Þjóðkirkjan er á móti því að banna ekki-trúboð í opinberum skólum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

18/10/2010

18. 10. 2010

Í fjölmiðlum í dag vísar Halldór Reynisson, fræðslustjóri á Biskupsstofu, því alfarið á bug að trúboð sé stundað í opinberum skólum. Þetta eru viðbrögð hans við þeim tillögum Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar að fermingafræðsla Þjóðkirkjunnar fari fram utan skólatíma, að bannað verði að dreifa trúarlegu efni í opinberum skólum og sömuleiðis verði starfsmönnum trúfélaga bannað að koma […]

Í fjölmiðlum í dag vísar Halldór Reynisson, fræðslustjóri á Biskupsstofu, því alfarið á bug að trúboð sé stundað í opinberum skólum. Þetta eru viðbrögð hans við þeim tillögum Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar að fermingafræðsla Þjóðkirkjunnar fari fram utan skólatíma, að bannað verði að dreifa trúarlegu efni í opinberum skólum og sömuleiðis verði starfsmönnum trúfélaga bannað að koma inn í skólana með trúarlegan áróður. Þetta er semsagt allt ekki-trúboð samkvæmt fræðslustjóranum.

Enn fremur er það ekki-trúarleg starfsemi, samkvæmt fræðslustjóranum, að láta börn syngja sálma, skapa list og heimsækja bænahús í trúarlegum tilgangi.

Fræðslustjórinn vísar því semsagt alfarið á bug að fermingarfræðsla, trúaráróður, biblíugjafir, sálmar og kirkjur hafi nokkuð með trú að gera. Á einhver annar en ég erfitt með að átta sig á því hvað fræðslustjóri hinnar ríkisreknu Biskupsstofu á við?

Er munur á kirkju og fótboltaklúbbi?
Ef fermingarfræðsla Þjóðkirkjunnar (sem mér skilst að hafi ekkert með trúboð að gera og sé jafnvel ekki stunduð í trúarlegum tilgangi) á að fara fram utan skólatíma, á þá ekki það sama við um íþróttastarfsemi? Spyr fræðslustjórinn. Og hann er ekki einn um að velta þessu fyrir sér. Bjarni Karlsson, fulltrúi í Velferðarráði, sóknarprestur og sérlegur áhugamaður um störf Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, veit ekki heldur hver munurinn er á trúfélagi og íþróttafélagi. Telur hann reyndar ekki að það sé munur á trú, íþróttum, tónlist og útivist ef marka má pistil sem hann birti í dag.

Kannski er Kristin trú álíka mikilvæg í augum presta Þjóðkirkjunnar og stuðningur við KR eða góð gönguferð upp á Esjuna? Ef sú er raunin má velta því fyrir sér hver þörfin er á öllum þessum kirkjubyggingum, prestum og í raun Þjóðkirkjunni sjálfri ef jafna má boðskap kirkjunnar við starfsemi Liverpoolklúbbsins á Íslandi?

Nú tel ég mig vita að prestarnir og fræðslustjórarnir, sem þiggja laun sín frá ríkinu, gera sér fullkomlega grein fyrir muninum á trúaráróðri og trúariðkun annars vegar og íþróttaiðkun hins vegar. Þeir kjósa einfaldlega að gera lítið úr þessum mun vegna þess að þeir óttast að Þjóðkirkjan missi nánast óheftan aðgang sinna að börnum í opinberum skólum. Ég er svo fullviss um að þeir þekkja muninn að ég nenni ekki einu sinni að útskýra hann hér. Hef gert það margoft annars staðar.

Bestu ráðin eru jafnan næst
Umræðan um bann við trúaráróðri og trúariðkun í opinberum skólum fjallar mikið til um rétt foreldra til að ala börn sín samkvæmt eigin lífsskoðun, ekki lífsskoðun hins opinbera. Því tel ég að Bjarni Karlsson hafi komist ansi nálægt kjarna málsins þegar hann segir í varnarræðu sinni fyrir trúboði:

„Enn er réttast að ákvarðanir séu teknar heima í hverfi en ekki inni í ráðhúsi. Bestu ráðin eru jafnan næst.“

Sérstaklega er ég sammála síðustu setningunni. „Bestu ráðin eru jafnan næst“. Ákvörðun um trúaruppeldi barna á að taka inn á heimilum, ekki inní ráðhúsi, ekki í hverfum, ekki af skólastjórnendum og ekki af kennurum. Foreldrar eiga að ráða því sjálfir hvort og þá hvaða trúaruppeldi sín börn fá.

Deildu