foreldrum 1 pund að gjöf fyrir hvert fætt barn og sama upphæð átti að fara til allra þeirra sem giftu sig.

Í sjöunda lagi átti ríkið að sjá um að borga allan útfararkostnað fyrir þá sem höfðu ekki ráð á því sjálfir. (En á þessum tíma lenti útfararkostnaðurinn á kirkjusóknunum ef fjölskylda hins látna gat ekki borgað fyrir útförina. Þetta olli því að sumar sóknir stunduðu þá ógeðfelldu aðgerð að flytja deyjandi fólk fram og til baka á milli sókna í þeirri von um sjúklingurinn myndi deyja í annarri sókn og losna þannig við að greiða fyrir útförina.)

Í áttunda lagi vildi Paine að ríkið tryggði fátækum í London atvinnu á öllum tímum.

Markmið Paine með þeim félagslegu umbótum sem hann lagði til voru skýr og skynsamleg en hann segir best frá þeim sjálfur:

By the operation of this plan the poor laws, those instruments of civil torture, will be superceded, and the wasteful experience of litigation prevented. The hearts of the humane will not be shocked by ragged and hungry children, and persons of seventy and eighty years of age, beggin for bread. The dying poor will not be dragged from place to place to breathe their last, as a reprisal of parish upon parish. Widows will have maintenance for their children, and not be carted away on the death of their husbands like culprits and criminals, and children will no longer be considered as increasing the distress of their parents.

The haunts of the wretched will be known, because it will be to their advantage, and the number of petty crimes, the offspring of distress and poverty, will be lessened. The poor, as well as the rich, will then be interested in the support of government, and the cause and apprehension of riots and tumults will cease. The plan is easy in practice. It does not embarrass trade by a sudden interruption in the order of taxes, but effects the relief by changing the application of them, and the money necessary for the purpose can be drawn from the excise collections which are made eight times a year in every market town in England.

Paine benti á að ef ríkið gæti sólundað háum fjárhæðum í styrjaldarbrölt á meginlandi Evrópu þá gæti það einnig borgað fyrir menntun og félagslega þjónustu handa almenningi. Þessi ummæli Paine gerðu það að verkum að hann var ákærður fyrir landráð og í 35 ár voru allir þeir sem seldu eða gáfu út Rights of Man ýmist fangelsaðir eða hraktir í útlegð.

Rétt áður en að réttarhöldunum kom var Paine hins vegar fenginn af yfirvöldum í Frakklandi til að taka þátt í að móta stjórnarskrá Frakklands. Paine flúði því til Frakklands og slapp þannig við réttarhöld þar sem hann hefði líklegast verið dæmdur sekur og verið tekinn af lífi. Um afrek Paine í Frakklandi verður hins vegar fjallað í næstu grein en þar átti hann eins og áður segir þátt í að móta stjórnarskrá landsins, lenti í fangelsi og skrifaði niður hugleiðingar sínar um trúmál í bókinni Age of Reason

Thomas Paine: 1. hluti2. hluti3. hluti4. hluti

Deildu