Ísland í bítið fjallar um trúboð í skólum – opið bréf

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

20/10/2010

20. 10. 2010

Góðan dag morgunhanar í Íslandi í bítið á Bylgjunni (Heimir, Kolbrún og Þráinn), Ég vil byrja á því að þakka ykkur fyrir oft góðan þátt. Ég á þó til með að gagnrýna ófaglega og hlutdræga umfjöllun ykkar um tillögu Mannréttindaráðs þess efnis að trúboð og trúariðkun fari ekki fram í opinberum skólum. Í þætti ykkar […]

Góðan dag morgunhanar í Íslandi í bítið á Bylgjunni (Heimir, Kolbrún og Þráinn),

Ég vil byrja á því að þakka ykkur fyrir oft góðan þátt. Ég á þó til með að gagnrýna ófaglega og hlutdræga umfjöllun ykkar um tillögu Mannréttindaráðs þess efnis að trúboð og trúariðkun fari ekki fram í opinberum skólum. Í þætti ykkar í gær fjölluðuð þið ekki um málið með hlutlausum hætti. Ég gat ekki betur heyrt en að þið hafið  nánast þvingað hlustendur ykkar til að taka ákveðna afstöðu með því að afbaka rök þeirra sem vilja trúboð úr opinberum skólum.

Rök eins og við erum kristin þjóð, mikil meirihluti er kristinn, trúboð skaðar engan,  aðeins fámennur flokkur er á móti, nú á að banna jólin og banna að skreyta páskaegg í skólum halda engu vatni.  En þetta mynduð þið vita ef þið hefðu í raun kynnt ykkur málflutning þeirra sem vilja að skólinn sé veraldlegur.

Þar sem þið vísið oft, beint eða óbeint, til Siðmenntar í umfjöllun ykkar má kannski benda ykkur á að lesa raunverulega stefnu félagsins í þessum málum?

„Eins og hefur komið fram margoft í málflutningi Siðmenntar er félagið alls ekki á móti fræðslu um trúarbrögð. Siðmennt telur enn fremur eðlilegt að sértök áhersla sé lögð á fræðslu um kristin trúarbrögð vegna sögulegrar tengsla við íslenska þjóð. Þar að auki hefur félagið ekkert á móti því að haldið sé upp á jól eða aðrar hátíðir í skólum svo lengi sem slíkar hátíðir eru lausar við trúboð (fullyrðingar um annað í fjölmiðlum eru rangar). Það er vitaskuld ekkert að því að skreyta jólatré, gefa gjafir, teikna jólasveina og borða kökur. Við teljum þó óviðeigandi að börn séu látin fara með bænir eða trúarjátningar í opinberum stofnunum. Foreldrar eru fullfærir um að innræta börnum trúarskoðanir kjósi þeir það.“
Sjá nánar: Siðmennt er EKKI á móti litlu jólum eða kristinfræðslu

Vafasamt að húmanistar fjalli um jafnan rétt lífsskoðanafélaga?
Svo var sérstakt að hlusta á ykkur gefa í skyn að tillaga Mannréttindaráðs væri eitthvað vafasöm þar sem félagi í Siðmennt sæti í ráðinu.

Þráinn: „Eitt sem mér dettur í hug. Hvaðan kemur þessi tillaga núna? Af hverju er þetta að poppa upp núna?
Kolbrún: „Ég held að það sé einn einstaklingur í þessu ráði sem sitji í Siðmennt.“

Ekki var þó minnst á þá sem hafa haft hvað mest afskipti af þessari umræðu. Þ.á.m.  Bjarna Karlsson sem starfar sem sóknarprestur í Þjóðkirkjunni.

Kannski mega húmanistar ekki fjalla um jafnrétti lífsskoðana, fatlaðir um réttindi fatlaðra, samkynhneigðir um borgaraleg réttindi sín eða konur um jafnrétti kynjanna?

Í gagnrýni sinni kom tæknimaður ykkar, óvart, með ágætis rök:

Þráinn: „Hvað ef það hefði verið einn gyðingur í þessu mannréttindaráði og haft sömu áhrif og komið þeim áfram. Komið öllum gyðingafrídögum inn í leiksskólastarfið. Þá væri frí nánast hálft árið vegna þess að það eru svo margir frídagar hjá gyðingum, og reynt að koma öðrum trúaráhrifum að, frekar en að taka trúna burtu, skilurðu“

Þetta er einmitt hluti vandans. Það er óeðlilegt, í frjálsu lýðræðissamfélagi, að ein kirkjudeild hafi sérstakan aðgang að börnum í opinberum skólum. Því hafa ýmsir lagt til að opinberir skólar hleypi öllum að og skólinn bjóði fulltrúum allra í boðunarheimsóknir. Orð Þráins sína fram á í hvaða ógöngur slík aðferð myndi leiða okkur.

Annars er tengingin við stefnu Siðmenntar augljóslega röng. Siðmennt  berst ekki og hefur aldrei barist fyrir því að vera með húmanískan áróður í skólum eða fyrir sérstökum frídögum húmanista. Siðmennt hefur ávallt barist fyrir jafnrétti. Aftur á móti er Þjóðkirkjan ekki að berjast fyrir jafnrétti í þessu máli heldur sérréttindum fyrir sinn hóp í nafni meirihluta á kostnað minnihluta. Í þessum málum reynir Þjóðkirkjan ekki að setja sig í spor annarra eða fara eftir Gullnu reglunni.

Á að kjósa um trúboð í opinberum skólum?
Heimir telur greinilega eðlilegt að það sé kosið um trúboð í skólum.
Heimir: „Spyrjum fólkið í landinu!“

Þegar kemur að mannréttindum og jafnrétti er öll umræða um meirihluta og minnihluta afar vafasöm. Þannig er ég ekki hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju af því að meirihluti Íslendinga hefur verið fylgjandi aðskilnaði frá því mælingar hófust. Þar rista réttlætis- og mannréttindarök dýpra.

Eiga samkynhneigðir einungis að hafa sömu lagalegu stöðu og gagnkynhneigðir ef meirihluti landsmanna er þeirrar skoðunar? Ef meirihluti landsmanna vill banna múslimum að iðka sína trú á Íslandi er það þá í lagi? Ef meirihluti landsmanna vill að sköpunarsagan verði kennd sem vísindakenning í skólum á þá að gera það? (eins og krafa er um t.d. í Bandaríkjunum).  Lög , reglur og þá sérstaklega stjórnarskrár ríkja eru einmitt smíðaðar til að taka á slíkum málum. Til að tryggja grundvallarréttindi óháð því hvað meirihlutanum hverju sinni finnst.

Á að allt að vera leyfilegt sem ekki er beinlínis skaðlegt?
Ég verð líka að fá að minnast á þau rök að trúboð eins trúfélags í opinberum skólum sé í góðu lagi af því það skaðast enginn á slíkum áróðri.

Þráinn:
„Ég held að [börnin] komi ekkert verri frá leikskólunum eða grunnskólunum þó að þetta sé eins og þetta er.“

Hér fer það algerlega eftir því hvernig við skilgreinum  það að verða fyrir skaða. Auðvitað deyr enginn eða fær líkamlega áverka við það að verða fyrir trúboði.  Enda er enginn að tala um það. Trúboð í skólum getur þó ýtt undir einelti, vanlíðan barna og foreldra og óþarfa árekstra í opinberu skólastarfi.

Ég  hvet ykkur eindregið til að hlusta á frábæra ræðu Jóhanns Björnssonar, heimspekings og kennara, þar sem hann fjallar um skaðsemisrökin:

Ræða Jóhanns: Er allt leyfilegt sem ekki er beinlínis skaðlegt?
1. hluti: http://www.youtube.com/watch?v=N_jKQ9Ulfpc
2. hluti: http://www.youtube.com/watch?v=Ej8HPjKftHQ

Trúaruppeldi er mál foreldranna
Svo vil ég fá að benda ykkur á grein sem ég skrifaði um málið í gær. En niðurlag hennar er kannski í huga ykkar ansi róttækt:

„Ákvörðun um trúaruppeldi barna á að taka inn á heimilum, ekki inní ráðhúsi, ekki í hverfum, ekki af skólastjórnendum og ekki af kennurum. Foreldrar eiga að ráða því sjálfir hvort og þá hvaða trúaruppeldi sín börn fá.“
Sjá nánar: Þjóðkirkjan er á móti því að banna ekki-trúboð í opinberum skólum

Bestu kveðjur
Sigurður Hólm Gunnarsson
Stjórnarmaður í Siðmennt

Siðmennt er EKKI á móti litlu jólum eða kristinfræðslu

Deildu