Endurbætt tillaga um reglur gegn trúboði og trúariðkun í opinberum skólum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

03/11/2010

3. 11. 2010

Mannréttindaráð Reykjavíkur lagði í dag fram endurbætta tillögu að reglum sem eiga að koma í veg fyrir trúboð og trúariðkun í opinberum skólum. Tillagan er birt í heild sinni hér fyrir neðan. Mér sýnist á öllu að þetta séu mjög góðar endurbætur. Ég skora á fólk að gagnrýna tillöguna málefnalega. Ég trúi því ekki að […]

Mannréttindaráð Reykjavíkur lagði í dag fram endurbætta tillögu að reglum sem eiga að koma í veg fyrir trúboð og trúariðkun í opinberum skólum. Tillagan er birt í heild sinni hér fyrir neðan. Mér sýnist á öllu að þetta séu mjög góðar endurbætur. Ég skora á fólk að gagnrýna tillöguna málefnalega. Ég trúi því ekki að margir Íslendingar séu á móti þessari tillögu. Hvet fólk til að skilja eftir málefnalega gagnrýni hér í athugasemdum.  Afar mikilvægt er að lesa tillöguna fyrst en koma síðan með málefnalegar athugasemdir.

____________________

 

Skólastarf í Reykjavík og trúar- og lífsskoðunarmál

Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar var samþykkt árið 2006. Hún kveður á um að íbúum verði ekki mismunað á forsendum kyns, efnahagsstöðu, uppruna, fötlunar, aldurs eða stjórnmálaskoðana. Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að framförum á sviði mannréttinda hjá borginni og hefur verulegur árangur náðst í auknu kynjajafnrétti, í réttindum samkynhneigðra og málefnum innflytjenda. Mannréttindastefnan kveður einnig á um að ekki skuli mismuna borgarbúum eftir lífs- og trúarskoðunum þeirra.

 

Árið 2007 kom út skýrsla Leikskóla- og Menntasviðs Reykjavíkur um samstarf kirkju og skóla. Í hópi skýrsluhöfunda voru fulltrúar frá öllum hlutaðeigandi aðilum; skólastofnunum borgarinnar, Biskupsstofu og Alþjóðahúsi. Ein af megin niðurstöðum hópsins var sú að móta þyrfti skýrar starfsreglur um samskipti trúar- og lífsskoðunarhópa og skóla Reykjavíkurborgar.

 

Mannréttindaráð Reykjavíkur leggur því til að eftirfarandi reglur gildi um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög:

a) Hlutverk skóla borgarinnar er að fræða nemendur um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámskrá og námsefni. Bænahald og aðrar trúariðkanir með börnum eru hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk borgarstarfsmanna.

b) Trúar- og lífsskoðunarfélög skulu ekki stunda starfsemi innan veggja frístundaheimila, leik- og grunnskóla borgarinnar á skólatíma. Þetta á við allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi, skemmtidagskrár eða aðrar kynningar tengdar starfi þeirra, sem og dreifingu á boðandi efni. (Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripum, fjölfölduðum trúar- og lífsskoðunarritum, bókum, auglýsingum, hljóðritum, prentmyndum og kvikmyndum.)

c) Skólastjórnendur grunnskóla geta boðið fulltrúum trúar- eða lífsskoðunarhópa að heimsækja kennslustundir í trúarbragðafræði sem lið í fræðslu um trú og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámsskrá og námsefni, og skal heimsóknin þá fara fram undir handleiðslu kennara og vera innan ramma námsefnisins.

d) Heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma skulu fyrst hefjast á grunnskólastigi og eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir og samkvæmt gildandi aðalnámsskrá og námsefni. Fræðsla leikskólabarna um kristilegt siðferði og aðrar lífsskoðanir skal fara fram innan veggja leikskólans og vera á hendi leikskólakennara.

e) Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni.

f) Samþætting húsnæðis og starfsemi stofnana sem vinna með börn á vegum Reykjavíkurborgar við starfsemi trúar- og lífsskoðunarfélaga eigi sér ekki stað á skólatíma.

g) Skólayfirvöld beini því til trúar- og lífsskoðunarfélaga að þau skipuleggi fermingarfræðslu og barnastarf með það að leiðarljósi að það hvorki trufli lögbundið skólastarf um skemmri eða lengri tíma né leiði til mismununar nemenda utan tiltekinna trúar- og lífsskoðunarfélaga.

h) Þær stofnanir borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð tryggi að fagaðilar óbundnir trúar- og lífskoðunarfélögum komi að sálrænum áföllum. Ef sérstakar aðstæður kalla á aðkomu fagaðila frá trúar- eða lífskoðunarfélagi skal það gert að höfðu samráði skólayfirvalda við foreldra þeirra nemenda sem áfallahjálparinnar njóta og á ábyrgð viðkomandi. Helgistundir sem tengjast viðbrögðum við áfalli skulu fara fram utan skólatíma.

i) Sígildir söngvar, dansar, leikir og handíðir sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum og frídögum þjóðarinnar halda sínum sess í árstíðabundnum skemmtunum og starfi frístundaheimila, leik- og grunnskóla.

 

Til grundvallar þessum reglum liggur sá vilji Mannréttindaráðs að tryggja rétt barna til þátttöku í skólastarfi óháð þeirri trúar- og lífsskoðun sem þau alast upp við.

 

Upplýst fræðsla um kristna trú, trúarbrögð heimsins, lífsskoðanir, siðfræði, heimspeki og íslenska menningu, er mikilvæg í öllu starfi skóla borgarinnar. Trúarleg innræting og boðun tiltekinna lífsskoðana á þar ekki heima. Það er á hendi foreldra að ala börn sín upp í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa.

 

Um það munu starfsmenn Reykjavíkur standa vörð samkvæmt mannréttindastefnu borgarinnar og þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist.

____________________

Sjá einnig:
Þjóðkirkjan er á móti því að banna ekki-trúboð í opinberum skólum
Ísland í bítið fjallar um trúboð í skólum – opið bréf
Fyrirsjáanleg og afhjúpandi umræða um trúboð í skólum

Deildu