Heimspeki á að vera skyldufag í skólum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

17/12/2010

17. 12. 2010

Tveir þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla. Segir í tillögunni: „Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að breyta aðalnámskrám grunnskóla og framhaldsskóla þannig að heimspeki verði skyldufag. Kenndur verði að meðaltali einn áfangi á hverjum tveimur árum á grunnskólastigi og að meðaltali einn áfangi á hverju […]

Tveir þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla. Segir í tillögunni:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að breyta aðalnámskrám grunnskóla og framhaldsskóla þannig að heimspeki verði skyldufag. Kenndur verði að meðaltali einn áfangi á hverjum tveimur árum á grunnskólastigi og að meðaltali einn áfangi á hverju skólaári á framhaldsskólastigi.“

Þetta er góð tillaga sem ég vona að sem flestir styðji. Ég hef í mörg ár talað um nauðsyn þess að kenna heimspeki í skólum. Gaman er að geta þess að þriðja greinin sem var birt á vefritinu Skoðun fjallaði einmitt um þetta. Greinin var birt í júní 1999. Þar segi ég meðal annars:

„Í því samfélagi sem við búum við í dag þar sem auglýsingar, áróður, freistingar og upplýsingar eru alls staðar í kringum okkur, hvort sem við viljum það eða ekki, er líklega ekkert mikilvægara einstaklingnum en sjálfstæð og gagnrýnin hugsun. Miðlægar menntastofnanir geta aldrei miðlað til nemenda sinna öllum þeim mikilvægu upplýsingum sem þeir þurfa á að halda. Góð menntun er hins vegar sú sem hjálpar nemendum að vinna úr öllum þeim áreitum sem þeir verða fyrir á degi hverjum.

Undirritaður leggur því til að heimspeki verði lögð til grundvallar íslensku menntakerfi. Með heimspeki á ég við skipulagða kennslu í rökfræði, tjáningu og siðfræði. Slík menntun er raunhæft móteitur gegn áhugaleysi, vanlíðan og öðrum félagslegum vandamálum óhugnanlega margra ungra einstaklinga. Menntun sem mótar rökfasta einstaklinga er, augljóslega, einnig mikilvæg vítamínsprauta fyrir hvert það lýðræðissamfélag þar sem fordómaleysi og velmegun vill ríkja.“

Deildu