Telur biskupinn að samkynhneigð sé synd?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

28/08/2013

28. 8. 2013

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, var í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Margar spurningar vöknuðu í huga mér. Ætlar biskup virkilega að taka þátt í Hátíð vonar með Franklin Graham? Telur biskup Íslands að samkynhneigð sé synd? Heldur biskup virkilega að Þjóðkirkjan hafi verið í fararbroddi í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks á Íslandi? […]

Alþingi og dómkirkjaAgnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, var í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Margar spurningar vöknuðu í huga mér.

Ætlar biskup virkilega að taka þátt í Hátíð vonar með Franklin Graham? Telur biskup Íslands að samkynhneigð sé synd? Heldur biskup virkilega að Þjóðkirkjan hafi verið í fararbroddi í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks á Íslandi? Var bara „kannski óheppilegt“ að auglýsa Hátið vonar rétt fyrir Gay Pride? Veit æðsti embættismaður Þjóðkirkjunnar ekki hvernig kirkjan er fjármögnuð?

1) Ætlar biskup virkilega að taka þátt í Hátíð vonar með Franklin Graham? Með manni sem er þekktur fyrir andúð sína á hinsegin fólki? Veit biskup virkilega ekkert fyrir hvað Franklin Graham stendur? Ætlar hún samt að halda ræðu með honum á Hátíð vonar um það sem „sameinar þau“?

„Aðkoma mín að hátíðinni er sú að ég er búin að ákveða að standa við loforð mitt sem ég gaf fyrir mörgum mánuðum og ávarpa samkomuna og ég ætla að leggja áherslu á það sem sameinar okkur, því það er líka þegar ég var krakki til dæmis þá var það ekki þannig að kristin samfélög væru að eiga samstarf þannig að þetta er líka mjög svo dýrmætt að við getum komið saman því svo sannarlega erum við ekki sammála um alla hluti í þessu samstarfi. En við erum þó sammála um eitt og stöndum á þeim sameiginlega grunni að við trúum öll á Jesú Krist. Krossfestan og upprisin eins og við segjum stundum.“

Ég hef ekki heyrt í þessum manni [Franklin Graham] og ég hef ekki rannsakað það sem er að baki. Ég hef ekki lagst í rannsóknir á hans skoðunum þannig ég veit það ekki. En ég geri fastlega ráð fyrir því að eftir mánuð að þá muni ég líta þennan mann augum og horfa á hann sem meðbróður minn en ekki andstæðing.“

Hvernig getur biskup tekið ákvörðun um þátttöku í hátíð með Franklin Graham þegar hún veit ekki, að eigin sögn, fyrir hvað maðurinn stendur?

2) Telur biskup Íslands að samkynhneigð sé synd?

Af svörum biskups að dæma er óljóst hvort hann telur að samkynhneigð sé synd.

„Já þar erum við kannski komin að öðru sjónarhorni á þetta mál mundi ég segja. Eitt er réttindabarátta og annað er það hvort við lítum á þetta sem synd eða ekki. Ég álít það að fólk fæðist svona. Við fæðumst með öllu sem við höfum og eigum og ég get ekki ímyndað mér að nokkur manneskja sé að gera sér það upp að vera öðruvísi en fjöldinn. Ég get ekki ímyndað mér það. Þess vegna hlýtur það að vera þannig að eitthvert fólk fæðist samkynhneigt rétt eins og fjöldinn fæðist gagnkynhneigður.“

„Þá getum við líka hugsað skiptir ekki meira máli að við öll hugsum um siðferðið hvort sem við erum samkynhneigð, gagnkynhneigð eða hinsegin fólk að einhverju leyti. Siðferðið skiptir mestu máli og við getum bara gagnkynhneigt fólk horft í eigin barm og spurt um okkar eigið siðferði.“

Biskup gerir sér grein fyrir að fólk fæðist samkynhneigt en ber um leið samkynhneigð saman við siðferði almennt og hvetur fólk til að líta í eigin barm. Er samkynhneigð þá ekki meiri synd en önnur, en engu að síður synd? Það væri áhugavert að fá skýrt svar. Telur biskup Þjóðkirkju Íslands að samkynhneigð sé synd? Já eða nei?

3) Heldur biskup virkilega að Þjóðkirkjan hafi verið í fararbroddi í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks á Íslandi?

Þjóðkirkjan hefur verið í fararbroddi af kirkjum heimsins og jafnvel líka hér á Íslandi af stofnunum þjóðfélagsins.

Þetta er auðvitað algjör þvæla og tilraun til sögufölsunar. Ennþá er það þannig að prestar Þjóðkirkjunnar ráða því sjálfir hvort þeir blessi sambönd hinsegin fólks og það er einföld staðreynd að hinsegin fólki er enn vísað frá kirkjunni (af sumum prestum vel að merkja). Að halda því fram að Þjóðkirkjan hafi verið í fararbroddi af stofnunum þjóðfélagsins þegar kemur að réttindum samkynhneigðra er því út í hött. Hið rétta er að kirkjan, sem stofnun, hefur í alltaf verið mörgum skrefum á eftir og er það enn.


4) Var bara „kannski óheppilegt“ að auglýsa Hátið vonar rétt fyrir Gay Pride?

„Þetta sem var sett inn og kallað auglýsing, það var fréttatilkynning sem barst frá framkvæmdastjóra Hátíðar vonar sem bað vefstjórann okkar að setja þetta inn á vefinn kirkjan.is og hann gerði það bara. Setti þetta inn og það var hugsunarleysi kannski að setja þetta akkúrat á þessum tíma. Það var ekkert úthugsað. Það bara varð svona. Við erum að birta á kirkjan.is ýmsar tilkynningar og ýmsar fréttir sem tengjast kirkjulegu starfi. Þetta er ein af þeim og hún lenti þarna inn og það má kannski segja að það hafi verið óheppilegt en hins vegar leggjum við áherslu á það og stöndum við það hér eftir sem hingað til.“

Hefði semsagt verið í góðu lagi að auglýsa þennan viðburð með Graham á öðrum tímum? Var tímasetningin bara almannatengslaklúður? Þjóðkirkjunni finnst semsagt í lagi að auglýsa atburð með Graham en það var „hugsunarleysi kannski“ setja auglýsinguna inn á þessum tímapunkti? Hver er eiginlega afstaða Þjóðkrikjunnar til þessa manns? (Biskupinn getur ekki svarað því enda hefur ekkert heyrt í þessum manni sem hún kallar meðbróðir sinn)

5) Veit æðsti embættismaður Þjóðkirkjunnar ekki hvernig kirkjan er fjármögnuð?

„Það er þannig að Þjóðkirkjan og ríkið gerðu samning með sér 1997 og sá samningur hefur verið skorinn niður til samræmis við annan niðurskurð í þjóðfélaginu undanfarin ár og mér skilst á fréttum að svo verði áfram, það verði einhver niðurskurður. Allaveganna ekki hækkanir.“

Samningur Þjóðkirkjunnar og ríkisins um afhendingu kirkjuarða er byggður á sandi. Um er að ræða gjörning sem varla er hægt að réttlæta og ég er ekki viss um að hann standist lög. Eins og ég hef fjallað um áður þá veit í fyrsta lagi enginn nákvæmlega hvaða jarðir voru afhentar við undirritun samningsins. Í öðru lagi virðist enginn vita hvert vermæti jarðanna var. Í þriðja lagi finnast ekki afsöl yfir þær jarðir sem ríkið tók yfir. Í fjórða lagi tryggir samningurinn launagreiðslur til Þjókirkjunnar endalaust! Hið opinbera verður aldrei búið að greiða upp þessar jarðir. Aldrei.

„Hins vegar eru sóknargjöldin sem ríkið tók að sér árið 1987 að innheimta, og jafnvel aðeins fyrr en lögin eru frá 87, fyrir öll trúfélög í landinu og núna fyrir lífsskoðunarfélög eftir samþykkt frumvarpsins sem varð að lögum núna í vor um lífsskoðanafélög og trúfélög. Og þar hefur verið skorið meira niður vegna þess að þetta eru félagsgjöld sem ríkið tók að sér að innheimta og skila til trúfélaganna og lífsskoðunarfélaganna og það hefur ekki skilað sér að fullu. Sá niðurskurður er 25% meiri en annar niðurskurður í þjóðfélaginu.“

Útvarpsmaður spyr hvert þessi mismunur fari:

Hann fer bara í ríkissjóð. Við borgum ákveðna upphæð á mánuði í trúfélagsgjöld. Semsagt félagsgjöld í okkar söfnuð og ríkið tekur af þeim félagsgjöldum. Klípur af þeim og við fáum restina.“

Biskup ætti að vita að þetta er rangt. Fólk borgar ekki neina upphæð á mánuði í „félagsgjöld“ sem ríkið klípur svo af. Sóknargjöld eru greidd beint úr ríkissjóði til skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Þetta er ríkisstyrkur, ekki félagsgjöld sem Þjóðkirkjan ákveður. Þeir sem standa utan slíkra trú- og lífsskoðunarfélaga fá engan slíkan styrk eða skattaafslátt. Fólk sem segir sig úr Þjóðkirkjunni fær ekki „félagsgjöldin“ sín endurgreidd. Þetta á biskupinn að vita.

Áhugasamir geta hlustað á viðtalið við biskup hér:

Morgunútvarp Rásar 2 – 28.8.2013

 

Deildu