Fyrirsjáanleg og afhjúpandi umræða um trúboð í skólum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/10/2010

25. 10. 2010

Hún hefur verið í senn fyrirsjáanleg og afhjúpandi umræðan síðustu daga um þá tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkur að banna trúboð og trúariðkun í opinberum skólum.  Fyrirsjáanleg að því leyti að rétt eins og áður virðast starfsmenn kirkjunnar, og í sumum tilfellum fjölmiðlamenn, algerlega ófærir um að ræða málefnalega um trúboð og trúariðkun í skólum. Í stað […]

Hún hefur verið í senn fyrirsjáanleg og afhjúpandi umræðan síðustu daga um þá tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkur að banna trúboð og trúariðkun í opinberum skólum.  Fyrirsjáanleg að því leyti að rétt eins og áður virðast starfsmenn kirkjunnar, og í sumum tilfellum fjölmiðlamenn, algerlega ófærir um að ræða málefnalega um trúboð og trúariðkun í skólum. Í stað þess að segja satt og rétt frá tillögu mannréttindaráðs eru beinlínis logið upp á stuðningsmenn tillögunnar og þeir sakaðir um að vilja banna litlu jólin, um að vera á móti kristinfræðikennslu og þeir um leið vændir um að vilja banna umræðu um sjálfsögð siðferðileg gildi eins og vináttu, umhyggju og náungakærleik.

Umræðan hefur ekki verið síður afhjúpandi. Ljóst er af viðbrögðum kirkjunnar að hún er í mikilli varnarbaráttu fyrir sérhagsmunum. Um leið fjalla talsmenn kirkjunnar ekki um málið með réttlæti og umburðarlyndi að leiðarljósi. Biskup og prestar hika ekki við að fara með ósannindi og þar að auki má skynja töluverða reiði og fordóma gagnvart þeim sem tilheyra ekki kirkju Krists. Ósannindin og fordómarnir eru særandi og ekki til þess fallnir að ýta undir vinsamlegt og yfirvegað samtal ólíkra hópa Íslendinga.

Viðbrögð kirkjunnar særa réttlætiskennd mína. Þjónar kirkjunnar eru ríkisstarfsmenn (fá laun sín greidd frá ríkinu) og kirkja þeirra kennir sig við þjóðina. Úr þessari valdastöðu hrópa kirkjunnar menn ósannindi og breiða út fordóma gagnvart okkur sem stöndum utan trúfélaga og lítið sem maður getur gert í því nema skrifað greinar sjálfum sér til varnar.

Kjarni málsins – ekkert trúboð og engin trúariðkun í opinberum skólum
Tillaga mannréttindaráðs er afskaplega einföld og byggir á trúfrelsis- og jafnréttissjónarmiðum. Kjarni tillögunnar er þessi: Ekki skal stunda trúboð eða trúariðkun í opinberum skólum. Flóknara er það ekki.  Flutningsmenn hafa þar að auki útskýrt nokkuð vel hvað átt er við. Sem dæmi:

  • Fermingarfræðsla Þjóðkirkjunnar og annarra trú- eða lífsskoðunarfélaga skal fara fram utan skólatíma.
  • Ekki verður leyfilegt fyrir starfsmenn trúar- og lífsskoðanafélaga að dreifa trúarritum eða öðru áróðursefni í opinberum skólum.
  • Tekið er fyrir ferðir í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga, bænahald, sálmasöng og listsköpun í trúarlegum tilgangi. (Sérstaklega er tekið fram að ekki er verið að hrófla við venjulegum jólaundirbúningi í skólum. M.ö.o. er alls ekki verið að banna litlu jólin.)
  • Tryggt sé að fagaðilar séu til staðar skólum þegar kemur að sálrænum áföllum í stað þess að það sé leitað til trúar- eða lífsskoðunarfélaga.

Markmiðið með tillögunni er að tryggja rétt foreldra til að ala börn sín í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa og tryggja þar með trúfrelsi þeirra.

Þetta er kjarni tillögu mannréttindaráðs. Um þennan kjarna er þó lítið sem ekkert fjallað um.

Umræðan afvegaleidd
Í staðinn fyrir að ræða tillögu mannréttindaráðs hafa viðbrögð kirkjunnar verið ofsafengin, óréttlát og ósanngjörn. Þeir sem hafa tjáð sig hvað hæst eru allir starfsmenn Þjóðkirkjunnar. Vil ég nú kynna háværustu raddirnar til leiks: Halldór Reynisson fræðslustjóri á biskupsstofu, Bjarni Karlsson prestur, Þórhallur Heimisson prestur, Örn Bárður Jónsson prestur og Karl Sigurbjörnsson biskup yfir Þjóðkirkju Íslands.

Þessir menn hafa allir sem einn tjáð sig um tillögu mannréttindaráðs með ósanngjörnum hætti. Því miður hafa persónulegar árásir, ósannindi og fordómar einkennt málflutning þeirra. Mér þykir leiðinlegt að segja þetta því ég hef haft töluvert álit á sumum þessara manna. Menn sem ég hélt að væru baráttumenn fyrir réttlæti í samfélaginu afhjúpa sig sem varðhundar Þjóðkirkjustofnunar og beita öllum vopnum til að verja hana. Tökum nokkur dæmi.

Halldór Reynisson – fræðslustjóri á biskupsstofu
Fyrstu, og mér vitanlega einu, viðbrögð Halldórs Reynissonar fræðslustjóra á biskupsstofu við tillögu mannréttindaráðs voru þau að fullyrða í fréttum að ekkert trúboð og engin trúariðkun ætti sér stað í skólum. Þessa yfirlýsingu gefur hann þrátt fyrir að hann hafi margoft áður heyrt kvartanir um að einmitt slíkt trúboð eigi sér stað. Ég saka hann hér því um að segja ósatt. Um leið velti ég því fyrir mér hvers vegna hann er á móti tillögum mannréttindaráðs. Skiptir það kirkjuna einhverju máli að setja reglur um trúboð og trúariðkun ef hvorugt á sér stað í opinberum skólum? Augljóslega talar Halldór hér gegn betri vitund í þeim eina tilgangi að verja stöðu Þjóðkirkjunnar.

Bjarni Karlsson – prestur
Rétt eins og Halldór tjáði Bjarni Karlsson prestur sig um tillögu mannréttindaráðs áður en tillagan var gerð opinber. Þetta gerði hann meðal annars með langri grein á vefsíðu sinni þar sem hann leggur að jöfnu starfsemi trúfélaga og íþróttafélaga. Ef banna eigi trúboð í skólum hljóti einnig að þurfa að banna starfsemi íþróttafélaga. Fyrir utan það hversu augljóslega þessi samlíking er óviðeigandi þá gefur Bjarni í skyn að skólahald falli reglulega niður vegna starfsemi íþróttahreyfinga. Þessi fullyrðing Bjarna hefur reyndar verið dregin í efa.

Bjarni hefur jafnframt gagnrýnt harðlega að Þjóðkirkjan hafi ekki verið höfð sérstaklega með í ráðum um tillögu mannréttindaráðs og gerir því ráð fyrir, eins og svo margir talsmenn kirkjunnar, að Þjóðkirkjan eigi einhvern sérstakan rétt á því að íhlutast um starfsemi opinberra skóla. Þetta er auðvitað mikill misskilningur.

Þórhallur Heimisson – prestur
Þórhallur Heimisson prestur hefur verið ansi stóryrtur í vefmiðlum og óvæginn í garð þeirra sem ekki deila trúarskoðunum hans. Í skrifum sínum fer hann síendurtekið með hrein ósannindi um tillögu mannréttindaráðs og sömuleiðis um skoðanir undirritaðs. Sem dæmi heldur hann því blákalt fram að markmiðið með tillögunum sé að banna umræðu um „vináttu, umhyggju og náungakærleik“ í skólum. Með þessum orðum slær hann tvær flugur í einu höggi. Hann afvegaleiðir lesendur sína með rangfærslum um tillögu mannréttindaráðs og sýnir um leið gífurlega fordóma gagnvart öllu því fólki sem telur sig ekki vera kristið. Ósannindi og fordómar þessa prests eru sérstaklega athyglisverðar í ljósi þess að hann heldur reglulega vinsæl námsskeið um önnur trúarbrögð.

Örn Bárður Jónsson – prestur
Örn Bárður Jónsson prestur skrifar grein í Fréttablaðið og fer rangt með tillögu mannréttindaráðs í öllum meginatriðum og spyr um leið hvort við viljum kannski „þjóðfélag í anda menningarbyltingarinnar í Kína á dögum Maós formanns sem reyndi að þurrka allar skoðanir og háttsemi út nema eina skoðun og einn klæðnað?“ Tenging hans við einræðisherrann í Kína er í senn ógeðfeld og óheppileg. Með því að líkja þeim sem vilja trúfrelsi við einræðissinna og kommúnista afhjúpar hann fordóma sína. Um leið má kannski segja að Þjóðkirkjan sé mun frekar að feta í fótspor Maós. Það er kirkjan sem virðist vilja að stjórnmál hlutist til  um trúarskoðanir fólks, rétt eins og einræðisherrar gjarnan gera. Fordómar prestsins afhjúpuðust endanlega í umræðu sem hann tók þátt í ásamt undirrituðum á Bylgjunni. Þar sagði hann þetta um lífsskoðun okkar húmanista: „Aumasta trú sem til er, það er trúin á manninn.“ Þetta er væntanlega sá boðskapur sem hann vill tryggja að börnin fá í opinberum skólum?

Karl Sigurbjörnsson – biskup
Erfiðast er svo að horfa upp á rangfærslur og fordóma frá sjálfum biskupi Íslands, Karli Sigurbjörnssyni. Segir biskup: „Kerfisbundið virðist vera unnið að því að fela þá staðreynd og víða ráða för skefjalausir fordómar og andúð á trú, sér í lagi kristni og þjóðkirkju.“ Um leið segir hann að ef tillaga mannréttindaráðs verði samþykkt muni það valda „fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð“.

Orð hans eru sérstök í ljósi ummæla ofangreindra presta í garð þerra sem ekki eru kristnir. Einnig í ljósi þess að biskup sjálfur hefur margsinnis sagt trúleysi vera það sama og siðleysi. En það eru óþolandi og fordæmandi ummæli æðsta manns stærsta trúfélags á Íslandi í garð þeirra sem standa utan trúfélaga.

Málefnaleg umræða í stað fordóma og rangfærslna
Ég vonast til að umræðan næstu daga verði málefnalegri en hún hefur verið. Ég skora á fulltrúa kirkjunnar að ræða tillögu mannréttindanefndar en ekki eitthvað allt annað.

Út á þetta gengur tillaga mannréttindaráðs:

  • Banna trúboð í opinberum skólum.
  • Banna trúariðkun í opinberum skólum.
  • Tryggja að börn í opinberum skólum hafi aðgang að sérmenntuðum sérfræðingum ef upp koma áföll.

Tillagan gengur EKKI út á að:

  • Banna fræðslu um trúarbrögð.
  • Banna fræðslu um kristna trú.
  • Henda út gildum eins og vináttu, umhyggju og náungakærleik.
  • Banna litlu jólin, skreyta jólatré og páskaegg.
  • Banna trúboð og tilbeiðslu í samfélaginu (bara í opinberum skólum).

Með von um málefnalega umræðu.

Sjá einnig:

Ísland í bítið fjallar um trúboð í skólum – opið bréf

Deildu