Jólin: Þegar ljósið sigrar myrkrið

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

20/12/2010

20. 12. 2010

Stysti dagur ársins er 21. desember þetta árið. Í kjölfarið fæðist ný sól þegar dag tekur að lengja á ný. Fæðingu sólarinnar er fagnað víðs vegar um heim nú sem áður enda tilefnið ærið. Sólin, lífsgjafi Jarðarinnar, hefur sigrað myrkrið enn á ný. Þess vegna hafa menn haldið jól og aðrar hátíðir á þessum tíma […]

Stysti dagur ársins er 21. desember þetta árið. Í kjölfarið fæðist ný sól þegar dag tekur að lengja á ný. Fæðingu sólarinnar er fagnað víðs vegar um heim nú sem áður enda tilefnið ærið. Sólin, lífsgjafi Jarðarinnar, hefur sigrað myrkrið enn á ný. Þess vegna hafa menn haldið jól og aðrar hátíðir á þessum tíma í mörg hundruð ár. Upp á síðkastið (í sögulegu samhengi) tóku kristnir upp á því að halda jól líka og fagna með okkur hinum. Það besta við jólahátíðina er að hún er í eðli sínu sammannleg hátíð. Það skiptir engu máli hvaða trúarskoðanir fólk hefur. Ljósið sigrar alltaf myrkrið um jólin og yfir því geta allir glaðst.

Gleðileg jól!

Hér fyrir neðan er hægt að lesa ítarlegri umfjöllun mína um uppruna jólanna. Greinin var skrifuð í fyrra.

Jólin og fæðing hinnar ósigruðu sólar

Dagurinn í dag er níu sekúndum lengri en gærdagurinn, sem var stysti dagur ársins. Er það mikið fagnaðarefni og í raun helsta ástæðan fyrir því að haldið er upp á jól. Það er í það minnsta uppruni jólahátíðarinnar. Flestir halda að jólahátíðin eigi rætur í kristinni trú en það ekki allskostar rétt. Jólin er heiðin sólarhátíð sem kristnir menn breyttu síðar í kristilega hátíð. Til forna fögnuði menn og konur „fæðingu hinnar ósigruðu sólar“. Þessi hátíðarhöld breyttust svo smá saman í hátíð í tilefni „fæðingu hins ósigraða sonar“.  (Sjá nánar: Fæðingu sólarinnar fagnað, þar sem fjallað er um fornar heiðnar hátíðir sem flestar voru haldnar í tengslum við sólina og sólguði).

Jólin nýlega kristileg hátíð
Í raun urðu jólin kristileg hátíð frekar seint. Frumkristnir menn fögnuðu alls ekki jólunum, eða fæðingu frelsarans. Þvert á móti töluðu helstu kirkjufeðurnir mjög gegn slíkum hátíðum. Tertullian (kirkjufaðir, lést 220) fjallar ekki um jól (eða 25. desember) sem kristna hátíð og árið 245 segir guðfræðingurinn Origen frá Alexandríu að aðeins syndugir menn fagni afmælum eða fæðingardögum. Fjölmargir áhrifamenn innan kristinnar trúar á þessum tíma gera enn fremur lítið úr trúarbrögðum þar sem fæðingu hina ýmissa guða er fagnað með sérstakri hátíð.  Einstaka heimildir eru til um kristnar jólahátíðir í gegnum tíðina en það var ekki fyrr en undir lok miðalda sem jólin urðu að útbreiddri hátíð, og þá í allt annarri mynd en við þekkjum nú.

Jólin bönnuð
Hreintrúaðir voru lengi vel almennt á móti jólahátíðinni þar sem um var að ræða heiðna hátíð sem hafði ekkert með Jesú Krist að gera (sjá nánar: Fæðingu sólarinnar fagnað). Þannig var bannað að halda jólin víðs vegar, t.d. í Boston í Bandaríkjunum frá 1659 til 1681. Enn í dag eru fjölmargir trúarhópar á móti jólunum (t.d. Vottar Jehóva) af sömu ástæðum.

Hækkandi sól boðar bjartari daga og nýtt líf
Hátíðarhöld í kringum hækkandi sól eru skiljanleg og í raun eðlileg. Líf og afkoma manna snérist, og snýst enn, um árstíðirnar. Lækkandi sól boðar nótt, kulda, dvala og dauða á meðan hækkandi sól boðar bjartari daga, hlýju, grósku náttúrunnar og nýtt líf.

Með þetta í huga óska ég öllum lesendum gleðilegra jóla!

Deildu

Facebook athugasemdir