Pissað á staurinn

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

15/11/2000

15. 11. 2000

Flest okkar þekkja til þeirrar venju hundategundarinnar að merkja sér svæði með því að míga á þau. Þetta er hvimleiður andskoti en er óhjákvæmilegur hluti af mótun sjálfsmyndar hundarins og því neyðumst við til að umbera hundahlandsfnyk af hverjum póstkassa, hverju tréi og hverjum staur. Nú hafa íslenskir stjórnmálamenn tekið upp þennan leiða ósið. Ekki […]

Flest okkar þekkja til þeirrar venju hundategundarinnar að merkja sér svæði með því að míga á þau. Þetta er hvimleiður andskoti en er óhjákvæmilegur hluti af mótun sjálfsmyndar hundarins og því neyðumst við til að umbera hundahlandsfnyk af hverjum póstkassa, hverju tréi og hverjum staur.


Nú hafa íslenskir stjórnmálamenn tekið upp þennan leiða ósið. Ekki svo að skilja að forsvarsmenn stjórnmálaflokkana gangi um bæinn og kasti vatni á þau kennileiti sem eru þeim vel þóknanleg. Hundseðli stjórnmálamanna birtist fremur í þeirri áráttu þeirra að slá eign sinni á erlenda starfsbræður sína í þeirri veiku von að smitast óljósum dýrðarljóma þeirra og veita sér og flokki sínum meira lögmæti en fengist fyrir tilstilli þeirra sjálfra.

Þessi annarlegi ósiður er svo sem skiljanlegur þegar menn eru að bera sig saman við forsvarsmenn flokka sem eru yfirlýstir fulltrúar þeirra sjónarmiða, s.s. við evrópska flokka sem tilheyra sömu alþjóðasamtökum. En þó vill það brenna við að slíkur samanburður hljómar hjákátlega þegar menn segjast sækja stefnu sína í brunna tveggja stjórnmálamanna sem eru fulltrúar mjög ólíkra sjónarmiða innan sömu stefnunar.

Fáránleikinn afhjúpast fyrst fyrir alvöru þegar hinni gullnu bunu pólitísks eignarhalds er beint að stjórnmálamönnum í Bandaríkjunum. Þannig hafa frjálshyggjumenn reynt að merkja sér George W. Bush en líta þá framhjá því að Bush vill setja allskyns hömlur á það sem aðeins getur talist til einkalífs einstaklinga. Það er jafn fáránlegt þegar herstöðvarandstæðingar innan raða jafnaðarmanna reyna að samsvara sig Al Gore, þeim forsetaframbjóðanda Bandaríkjanna sem líklegri er til að halda úti öflugri starfsemi Nató.

Sjálfur hélt ég með Al Gore í nýafstöðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Það er ekki vegna þess að ég telji hugmyndafræði Gores endurspegla mína eigin heldur valdi ég að halda með honum eins og maður heldur með erlendu fótboltaliði. Það er spennandi keppni í gangi sem maður á enga beina hlutdeild að en það gerir hana meira spennandi að halda með einhverjum. Hvernig valið fer fram er bundið ýmsum þáttum og í sjálfu sér óútskýranlegt.

Hinsvegar getur maður vart varist þeirri hugsun að íslenskir stjórnmálamenn fari brátt að leita út fyrir vettvang stjórnmálanna eftir fyrirmyndum og skammt sé þess að bíða að formenn flokka segist sækja stefnur sínar til manna á borð við Alex Ferguson eða Arsene Wenger. Og hversvegna ekki. Báðum þessum mönnum vegnar vel og enska knattspyrnan svipar jafn mikið til íslenskra stjórnmála og þau hin bandarísku gera.

Deildu