Forseti Gídeonfélagsins berst gegn öfgatrúleysinu

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

17/12/2010

17. 12. 2010

Fjalar Freyr Einarsson, forseti Gídeonfélagsins, skrifar grein í Fréttablaðið í gær um þá tillögu Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar að settar verði reglur um trúboð og trúariðkun í opinberum skólum. Fjalar Freyr skrifar undir greinina sem kennari en minnist ekki á það einu orði að hann er forseti Gídeonfélagsins. Hann minnist heldur ekki á það að hann hefur […]

Fjalar Freyr Einarsson, forseti Gídeonfélagsins, skrifar grein í Fréttablaðið í gær um þá tillögu Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar að settar verði reglur um trúboð og trúariðkun í opinberum skólum. Fjalar Freyr skrifar undir greinina sem kennari en minnist ekki á það einu orði að hann er forseti Gídeonfélagsins. Hann minnist heldur ekki á það að hann hefur áður skrifað greinar þar sem hann hefur verið með hrein ósannindi um Siðmennt og aðra „öfgatrúleysingja“. Hann gleymir líka að segja okkur frá því að hann hefur óskað eftir því að Fréttablaðið, sem birtir grein hans, ritskoði greinar frá húmanistum og birti þær alls ekki.

Tourette og trúleysi
Grunnskólakennarinn Fjalar Freyr er þeirrar skoðunar að trúarlegt starf eigi vel heima í skólum og telur í góðu lagi börn með önnur lífsgildi séu einfaldlega send í aðrar kennslustofur á meðan trúboð í boði hins opinbera á sér stað. Grunar mig að Fjalar Freyr, forseti Gídeonfélagsins, sé honum sammála.

Bendir Fjalar Freyr á að svona þurfi að fara með aðra nemendur. Til dæmis þá sem eru með eru með röskun á einhverfurófi, með tourette og þá sem eru á lyfjum. Það sem Fjalar er í raun að segja er að þau börn sem ekki eru alin upp í Þjóðkirkjukristni séu eins og börn með raskanir sem trufla skólatíma. Þau þarf að færa eitthvað annað svo öll hin börnin geti áfram fengið sitt trúboð og sinn harða pakka frá Gídeonfélaginu.  Svo þarf kennarinn að útskýra „sérstækar aðstæður“ þeirra nemenda sem eru með trúleysisröskunina svo þeir verði nú ekki fyrir fordómum.

Bendir Gídeonforsetinn (eða var það grunnskólakennarinn?) á að með því að setja reglur um trúboð og trúariðkun í skólum sé verið að fara gamaldags og úrelta leið. Leið sem minnir hann á þegar þroskaheftir voru lokaðir inn á „sér stofnun svo hinir „heilbrigðu“ þurfi ekki að sjá þá í stað þess að leyfa fjölbreytileika manna að vera á yfirborðinu“. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á samlíkingunni. Er Þjóðkirkjan hér hinn þroskahefti og tillögur Mannréttindaráðs stofnunin?

Tillaga Mannréttindaráðs misskilin
Augljóst er að Fjalar Freyr skilur ekki hvert markmiðið er með tillögu Mannréttindaráðs. Heldur hann að með því að setja skýrar reglur um trúboð og trúariðkun í opinberum skólum sé verið að hafa lífsgildi „öfga trúleysishópa“ að leiðarljósi. Bendir hann, réttilega, á að skólinn þurfi að virða lífsgildi allra jafnt.  Því telur hann, ranglega, að það þurfi líka að banna jól og afmæli til að bera virðingu fyrir Vottum Jehóva. Svo verði að banna fræðslu um kynlíf og notkun smokka því slík fræðsla „fer gegn lífsskoðunum kaþólikka.“ Að auki þurfi þá líka að banna fræðslu um samkynhneigð og kennslu um Þróunarkenningu Darwins því slík fræðsla fer gegn „trúarskoðunum strangtrúaðra“.

Fræðslustofnun ekki málfundarfélag
Það sem Fjalar Freyr áttar sig ekki á er að tillaga Mannréttindaráðs hefur ekkert að gera með lífsgildi húmanista, hvað þá lífsgildi trúleysingja sem ekki er til*. Tillagan fjallar um jafnrétti og þá einföldu staðreynd að opinberir skólar eiga að vera fræðslustofnanir en ekki einhver málfundafélög fyrir hagsmunahópa.

Þar sem skólinn er fræðslustofnun á þar að fara fram fræðsla byggð á vísindum og annarri áreiðanlegri þekkingu sem á uppruna sinn úr fræðasamfélaginu, rannsóknum, ritrýndum kennslugögnum og svo framvegis. Þaðan kemur Þróunarkenning Darwins og þaðan koma einnig rökin fyrir fræðslu um kynlíf og getnaðarvarnir.

Aðrar skoðanir sem Fjalar Freyr nefnir eru trúarskoðanir sem hafa ekkert með fræðslu og þekkingu að gera og eiga því ekki heima í skólastarfi. Þetta hlýtur kennarinn Fjalar Freyr að átta sig á.

Eðlilegt  er a fjallað sé um trúarbrögð og lífsgildi ólíkra trúfélaga en það verður að gera á fræðilegum grundvelli.

Trúarlegur áróður um að þróunarkenningin sé komin frá djöflinum og að samkynhneigðir brenni í helvíti á ekki heima í opinberum fræðslustofnunum.

*Trúleysingjar hafa engin sérstök lífsgildi. Það að segja að einhver sé trúleysingi segir bara að hann trúir ekki á Guð. Ekkert annað.
Deildu